Sósíalistaflokkur Íslands, Vinstri græn, Píratar, Flokkur fólksins og Samfylkingin eru byrjuð í formlegum meirihlutaviðræðum að því er fram kemur í tilkynningu frá flokkunum. Yfirlýsingin er örstutt og segir í fyrirsögn að fimm flokkar hyggist hefja formlegar viðræður um samstarf á félagslegum grunni.
Svo segir orðrétt: „Markmið okkar er að setja velferð og lífskjör allra Reykvíkinga í forgrunn. Við ætlum að vanda vel til verka og munum upplýsa um gang mála eftir því sem vinnan þróast.“
Meirihlutinn sprakk fyrir helgi þegar borgarstjóri Reykjavíkur og oddviti Framsóknarflokksins, Einar Þorsteinsson, tilkynnti um slit á meirihluta eftir fund með oddvitum Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar. Síðan þá hafa flokkarnir reynt að tala sig saman með misjöfnum árangri, en um tíma var stefnt á að hefja viðræður á milli Flokks fólksins, Viðreisnar, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Þeim var snarlega slitið eftir að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagðist aldrei vilja leiða Sjálfstæðismenn til valda og bar fyrir sig aðgangsharða gagnrýni flokksins og Morgunblaðsins vegna styrkjamálsins svokallaða.
Athugasemdir (2)