„Það eru girðingar að falla um alla sveitina sem við búum í. Það er brjálað bjarndýr laust og helsti vinur okkar er allt í einu kominn í vináttusamband við þetta bjarndýr. Það er auðvitað áhyggjuefni. Þetta eru mjög válegir tímar.“
Þetta segir Erlingur Erlingsson, hernaðarsagnfræðingur og fyrrverandi starfsmaður utanríkisráðuneytisins, í samtali við Heimildina. Hann hefur einnig starfað á vegum Sameinuðu þjóðanna og NATO í Afganistan.

Erlingur segir atburðarásina, sem hófst í síðustu viku með ræðu varnarmálaráðherra Bandaríkjanna á fundi bakhjarla Úkraínu í Brussel, virðast versna frá degi til dags. „Það er verið að brjóta niður öryggiskerfi sem hefur gilt frá 1945, svo það færir okkur auðvitað til þess tíma þegar öflug ríki gátu farið sínu fram í krafti hervalds. Sem er mjög hættulegt, sérstaklega fyrir smáríki,“ segir hann, en tekur fram að þrátt fyrir allt stefni ekki í heimsstyrjöld að svo stöddu.
Athugasemdir