Samstarfssáttmáli Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar í Reykjavík var samþykktur í júní 2022. Í honum er megináhersla lögð á uppbyggingu húsnæðis í borginni og úthlutun lóða svo sem í Úlfarsárdal, á Ártúnshöfða, Hlíðarenda, Kjalarnesi. Ennfremur að flýtt skuli skipulagi íbúðabyggðar í Keldnalandi. Áhersla er lögð á samgöngur; Borgarlínu og undirbúning Sundabrautar. Fram kemur í sáttmálanum að skipulagssýn kjörtímabilsins skuli byggð á aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Einnig að staðinn verði vörður um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins í samstarfi við nágrannasveitarfélögin.
Margt annað mætti telja upp, sem gengið hefur eftir, við látum nægja að nefna að frístundastyrkur verði hækkaður upp í 75.000 krónur og að flýtt verði viðhaldsátaki í leik- og grunnskólum. Í sáttmálanum kemur einnig fram, sem er kannski mikilvægast, að borgin skuli skipulögð út frá hagsmunum barna. Sáttmáli sem þessi er grundvöllur fyrir samstarfi ólíkra flokka í meirihluta hverju sinni. Hann byggir á ítarlegum samræðum og rökræðum og málamiðlunum. Hann leggur meginlínu fyrir samstarfið næstu fjögur árin. Auðvitað getur slíkur sáttmáli ekki tekið til allra aðstæðna eða allra mála. En hann er mikilvægt leiðarljós og eitt af haldreipum meirihlutasamstarfsins. Þannig hefur þetta gengið til og gengið vel í meirihlutastjórnum þriggja síðustu kjörtímabila. Og þannig gekk þetta líka til á þessu kjörtímabili, að við töldum. Á blaðamannfundi 6. júní 2022 kvaðst oddviti Framsóknarflokksins, Einar Þorsteinsson, afar ánægður með sáttmálann enda svaraði hann „að öllu leyti kröfu Framsóknar um breytingar.“
Hvað fór úrskeiðis?
Stutta svarið er að fyrirvaralaus og einhliða slit meirihlutasamstarfsins að kvöldi föstudagsins 8. febrúar komu okkur í opna skjöldu. Langa svarið er svona: Auðvitað voru skiptar skoðanir í einhverjum málum, til að mynda hvað varðar hugmyndir um fyrirtækjaskóla og heimgreiðslur til foreldra. En flugvallarmálið var erfiðara.
Við vissum, og tókum tillit til þess, að bakland Framsóknar, eins og það var jafnan orðað, taldi ekki mega hreyfa við flugvellinum. En það stóð heldur ekki til á þessu kjörtímabili og heldur ekki því næsta. Í samstarfssáttmálum flokkanna er mikilvægi innanlandsflugvallar meira að segja áréttað. Þar stendur að nýr meirihluti ætli að virða alla samninga Reykjavíkurborgar og ríkisins um innanlandsflug og Reykjavíkurflugvöll. Þar stendur reyndar líka að ætlunin sé að byggja nýtt hverfi í Skerjafirði en taka tillit til Reykjavíkurflugvallar á byggingartíma þess og til faglegs áhættumats í samvinnu við Isavia. Þetta var línan sem við vorum sammála um. Það að ekkert hafi enn orðið úr byggingu Nýja Skerjó er önnur saga sem Isavia og innviðaráðuneytið þurfa að standa skil á.
Á undirbúningsfundi meirihlutans 3. febrúar var rætt um dagskrá borgarstjórnarfundar daginn eftir þar sem ætlunin var ræða atvinnumál. Þar kom fram að Einar Þorsteinsson og fulltrúar Framsóknarflokksins voru hliðhollir tillögu Sjálfstæðisflokksins um að hefja endurskoðun á aðalskipulagi Reykjavíkur með það fyrir augum að festa flugvöllinn í Vatnsmýri í sessi til ársins 2040. Auk þess, sagði í greinargerð Sjálfstæðisflokksins, þyrfti að uppfæra húsnæðisáætlun borgarinnar því engar íbúðir yrðu byggðar á flugvallarsvæðinu á gildistíma aðalskipulagsins. Nokkrar umræður urðu um afstöðu Framsóknar á undirbúningsfundinum.
Niðurstaðan var sú að vísa tillögunni, daginn eftir, til skoðunar og meðferðar í umhverfis- og skipulagsráði. Þó var ljóst að ýmsir fulltrúar meirihlutans, þar með talið við borgarfulltrúar Samfylkingar, töldu fullt tilefni til að vísa tillögunni frá. Gildandi aðalskipulag og samstarfssáttmáli flokkanna stæðu fyrir sínu. Sama mætti segja um húsnæðisáætlun, hún stæði hvorki né félli með fyrirhuguðum íbúðum á flugvallarsvæðinu. Ákvörðunina um að vísa tillögunni til umhverfis og skipulagsráðs sáum við sem málamiðlun.
Borgarstjórnarfundurinn fjórða febrúar þróaðist þannig að á sjötta tímanum, eftir fjögurra tíma fund, tilkynntu borgarfulltrúar Framsóknar að þeir vildu bóka sérstaklega, sem Framsóknarmenn, og lögðu fram drög þar sem lýst var yfir stuðningi við tillögu Sjálfstæðisflokksins. Það kom flatt upp á okkur hin í meirihlutaflokkunum. Okkur fannst sérstakt, svo ekki sé meira sagt, að flokkur borgarstjóra ætlaði að bóka sér. Við töldum að samkomulag hefði orðið um að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis og skipulagssviðs.
Oddviti Samfylkingarinnar óskaði eftir fundarhléi til að ræða þessar nýju vendingar. Í hléinu var, í aflokuðu herbergi, tekist á um afleiðingar þess fyrir meirihlutasamstarfið að einn flokkur skæri sig frá hinum í svo veigamiklu máli sem aðalskipulag borgarinnar er. Enginn fótur er fyrir því að oddviti Samfylkingarinnar hafi öskrað á oddvita Framsóknarflokksins á þessum lokaða fundi, eins og fullyrt er í grein Heimildarinnar. Furðu sætir að mark sé tekið á slíku slúðri í blaði sem vill láta taka sig alvarlega en lætur sér engu að síður sæma að birta langloku þar sem enginn viðmælandi er nefndur á nafn. Ekki var hótað slitum á meirihlutastarfinu eins og ráða má af greininni. Það hefur meðal annars verið staðfest af oddvita Viðreisnar. Þegar upp koma ágreiningsmál í meirihlutasamstarfi er farsælast að ræða sig til niðurstöðu sem allir aðilar geta staðið saman um. Það verður verklag nýs meirihluta. Við hlökkum til að taka þátt í nýrri félagshyggjustjórn í Reykjavík.
Höfundar eru borgarfulltrúar Samfylkingar
Athugasemd Heimildarinnar: Heimildin stendur við umfjöllun sína um slit borgarstjórnar. Við vinnslu greinarinnar var rætt við á annan tug einstaklinga úr öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti í borgarstjórn og fyrir utan um atburðarrásina sem átti sér stað þá þrjá daga sem leiddu að endanlegum stjórnarslitum meirihlutans í Reykjavík. Ritstjórn Heimildarinnar hafnar ummælum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar að um slúður sé að ræða. Löng hefð er fyrir því um allan heim að fjölmiðlar greini frá atburðum með aðstoð nafnlausra heimilda til að draga fram raunsanna atburðarás um flókna atburði, eins og stjórnarslit.
Hefur einhver kíkt á veðuryfirlit síðustu ára... en halda menn veðrið sé eins og í Danmörku....það er það ekki.
Og látum borgarfyrirtækin sjálfala... þau geta spilað á markaðnum.... hækkum bara verðið ef illa fer... og líka ef vel fer.