Sko. Það sem er verst við atburðina í borgarstjórn Reykjavíkur er ekki tilhugsunin um að núverandi meirihluti fari frá.
Það deyr enginn þótt það gerist.
Að sumu leyti er það bara gott því Einar Þorsteinsson borgarstjóri hefur svo augljóslega ekki virst starfi sínu vaxinn þótt maður hafi náttúrlega gert sér vonir um að hann myndi skána í starfi eins og fólk gerir einatt.
En nei, það er ekki það versta.
Það versta er með hvaða hætti það gerist.
Að okkur — fullorðnu fólki — sé boðið upp á hlægilegar lygar og skítafrat.
Í fyrsta lagi: Meirihlutinn er auðvitað ekki að springa vegna „flugvallarmálsins“. Það er svo hlægilegur fyrirsláttur að fréttamenn eiga ekki einu sinni að hafa það bull eftir Einari Þorsteinssyni.
Þeir ættu bara að taka til við að stanga úr tönnunum á sér ef hann reynir enn að fara með þá þulu.
Í öðru lagi: Meirihlutinn er heldur ekki að springa vegna þess að Framsóknarflokkurinn hafi ekki „náð sínum málum fram“ í borgarstjórn. Það er eiginlega alveg jafn hlægilegur fyrirsláttur og „flugvallarmálið“.
Meirihlutinn er ósköp einfaldlega að springa vegna þess að Einar Þorsteinsson taldi það verða sér persónulega til hagsbóta eftir að séð skoðanakönnun sem gaf til kynna að fylgi ætti hann orðið ósköp lítið, ósköp ósköp lítið í Reykjavík.
Það þarf ekki að nefna til augljósari sönnun þess en að hinir fulltrúarnir í borgarstjórnarflokki Framsóknar höfðu ekki hugmynd um að neitt væri að. Enda sagði hann þeim ekki einu sinni frá því sem hann ætlaði að gera.
Hvílíkur leiðtogi! Ó hve traustsins verður, ha?
En sem sagt, við getum haft allskonar skoðanir á því hvernig best er að haga stjórn borgarinnar. Höfum endilega sem fjölbreytilegastar skoðanir á því! Við erum mörg og mismunandi skoðanir eru bara eðlilegar.
En ég verð að viðurkenna: Mér finnst helvíti hart að þurfa að horfa upp á það eftir öll þessi ár að enn skuli eiga að bjóða okkur upp á lygar og augljósan fyrirslátt í stað þess að segja bara sannleikann.
Og enn skuli eiga að eyða orku og tíma og trausti okkar í að fjalla um augljósan þvætting eins og hann sé í alvörunni.
Endilega reyndu að mynda nýjan meirihluta, Einar Þorsteinsson, ef einhver hafa geð í sér til að vera með manni sem hefur í frammi svo augljósar „brellur“.
En ekki þessar lygar, takk.
Ekki þetta skítafrat.
Athugasemdir