Á mínum aldri veltir maður stundum fyrir sér lífsferlinum og upplaginu sem maður fékk í erfðir og með uppeldinu. Til dæmis hvort áföll í lífi nánustu forfeðra hafi haft áhrif á líf manns. Stundum er það fullyrt að slíkt geti setið í genunum í margar kynslóðir. Foreldrar mínir ólust báðir upp í sárri fátækt og við ýmis áföll svo að ekki sé farið enn aftar í ættartölunni. Ég ólst samt upp á vel búnu og reglusömu heimili, er þó ekki af efnafólki kominn, foreldrarnir voru alltaf leigjendur og áttu ekki bíl. Ég var langyngstur þriggja systkina og eini strákurinn og líklega því hálfgert dekurbarn, hef sennilega fengið allgott sjálfstraust í uppvextinum.
Óþekkt fyrirbæri í minni stórfjölskyldu var að ganga menntaveginn, þekktist hvorki í föðurfjölskyldunni né í móðurfjölskyldunni. Í raun var það systir mín, Sesselja, tíu árum eldri en ég, sem rauf þann múr. Hún lauk stúdentsprófi úr Menntaskólanum í Reykjavík og varð mér töluverð fyrirmynd. Bekkjarsystkini hennar voru heimagangar hjá okkur og mér fannst líf hennar öfundsvert. Í þann tíma lauk innan við 10% af hverjum árgangi stúdentsprófi. Litið var á stúdenta sem hálfgerða „elítu“.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/uQcHPc5Oobdp_730x369_n7Sdlkd9.jpg)
Ég var bókaormur sem krakki enda bóklestur ein helsta afþreying barna þegar þau voru ekki úti að leika sér innan um barnaskarann sem fyllti allar götur borgarinnar. Móðir mín kenndi mér að lesa þannig að ég var fluglæs þegar ég byrjaði í Austurbæjarskólanum 7 ára gamall og lenti þess vegna í besta bekk. Líklega hef ég strax sem krakki fengið einhverja náttúru til skrifta, ég stofnaði ýmis leynifélög og íþróttafélög með æskuvinum mínum og alltaf var það ég sem skrifaði reglur félaganna og viðfangsefni á blað eða í stílabók. En mér var aldrei hrósað fyrir neitt heima hjá mér. Aftur á móti: Eitt sinn í bekknum mínum í barnaskóla, við vorum líklega átta eða níu ára, lagði kennarinn, Þórður Magnússon, það fyrir okkur að skrifa litla sögu um kött og mús. Slík saga hafði þá verið í einhverri lestrarbók sem við höfðum lesið og flestir krakkanna öpuðu eftir henni. Ég bjó hins vegar til alveg nýja sögu. Kennarinn varð svo hrifinn að hann greip mig og lyfti mér upp á kennaraborðið og hrópaði yfir bekkinn: „Svona eiga sýslumenn að vera!“ Þarna varð ég líklega til sem rithöfundur.
Seinna var ég í Gaggó Vest. Í honum var gefið út skólablað en ég hafði ekki hugrekki til að koma skrifum mínum á framfæri við það. Sama má segja um veru mína í Menntaskólanum í Reykjavík, ég skrifaði ástarkvæði sem ég þorði ekki að koma á framfæri. Loks á síðasta menntaskólaárinu skrifaði ég lærða ritgerð um sögu hússins Íþöku og birtist hún í Skólablaðinu. Þetta voru í raun fyrstu skrif mín á opinberum vettvangi og fékk ég hrós fyrir þá ritgerð sem var mér mikils virði.
„Ekki hvarflaði þá að mér að skrifa bækur
Mig langaði til að læra sálfræði að loknu stúdentsprófi en til þess þurfti ég að fara til útlanda en var þá í raun mjög umkomulaus, hafði misst báða foreldra mína, og guggnaði á að leggja út í það ævintýri. Skráði mig þess í stað í íslensku og sagnfræði við Háskóla Íslands og lauk BA-prófi í þeim greinum þó að mér hálfleiddist námið – nema þegar ég skrifaði lokaritgerð í sagnfræði sem hét Upphaf þorps á Patreksfirði. Ekki hvarflaði þá að mér að skrifa bækur.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/75gx6ihG2V6o_730x2048_T4OGZMej.jpg)
Svo tók við lífsbaráttan, kennsla við gagnfræðaskóla í Reykjavík en árið 1972 var ég ráðinn sem íslenskukennari við Menntaskólann á Ísafirði og var þar í rúm þrjú ár. Ég var þá farinn að drekka illa á köflum, skildi við fyrri konu mína og flutti til Reykjavíkur. Ég hafði vakið athygli fyrir skrif í blaðið Vestfirðing á Ísafirði sem varð til þess að ég var ráðinn blaðamaður á Þjóðviljanum og var í því starfi næstu tíu árin. Blaðamennskuna tel ég hafa verið mér mikill skóli, maður lærði að skrifa hratt og örugglega og skila af sér á réttum tíma. Óregla mín á þeim árum er svo annað mál. En eitt leiddi af öðru. Ég var samtímis með þáttagerð í útvarpinu, meðal annars hafði ég viðtöl við fjölda eldri Reykvíkinga um æsku þeirra í borginni. Viðtölin voru svo gefin út í bókinni Reykjavík bernsku minnar. Einnig skrifaði ég æviminningar reykvísks togaraskipstjóra.
„Ég nenni ekki heldur að hætta
Þetta, ásamt skrifum í Þjóðviljann, varð til þess að ég var árið 1985 ráðinn af Reykjavíkurborg ásamt Eggert þór Bernharðssyni til að skrifa sögu Reykjavíkur. Seinna bættist Þorleifur Óskarsson í hópinn. Síðan þá, eða í 40 ár, hef ég nær eingöngu fengist við ritstörf. Grundvallaratriði í því úthaldi og velgengni minni að öðru leyti er að mér tókst að ráða niðurlögum alkóhólismans. Ég er líka búinn á fimmta áratug að vera giftur frábærri konu, Hildi Kjartansdóttur. Án hennar hefði líf mitt sennilega orðið allt öðruvísi, svo mikinn styrk hefur hún veitt mér. Ég er líka svo lánsamur að vera í góðum tengslum við alla afkomendur mína og hennar.
![](https://heimildin.is/media/uploads/images/thumbs/MtTpFkURy0vW_730x1365_VXK6dC2H.jpg)
Ég verð áttræður á þessu ári. Sænskur sálfræðingur sem rannsakað hefur langlífi fólks telur að hreyfing og mataræði skipti miklu máli í þeim efnum en númer eitt sé að fólk hafi áfram tilgang í lífinu. Ég er svo heppinn að geta hvort tveggja í senn starfað áfram við áhugamál mitt og haldið góðri heilsu. Ég nenni ekki heldur að hætta. Ég segi eins og ég heyrði Erró eitt sinn segja í viðtali: „Ég verð svo þreyttur ef ég geri ekki neitt.“
Athugasemdir