Þetta er mjög mikil vinna, eins og ég ímynda mér að hafi verið í síldinni í gamla daga. Þetta eru bara allar hendur á dekk. Að reyna að sannfæra stjórnvöld um að fara eftir lögum og tryggja öryggi bæði fólks og náttúru er meiri háttar verkefni, því miður,“ segir Katrín Oddsdóttir, landeigandi í Seyðisfirði og lögmaður VÁ - félags um vernd fjarðar, sem stendur fyrir undirskriftasöfnun þar sem biðlað er til stjórnvalda að stöðva leyfisveitingu til sjókvíaeldis í Seyðisfirði.
Tæplega 13.000 undirskriftir hafa safnast og í vikunni rann út frestur til að skila inn athugasemdum til Matvælastofnunar (MAST) vegna rekstrarleyfis fyrir sjókvíaeldi í Seyðisfirði. Um 200 athugasemdir bárust en þær hafa ekki verið gerðar opinberar. Í umsögn Veðurstofunnar, sem Heimildin hefur undir höndum, kemur fram að rétt sé að endurskoða hættumat.
Katrín hefur trú á að forystufólk nýju ríkisstjórnarinnar muni hlusta, þrátt fyrir að Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hafi í tvígang frestað fundi með VÁ. „Tilfinningin sem ég fæ er auðvitað sú að það er verið að hægja á þessu,“ segir Katrín.
Hitti fyrrverandi aðstoðarforstjóra á barnum
Fyrirtækið Kaldvík áformar að ala lax í sjókvíum á þremur stöðum í Seyðisfirði. MAST hefur unnið tillögu að leyfinu sem er fyrir allt að 10 þúsund tonna laxeldi í firðinum. Katrín rakst á Jens Garðar Helgason, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Kaldvíkur og nýkjörinn þingmann Sjálfstæðisflokksins, á ónefndum bar nýlega þar sem þau komust ekki hjá því að ræða sjókvíaeldið í Seyðisfirði. „Mér fannst áhugavert að hann vildi fullyrða við mig að það væri ekki hægt að stoppa þetta af því að þetta væri komið of langt.“
Katrín ætlar að halda ótrauð áfram að berjast gegn því að eldið verði að veruleika. „Ég virka þannig sem manneskja að ég reyni að berjast fyrir því sem ég trúi á að sé rétt, með þeim aðferðum sem ég tel að séu löglegar, góðar og siðferðilegar.“
MAST hefur fjórar vikur til að taka afstöðu til leyfisins eftir að frestur til að skila inn athugasemdum rennur út. „En björninn er ekki unninn þótt einhverjar fjórar vikur líði og ekki er komið leyfi,“ segir Katrín.
líklega einna verst út úr því, þó fleiri staðir væru tilnefndir eins og Sandeyri í Jökulfjörðum
og eyjan fagra Vigur!