Í mars árið 2012 fæddist fátækum hjónum tvíburar á Mulago-spítalanum í Úganda. Hjónunum var þó aðeins afhent annað barnanna. Hitt hafði að sögn andast skömmu eftir fæðingu. Eftir að þau gengu hart eftir því voru þeim afhentar líkamsleifar. DNA-próf leiddi hins vegar í ljós að ekki var um barn þeirra að ræða.
Hjónin höfðuðu mál gegn spítalanum. Árið 2017 var kveðinn upp sögulegur dómur við héraðsdóm Úganda. Dómarinn Lydia Mugambe komst að þeirri niðurstöðu að spítalinn hefði margbrugðist umönnunarskyldu sinni við móðurina og dæmdi hjónunum skaðabætur. Hún sagði málið þó snerta mannréttindi fleiri en hjónanna. Áréttaði hún í dómi sínum þá skyldu ríkisins samkvæmt mannréttindasáttmála Afríkusambandsins, að tryggja rétt almennings til heilsu, sér í lagi þeirra sem byggju við ójöfnuð.
Dómurinn hlaut í kjölfarið verðlaun mannréttindasamtaka og var Lydia Mugambe hyllt sem sérlegur haukur í horni kvenna sem minna máttu sín.
Með litlum tilkostnaði
Í síðustu viku mátti lesa í breskum fjölmiðlum fréttir af dómsmáli sem fer nú fram í Oxford á Englandi. Er kona ákærð fyrir mansal og fyrir að halda þræl. Sakborningurinn er engin önnur en Lydia Mugambe.
Mugambe, sem nýverið tók við sem dómari við alþjóðlegan sakamáladómstól á vegum Sameinuðu þjóðanna og stundar doktorsnám í lögfræði við Oxford-háskóla, er gefið að sök að hafa „með svívirðilegum hætti“ misnotað stöðu sína er hún lokkaði unga konu frá Úganda til Bretlands og lét hana vinna fyrir sig launalaust sem húshjálp og barnfóstra. Segir saksóknari Mugambe hafa ætlað að verða sér úti um „einhvern sem gæti auðveldað henni lífið með sem minnstum tilkostnaði“.
Verði Mugambe fundin sek fer hún frá því að vera mannréttindafrömuður í að vera forhertur tækifærissinni sem nýtir sér yfirburðastöðu sína til að níðast á minni máttar í eiginhagsmunaskyni. Slík dómsniðurstaða yrði þó til vitnis um fleira en fótum troðin mannréttindi fórnarlambsins.
Svöng og í spreng
Nýverið vakti athygli viðtal í sjónvarpsfréttum RÚV við Andreinu Edwards Quero sem starfaði við þrif hjá íslensku ræstingafyrirtæki. Andreina lýsti í viðtalinu vinnuálagi sem hefði verið slíkt að stundum hefði hún ekki getað nýtt matartíma sinn – 15 mínútur í morgunmat og 15 mínútur í hádegismat – og þurft að pissa í ílát í bílnum þar sem hún komst ekki á klósett.
Aukin útvistun ríkis og sveitarfélaga á ræstingum hefur sætt gagnrýni. Árið 2023 fordæmdi miðstjórn ASÍ þróunina sem hún sagði skapa „eins konar þrælastétt í íslensku samfélagi“.
„Ef saga Andreinu er dæmisaga um þau sem níðst er á er saga dómarans Mugambe dæmisaga um fína fólkið sem situr hinum megin borðsins.“
Í síðustu viku sendu ASÍ, Starfsgreinasamband Íslands og Efling frá sér yfirlýsingu þar sem ræstingafyrirtæki voru sökuð um að „lækka laun starfsfólks síns um 20%“ og „auka enn hagnað sinn með því að níðast á þeim hópum launafólks sem fullyrða má að eru í erfiðustu stöðu hér á landi“. Voru atvinnurekendur sakaðir um að telja „sjálfsagt að nýta sér yfirburðastöðu sína“ gagnvart aðfluttu launafólki.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði sögu Andreinu Edwards Quero ekki sögu „einnar manneskju“ heldur „dæmisögu“.
Ef saga Andreinu er dæmisaga um þau sem níðst er á er saga dómarans Mugambe dæmisaga um fína fólkið sem situr hinum megin borðsins.
Ísland er ríkt, frjálslynt land þar sem menntunarstig er hátt, virðing er borin fyrir mannréttindum og ójöfnuður er talinn óæskilegur. En rétt eins og í tilfelli hins hámenntaða og víðsýna dómara, mannréttindafrömuðar og jafnréttissinna fer það ekki alltaf saman að vera gæðamanneskja í orði og á borði.
Mugambe, málsvari lítilmagnans, virðist ekki hafa veigrað sér við að nýta sér til hagnaðar og hægðarauka yfirburðastöðu sína og neyð þess hóps sem hún var málsvari fyrir. Að sama skapi virðist íslenskt samfélag ekki ætla að veigra sér við að nýta sér til hagnaðar og hægðarauka yfirburðastöðu sína gagnvart erlendu vinnuafli.
Hvaða gagn er að því að halda úti jafnréttisráðum og mannréttindaskrifstofum þegar lyklaborðsstéttin gerir ekki svo mikið sem líta af nýjustu skýrslunni sem er í smíðum á láglaunakonuna frá fjarlægu landi sem skúrar kringum skrifborðin, svöng og í spreng?
Eins og Mugambe verður íslenskt samfélag sér nú úti um „einhvern sem gæti auðveldað“ því „lífið með sem minnstum tilkostnaði“. Við köllum það skilvirkni. Saksóknari í Oxford kallar það þrælahald.
Athugasemdir (2)