Þau tímamót urðu fyrir allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag að Bandaríkin tóku afstöðu með Rússlandi, Norður-Kóreu og 16 öðrum ríkjum gegn því að fordæma „allsherjarinnrás Rússlands í Úkraínu“.
Bandaríkin höfðu lagt til ályktun með mildara orðalagi í þágu Rússa, með þeim hætti að lýsa „deilu Rússlands og Úkraínu“. Það er í samræmi við lýsingar Kínverja í gegnum tíðina, en Kína sat hjá í atkvæðagreiðslunni.
Allsherjarþingið samþykkti ályktunina, sem Evrópusambandsríki og Úkraína lögðu fram, um að fordæma innrás Rússa með atkvæðum 93 ríkja, meðal annars Íslands. 65 ríki sátu hjá og 18 greiddu atkvæði gegn henni, en ásamt Bandaríkjunum voru það Ungverjaland, Ísrael, Hvíta Rússland, Níkaragúa, Haítí og til viðbótar fyrst og fremst Afríkuríki.
Þetta er samkvæmt samantekt Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna mikil breyting frá ályktun um innrásarstríðið þegar það hófst fyrir þremur árum. Þá greiddu 141 ríki atkvæði með fordæmingu innrásarinnar, en 35 sátu hjá og aðeins fimm voru á móti.
Með þessu formgerist að Bandaríkin hafa breytt áherslu sinni og styðja nú málstað Rússlands fremur en málstað Úkraínu og Evrópu. Speglast það sömuleiðis í orðræðu Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem hefur í bland við ýmis önnur ósannindi kennt Úkraínu um stríðið og sagt að Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti sé einræðisherra.

Í meðförum Bandaríkjanna hljóðaði þingsályktunartillagan sem svo að „hvetja til tafarlausra endaloka deilunnar og varanlegs friðar milli Úkraínu og Rússlands.“
Í breytingartillögu var orðalagi um „deilu“ breytt í „allsherjarinnrás Rússlands“ og setningu um „varanlegan frið milli Úkraínu og Rússlands“ skipt út fyrir „réttlátan, varanlegan og altækan frið milli Úkraínu og Rússlands, í samræmi við sáttmála Sameinuðu þjóðanna og meginreglur um jafnræði fullvalda ríkja og landhelgi þeirra“.
Sömuleiðis var bætt við efnisgrein um réttindi Úkraínu, með þeim hætti að „staðfesta skuldbindingu við fullveldi, sjálfstæði, einingu og yfirráð Úkraínu innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra hennar, þar með talið landhelgi.“
Sem fyrr segir voru Bandaríkin andvíg breytingunum og skáru sig þar úr hópi helstu lýðræðisríkja heimsins. Í máli Dorothy Shea, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, kom fram að fyrri ályktanir, sem fordæmdu Rússa, hefðu ekki náð að stöðva stríðið.
Athugasemdir (1)