Hættustigi Almannavarna hefur verið lýst yfir vegna veðurofsans sem nú gengur yfir landið. Þegar er farið að hvessa duglega víða en veðrið er líklegt til að verða enn verra.
Foreldrar barna sem alla jafna ganga til og frá skóla hafa verið beðin um að sækja börn í dag vegna veðursins. Þá er búið að fella niður kennslu í menntaskólum á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 14.30.
Starfstöðvar Reykjavíkurborgar verða víða lokaðar, meðal annars öllum starfstöðum menningar- og íþróttasviðs, þar á meðal sundlaugum og bókasöfnum.
Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hefur varað við því að viðbúið sé að þjónusta hennar skerðist. Það eigi sérstaklega við um Heimahjúkrun Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem sinnir vitjunum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.
Hættustig tekur gildi klukkan 15.00 í dag en rauð veðurviðvörun Veðurstofu Íslands tekur gildi klukkan 16.00. Nú þegar er appelsínugul veðurviðvörun á öllu landinu.
Veðurviðvaranirnar halda gildi sínu um allt land fram á kvöld, þegar rauða viðvörunin víkur tímabundið fyrir appelsínugulri. Aftur verður þó rauð viðvörun frá og með klukkan 8.00 í fyrramálið.
Veðurstofan segir að búast megi við 25 – 33 metrum á sekúndu ídag en að búast megi við mjög hvössum vindhviðum, sérstaklega við fjöll víða 35 – 45 metra á sekúndu en allt upp í 50 metra staðbundið. Veðrinu fylgir talsverð eða mikil rigning á sunnan- og vestanverðu landinu, að því er fram kemur í veðurspá.
Uppfært: Stefnuræðu forsætisráðherra hefur verið frestað vegna veðurs. Í færslu frá Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra segir: „Hættustig um land allt vegna óveðurs. Ég hvet alla til að fara gætilega og fylgja leiðbeiningum almannavarna. Stefnuræðu forsætisráðherra hefur verið frestað.“
Athugasemdir