Síðastliðinn sunnudag hefði Soheila Golestani átt að vera að klæða sig upp fyrir Óskarsverðlaunaathöfnina. Golestani er aðalleikkona írönsku kvikmyndarinnar Afleggjari hins heilaga fíkjutrés, sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin. En þess í stað sat hún á náttfötunum í stofufangelsi í Teheran.
Golestani bíður þess að koma fyrir dómstól Íranska byltingarvarðarins en hún er sökuð um „áróður gegn klerkastjórninni“ með leik sínum í myndinni. Á Golestani yfir höfði sér fangelsisvist og 74 svipuhögg.
Afleggjari hins heilaga fíkjutrés er hörð ádeila á kúgun íranskra stjórnvalda á þegnum sínum. Myndin var tekin upp í leyfisleysi og hefur hún ekki fallið í kramið hjá yfirvöldum. Leikstjóra myndarinnar og helstu leikurum hennar tókst að flýja Íran í maí síðastliðnum en Golestani var þá stödd í bráðaaðgerð á spítala og komst ekki með.
Golestani mætir örlögum sínum þó af undraverðu æðruleysi. Í viðtali við dagblaðið The Times skömmu fyrir Óskarinn viðurkenndi hún að það hefði óneitanlega verið skemmtilegt að geta verið viðstödd verðlaunahátíðina. Hún vildi þó heldur „halda kyrru fyrir“ og „standa á rétti“ sínum „til að gera það sem hún gerði“.
„Væru verðlaunin veitt fyrir ræfilsskap hlyti athöfnin sjálf heiðurinn“
Væri Óskarinn veittur fyrir hugrekki teldist Afleggjari hins heilaga fíkjutrés óumdeildur sigurvegari. Væru verðlaunin veitt fyrir ræfilsskap hlyti athöfnin sjálf heiðurinn. Því þótt víða glitti í bert hold í gegnum gagnsæja skrautkjóla sást hvergi móta fyrir dirfsku.
Uppgjöf gagnvart óttanum
Við veitingu Óskarsverðlaunanna árið 2017, við upphaf fyrra kjörtímabils Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna, lá Hollywood ekki á skoðun sinni á leiðtoganum. Kvöldlangt gerði kynnir hátíðarinnar stólpagrín að hinum nýja forseta og ræður verðlaunahafa innihéldu tilfinningaþrungnar yfirlýsingar um mikilvægi þess að standa vörð um frjálslyndi.
Átta árum síðar var komið annað hljóð í strokkinn. Við upphaf síðara kjörtímabils Trumps fóru bljúgir listamenn með innantómt orðagjálfur um mikilvægi þess „að fara í bíó“ þegar „manni finnst heimurinn klofinn“ og var forsetinn hvergi nefndur á nafn.
Vísbendingar um uppgjöf Hollywood gagnvart Trump blöstu við löngu fyrir endurkjör hans í embætti forseta.
„Það er eins og fólk sé búið að gefast upp fyrir óttanum“
Kvikmyndin Lærlingurinn (e. The Apprentice) var frumsýnd á síðasta ári en hún fjallar um samband Trumps við Roy Cohn, umdeildan lögmann sem var lærimeistari forsetans við upphaf viðskiptaferils hans. Myndin féll ekki í kramið hjá Trump og í kjölfarið fékkst ekki eitt einasta fyrirtæki í Hollywood til að annast dreifingu hennar. „Hringdu í mig ef Trump tapar kosningunum,“ sagði frægur kvikmyndaframleiðandi við handritshöfund myndarinnar.
Þótt myndin hafi hlotið Óskarstilnefningar fyrir besta aðalleikara og besta leikara í aukahlutverki fékk hún litla athygli í aðdraganda hátíðarinnar. „Um þessar mundir virðist eiga sér stað almennur hvítþvottur og gelding á menningu,“ sagði Jeremy Strong, sem fer með hlutverk í myndinni og margir þekkja úr sjónvarpsþáttunum „Succession“. Strong segir hræðslu við að rugga bátnum skaðlega listum sem eigi að vera spegill á umhverfi okkar. „En það er eins og fólk sé búið að gefast upp fyrir óttanum.“
Að gangast undir vald
Í myndinni Afleggjari hins heilaga fíkjutrés fer Soheila Golestani með hlutverk eiginkonu embættismanns við dómstól Íranska byltingarvarðarins. Þegar eiginmanni hennar býðst stöðuhækkun, sem krefst þess að hann skrifi upp á dauðarefsingar í málum þar sem litlum sönnunargögnum er fyrir að fara, togast á með henni löngun í ávinninginn sem henni fylgir – stærri íbúð, virðing og kannski uppþvottavél – og samviska hennar.
Leikstjórinn Mohammad Rasoulof sagðist í viðtali hafa fengið hugmyndina að myndinni þegar hann sat í fangelsi fyrir kvikmyndagerð sína og ræddi við einn fangavarðanna sem gættu hans. Með myndinni vildi hann „sýna hversu tilbúið fólk er til að gleyma mannkostum sínum og gangast undir vald“.
Í aðdraganda Óskarsverðlaunanna líkti leikstjóri kvikmyndarinnar Lærlingsins, myndarinnar um Donald Trump, ritskoðun í Bandaríkjunum við ritskoðun í Rússlandi, Kína og Íran. „Hér ertu ekki tekinn af lífi eða settur í fangelsi. Þú ert einfaldlega grafinn.“
Ef marka má nýafstaðna Óskarsverðlaunahátíð virðist Hollywood búin að gleyma mannkostum sínum og gengst nú skeytingarlaus undir vald Donalds Trump.
Hvað verður um framtíðina?