Síðastliðið haust buðu félagasamtökin Öfgar og Hagsmunasamtök brotaþola til kertavöku til minningar þeirra kvenna sem ganga ekki lengur á meðal okkar vegna afleiðinga kynbundins ofbeldis. Ólöf Tara Harðardóttir setti viðburðinn með þessum orðum:
„Við erum hér samankomin af nokkrum ástæðum, en fyrst og fremst til þess að minnast þeirra kvenna sem eru ekki lengur með okkur vegna afleiðinga kynbundins ofbeldis. Þessi kertavaka er til þess varðveita minningu þeirra og auðvitað til að minna okkur á að við eigum enn langt í land, við megum ekki sofna á verðinum, við þurfum reglulega að þjappa samstöðuna og hughreysta hvert annað.“
Ekki skorti ástæðu til: „Hvort sem við erum þolendur, aðstandendur eða brjálað baráttufólk þá sest allt bakslag í baráttunni á taugakerfið okkar. Árið 2024 hefur verið eitt stórt fokking bakslag. Þess vegna er svo mikilvægt að við stöndum hér saman í dag.“
Hversu mörg líf í viðbót?
Ísland hafi lengi verið álitin jafnréttisparadís, eitt öruggasta land í heimi. En fyrir hvern er Ísland öruggt? spurði hún svo og svaraði: „Ísland er eitt öruggasta land í heimi, nema þú sért kona.“
Tölfræði um tíðni kynbundins ofbeldis væri sú sama á Íslandi og öðrum vestrænum löndum og tíðni kvenmorða sú sama og í löndum sem við ættum að standa framar þegar kemur að jafnrétti. Sem væru skilaboð um að stjórnvöld taki kynbundið ofbeldi ekki eins alvarlega og vera ber. Um væri að ræða faraldur sem ógnar lífi og heilsu kvenna. „Jafnvel þótt þær lifi af ofbeldið sjálft er alls ekki víst að þær lifi af afleiðingarnar.“
Hún beindi síðan spurningum að þeim sem „hafa völd til að hjálpa okkur“ – hversu margar byltingar þarf í viðbót, hversu margar konur eru ásættanlegur fórnarkostnaður, hversu mörg líf í viðbót? „Hvað þarf til að kynbundið ofbeldi sé tekið alvarlega og við sjáum raunverulegar aðgerðir í stað innantómra orða?“
Að okkur hinum beindi hún annarri spurningu: „Hversu lengi ætlum við að láta bjóða okkur upp á þetta?“ Hvatti hún fólk til þess að fara heim með þá hugsun: „Hvað get ég gert?“
Sjálf vonaðist hún til þess að þessi viðburður myndi fylla fólk af orku og eldmóði til að berjast áfram.
Að ræðuhöldum loknum var gengið í þögn að Reykjavíkurtjörn þar sem kveikt var á kertum og sungið saman.
Á þessari stundu hvarflaði ekki að neinum að aðeins örfáum mánuðum síðar myndum við skrifa í minningu hennar, til að halda baráttu hennar og hugsjónum á lofti.
Von mína og líf mitt
Þetta októberkvöld við Tjörnina voru sungin tvö lög: Maístjarnan og Sofðu unga ástin mín.
„Ég hef ekkert að bjóða, ekki ögn sem ég gef, nema von mína og líf mitt, hvort ég vaki eða sef,“ segir í texta Maístjörnunnar og er táknrænt fyrir baráttu kvenna gegn kynbundu ofbeldi. Kvenna eins og Ólafar Töru sem gáfu von sína og líf sitt í baráttu fyrir betra samfélagi fyrir brotaþola.
Baráttu sem er alla jafna háð af brotaþolum sjálfum. Konum sem hafa verið brotnar, risið upp og látið í sér heyra. Af því að þær gátu ekki annað.
Konur sem hafa upplifað misréttið og gera sér því grein fyrir alvarleika þess að aðhafast ekkert. Ólíkt öðrum er þeim ófært að standa andvaralausar hjá, því þær hafa verið sviptar getunni til þess að gera lítið úr ofbeldi og afleiðingum þess. Þær þekkja sársaukann og geta ekki horft upp á aðra kveljast í þögninni, aðgerðarleysinu og skeytingarleysinu.
Konur sem eru drifnar áfram af þrá fyrir að snúa sárri reynslu upp í sigur og berjast fyrir réttlæti fyrir þá sem á eftir koma.
Og einstaka karlar.
Með réttu myndi samfélagið bera þessa byrði og heyja þessa baráttu á meðan hlúð væri að brotaþolum. En það er ekki og hefur aldrei verið raunin. Hér hafa brotaþolar verið skildir eftir á berangri og látnir sjá um sig sjálfir. Allt frá því að þeir þurfa að tjasla sér saman eftir ofbeldið og þar til þeir krefjast úrbóta á kerfinu sem hefur brugðist þeim og breyttra viðhorfa samfélagsins.
„Ég er ein af þeim“
„Ég er bara venjuleg kona.“ Þannig kynnti Ólöf Tara sjálfa sig í samtali við Bjarka Þór Grönfeldt lektor um hatursorðræðu á jafnréttisdögum í fyrra. Samtalið fór fram á vegum Háskólans á Bifröst og þar mættust þau tvö, hún sem kona sem hafði upplifað hatursorðræðu á eigin skinni og hann sem fræðimaður sem hefur rannsakað áhrif hatursorðræðu.
Fullyrðingin um að Ólöf væri venjuleg kona var bæði rétt og röng. Hún var rétt að því leyti að Ólöf féll inn í tölfræðina. Sjálf skrifaði hún um þá staðreynd í nóvember í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi.
Ólöf Tara hóf erindi sitt:
-
Á 10 mínútna fresti er kona myrt af einhverjum sem hún þekkir.
-
Á heimsvísu er ein af hverjum þremur stúlkum og konum beittar líkamlega og eða kynferðislegu ofbeldi. Á Íslandi eru þær ein af hverjum fjórum.
-
Ein af hverjum fjórum unglingsstúlkum verður fyrir ofbeldi í nánu sambandi.
„Ég, Ólöf Tara, er ein af hverjum fjórum. Ég er ein af þeim sem kærði ekki. Kannski einn daginn verð ég tölfræðin um konuna sem lést langt fyrir aldur fram vegna afleiðinga ofbeldis, með öllum hinum konunum. Tölfræði í lifandi lífi og tölfræði eftir lifandi líf. […] Just my dark thoughts á alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi.“
Lögðu sjálfar sig að veði
Fullyrðing Ólafar Töru um að hún væri venjuleg kona var hins vegar ekki að öllu leyti rétt. Hún var engin venjuleg kona þegar kom að valdeflingu kvenna, baráttunni fyrir réttlátara samfélagi og þeim eldi sem bjó í brjósti hennar.
„Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi hefur staðið yfir lengur en ég hef lifað. Konur sem hafa lifað af þjáningu kvalara sinna hafa berskjaldað sig inn að beini í þágu breytinga,“ sagði Ólöf Tara.
Stundum er talað um Ísland sem jafnréttisparadís, en í því samhengi virðist stundum gleymast að þær eru orðnar ansi margar konurnar sem hafa lagt sjálfar sig að veði til þess að benda á misrétti og knýja fram breytingar. Óheyrilegur fjöldi kvenna hefur berskjaldað sig, í von um að auka skilning samfélagsins. Margar hafa mætt mótlæti vegna þessa og í verstu tilfellum hafa þær orðið fyrir áreiti, aðkasti og jafnvel ofbeldi vegna þess að þær tjáðu sig opinskátt um misréttið.
Þegar litið er til baka má sjá að allt of margar konur sem lögðu sjálfar sig að veði létust langt fyrir aldur fram. Konurnar sem sökuðu biskup um kynferðislega áreitni og ofbeldi máttu í kjölfarið þola aðkast samfélagsins. Þær sem stóðu fremst í víglínunni og hvikuðu hvergi létust báðar langt fyrir aldur fram. Kristín Gerður Guðmundsdóttir reyndi að vekja samfélagið til vitundar um skaðlegar afleiðingar vændis og veruleikann hér á landi en gafst að lokum upp. Fleiri hafa látist á þessari vegferð. „Þessar konur uppskera oftar en ekki háð af hálfu samfélagsins,“ hélt Ólöf Tara áfram og bætti því við að konur sem tala opinskátt um ofbeldismenninguna séu því miður útsettari fyrir frekara ofbeldi.
Síðustu ár hefur hún margoft lýst því fyrir samfélaginu hversu hættulegt það er. Árið 2022 las hún upp í viðtali við Eigin konur skilaboð sem henni hafði borist vegna þátttöku sinnar í opinberri umræðu um ofbeldismenningu. Skilaboðin voru meiðandi, innihéldu ljót orð, hótanir um líkamsmeiðingar og annað verra. Hún sagðist ekki vera viss um að menn sem sendi svona skilaboð átti sig á alvarleikanum. Það væri erfitt að taka á móti þessu.
Smánaðar og skammaðar
Síðar sama ár var kallað eftir innleggi frá yngri konum á 40 ára afmælishátíð Kvennalistans. „Konur hafa í gegnum aldanna rás verið sviptar rödd sinni með öllum tiltækum ráðum,“ sagði Ólöf Tara. „Lokaðar á geðsjúkrahúsum, hraktar úr landi, opinberlega smánaðar af gerendum sínum og þeirra bandamönnum og þaggaðar niður í nafni réttarríkis.“ Réttarríki sem brýtur á réttindum brotaþola, virkar ekki fyrir þolendur, gerir gerendum kleift að þagga niður í brotaþolum og halda áfram að beita ofbeldi. „Réttarríki sem virkar aðeins fyrir gerendur,“ hélt hún áfram. „Þolendur eru kærðir fyrir að kæra, þolendur eru kærðir fyrir að nýta tjáningarfrelsið, þolendur eru smánaðir og skammaðir fyrir að hafa hugrekki til að slíta sig úr hreðjum þöggunar og ofbeldis.“
Tjáningarfrelsið gerði brotaþolum hins vegar kleift að segja sögu sína þegar réttarkerfið hlustar ekki, knýja fram breytingar og skila skömminni. Því væri hins vegar mætt af fullri hörku. Valdamiklir menn nýttu sér síðan fjölmiðla til þess að þagga niður í þolendum, undir formerkjum tjáningarfrelsisins – sem þeir vildu svipta brotaþola. „Fjölmiðlar nota okkur til að græða tekjur með því að slá okkur upp í aggressífum fyrirsögnum, fjalla um okkur aftur og aftur og aftur á neikvæðan hátt og kynda vel undir fyrirlitningu á okkur í kommentakerfunum. Við erum afmennskaðar vísvitandi,“ sagði hún og lýsti því hvernig það leiði yfir þær kvenhatara sem ráðast á þær með ofbeldisfullum hætti. „Og stofna þannig lífi okkar í hættu.“
„Af hverju má ég ekki vera reið?“
Áður hafði Ólöf Tara lýst því hvað þarf mikið til að ná í gegn. Það myndi enginn nenna að hlusta ef þær sætu heima að prjóna. „En um leið og við verðum óþægilegar þá byrjar fólk að hata okkur,“ sagði hún eitt sinn og spurði einfaldlega:
„Af hverju má ég ekki vera reið yfir því að konur eru beittar ofbeldi á hverjum degi og þeim er ekki trúað?
Af hverju má ég ekki vera reið yfir því að réttarkerfið er ótrúlega brotið og gallað?
Af hverju má ég ekki vera reið yfir því að mínir gerendur hafa komist upp með að beita ofbeldi og það er talað um mig eins og ég sé kúkú?
Ég má vera reið ef ég vil það.“
Áreitið stigmagnaðist hratt
Það var síðan í fyrra sem Ólöf Tara tók þátt í umræðum um hatursorðræðu: „Ég hef þessa reynslu að upplifa á eigin skinni hvernig afleiðingar hatursorðræðu geta haft áhrif.“
Þar útskýrði hún að félagasamtökin Öfgar hafi upphaflega ætlað sér að halda úti fræðslu fyrir ungt fólk á TikTok, sem mótvægi við orðræðuna sem viðgengst þar. Fljótlega hafi þó komið í ljós að boðskapurinn átti ekki upp á pallborðið. „Við vorum ekkert sérstaklega vinsælar og skoðanir okkar ekki heldur. Við sjáum þetta síðan stigmagnast mjög hratt.“
Í hennar tilfelli hafi fólk byrjað að sýna dónaskap og segja ljóta hluti á kommentakerfum, en það hafi síðan þróast út í það að fólk fór að hringja, senda SMS og einkaskilaboð. Fólk, jafnvel hættulegt fólk, hafi tekið Öfgar sem hóp eða þær sem einstaklinga fyrir og rætt um hvernig best væri að þagga niður í þeim. „Hvers konar ofbeldi væri best að beita okkur til þess að þagga niður í okkur,“ útskýrði hún. Því hafi fylgt líflátshótanir.
Sú umræða hafi gengið svo langt að hún lét fjarlægja símanúmerin sín úr símaskrá. „Áreitið varð það mikið.“ Það væri hægt að stýra því aðeins hvað birtist á samfélagsmiðlum, „en það er orðið dálítið erfitt þegar þetta er beintengt í símann þinn allan sólarhringinn.“
Þó að þær væru sterkar og til í að henda sér í alls konar slagi, „þá þurfum við auðvitað líka að hafa rosalega mikið fyrir því að brynja okkur fyrir áhrifum af hatursorðræðunni.“
Afmennskun einstaklinga
Bjarki Þór Grönfeldt lektor svaraði því til að rannsóknir hafa sýnt fram á að hatursorðræða hafi áhrif á andlega líðan þeirra sem fyrir henni verða, allt frá aukinni reiði, þunglyndis og sjálfsvígshugsana. Þeir sem verða vitni að slíkri orðræðu verði hins vegar ónæmir fyrir því að sjá skaðann sem það veldur og jafnvel þótt þeir hafi ekki sterkar skoðanir sjálfir, þá vekur orðræðan ákveðin hughrif og framkallar fordóma, sem ýta undir staðalmyndir og jafnvel ranghugmyndir. „Þegar það er farið af stað er erfitt að stöðva það,“ útskýrði hann.
Afmennskun feli í sér að fólk sér viðkomandi ekki lengur sem fullgilda manneskju. „Þegar þú byrjar að afmennska tiltekinn hóp, þá tekur þú af honum varnarhjúp sem við deilum öll því við erum mennsk. Þegar þú ert búinn að taka af þennan varnarhjúp þá má fara að koma fram við þig eins og þú sért hreinlega ekki manneskja.“
Ólöf Tara sagðist hafa upplifað það hvernig umdeilt fólk sé svipt samkennd samfélagsins. Hvað er til ráða? spurði Bjarki Þór. „Í minni barnslegu trú vil ég trúa því að við viljum búa í fallegu og góðu samfélagi þar sem við höfum samkennd fyrir öllum,“ svaraði hún.
Samfélagi þar sem við erum reiðubúin til að koma náunganum til aðstoðar og finnum til samkenndar með fólki, jafnvel þótt við samsvörum okkur ekki við það.
Veitti öðrum skjól
Sjálf hringdi hún í ókunnugar konur sem stóðu í ströngu til að veita þeim stuðning.
Síðustu árum lífsins helgaði hún baráttunni fyrir réttlæti. Í því skyni kom hún að stofnun Öfga. Þegar Öfgar hættu nú í janúar tók hún sæti í stjórn Vitundar, nýrra samtaka gegn kynbundnu ofbeldi sem hófu göngu sína nú í janúar og hafa boðað til viðburðar á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars. Þá hélt hún úti hlaðvarpsþáttunum Öfgar og Dómstóll götunnar.
Fyrir sitt framlag hlaut Ólöf Tara fjölmargar viðurkenningar, svo sem frá Mannréttindaskrifstofu Íslands. Öfgar ávörpuðu Sameinuðu þjóðirnar um kvennasáttmálann og funduðu með fulltrúum Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.
Ólöf Tara var ein af um 46 þúsund konum hér á landi sem deila sárri reynslu af kynbundnu ofbeldi. Hún valdi að nýta þá reynslu öðrum til góðs. Sjálf hvatti hún sem flesta til þess að láta til sín taka í feminískri baráttu. „Það getur verið erfitt að standa í þessu en það er líka oft gaman.“
Í gegnum þessa baráttu hefði myndast dýrmæt vinátta og órofa samstaða.
Misræmi í samfélagssáttmálanum
Frá stofnun Stígamóta hafa 11.011 brotaþolar leitað til Stígamóta. Þar af 835 árið 2023. Nánast allt þetta fólk glímir við kvíða, skömm og lélega sjálfsmynd. Langflestir glíma einnig við depurð, sektarkennd, svipmyndir og tilfinningalegan doða. Aðrar algengar afleiðingar eru ótti, erfiðleikar með svefn og einbeitingu, reiði og einangrun. Erfið tengsl við maka og vini og í öðrum félagslegum samskiptum er einnig eitthvað sem meirihluti brotaþola glímir við. Um helmingur glímir við sjálfsvígshugsanir eða 48,8 prósent brotaþola og 32,1 prósent hafa valdið sjálfskaða. Allt er þetta þekkt og hefur verið lengi.
Hvað þarf eiginlega til að þessi staða verði tekin alvarlega?
Jafnvel þótt kynbundið ofbeldi sé á meðal alvarlegustu brota sem hægt er að fremja birtist ákveðið misræmi í samfélagssáttmálanum. Lagaramminn er nánast aldrei fullnýttur og lítið sem ekkert er gert fyrir fólkið sem þarf að tjasla sér aftur saman eftir ofbeldið. Nokkrir sálfræðitímar, í mesta lagi.
Kynferðisofbeldi er það áfall sem veldur öðrum fremur áfallastreituröskun. Áfallastreituröskun eftir kynferðisofbeldi er eins og eftir stríðsátök. Hér á Íslandi glímir stór hópur fólks við alvarlegar afleiðingar vegna glæpa sem aðrir frömdu. Ef stjórnvöld myndu taka þessa glæpi jafnalvarlega og þeir eru skilgreindir samkvæmt lögum þá væri boðið upp á mun meiri stuðning fyrir fólkið sem verður fyrir þeim.
Afleiðingar ofbeldis eru langvarandi. Brotaþolar geta verið búnir að vinna vel úr sínum málum, þegar eitthvað verður til þess að bakslag kemur í bataferlið. Þannig getur brotaþoli þurft að mæta sjálfum sér og afleiðingunum aftur og aftur með mismunandi hætti í hvert sinn. Þannig geta afleiðingar ofbeldis varað ævina á enda – og með réttu ætti hið sama að gilda um aðgengi að úrræðum.
Sárin rista djúpt
Um síðustu helgi bárust þær harmafregnir að Ólöf Tara væri látin eftir áralanga baráttu gegn ofbeldi. Í tilkynningu frá aðstandendum hennar sagði meðal annars að hún hefði búið lengi við ofbeldi í nánu sambandi, sem hefði mótað hana mikið. „Hún helgaði síðustu ár lífs síns baráttu gegn ofbeldi og breyttum hugsunarhætti þjóðfélagsins í þeim efnum. En sárin rista djúpt og féll Ólöf Tara fyrir eigin hendi.“
Fjölmargir minntust hennar sem öflugrar baráttukonu og þökkuðu fyrir framlagið. Það hversu ósérhlífin hún var og hvernig hún veitti öðrum skjól. Aðrir minntust hennar sem vinkonu og aðstandanda.
Sú hugsun læðist að að sjálf hefði hún þurft á betra skjóli að halda. Að við séum mörg sem hefðum getað gert betur til að styðja hana – og aðra í sömu stöðu – af meiri krafti.
Þá væri óskandi að barátta hennar hefði skilað meiri árangri og til lengri tíma, að stjórnvöld hefðu hlustað og brugðist við, að samfélagið hefði sýnt meiri skilning.
En í hvert sinn sem hún kom fram sagðist hún ætla að halda baráttunni áfram: Í nafni þeirra sem á undan komu, með þeim sem væru samferða henni og fyrir þær sem á eftir kæmu. „Kvennasamstaðan er öflugasta hreyfiafl í heimi. Tími þagnarinnar er löngu liðinn. Við ætlum aldrei að þagna.“
Hún hvatti okkur öll til að líta í eigin barm og skoða hvað við gætum lagt af mörkum. Og það er einlæg ósk aðstandenda hennar að baráttan haldi áfram og skili árangri, dómaframkvæmd breytist og samfélagið sameinist um að ofbeldi verði ekki liðið. „Þörf er á umhyggju, væntumþykju og hluttekningu. Tökum utan um hvert annað í stað þess að taka á hvert öðru.“
Margt sem myrkrið veit
Í hvatningu Öfga til að mæta á kertafleytinguna í október segir: „Mætum, styðjum, syngjum og minnumst þeirra kvenna sem rísandi ofbeldismenning tók frá okkur.“
„Það er margt sem myrkrið veit,
– minn er hugur þungur.“
Þar sem þær komu saman við Tjörnina og kveiktu á kertum var sungið.
„Sofðu lengi, sofðu rótt,
seint mun best að vakna.
Mæðan kenna mun þér fljótt,
meðan hallar degi skjótt,
að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.“
Athugasemdir