Tilkynning Meta þess efnis að fyrirtækið hyggist endurskipuleggja ritstjórn efnis og áreiðanleikakönnun staðreynda ætti að vekja hverjum þeim ugg sem lætur sig tjáningarfrelsi einhverju varða. Þótt látið sé að því liggja að þetta sé gert til að vernda tjáningarfrelsi, hefur það þveröfug áhrif á marga einstaklinga og hópa.
Meta skýrði frá því að það myndi endurkvarða sjálfvirka efnisstjórn og einungis takmarka birtingar á grófustu brotum, svo sem hvatningu til hryðjuverka. Þetta og stefnumörkun fyrirtækja á borð við Telegram og X (áður Twitter), mun líklega leiða til mikillar aukningar svívirðinga og hatursorðræðu á stærstu samskiptamiðlum heims. Sumt af því mun beinast að hliðsettum samfélögum, þar á meðal LGBTIQ+ fólki, flóttamönnum, farandfólki og ýmsum minnihlutahópum. Með þessu verða þessi samfélög hrakin af þessum vettvangi, dregið úr sýnileika þeirra, einangrun þeirra aukin og tjáningarfrelsið skert.
Tjáningarfrelsi snýst einnig um aðgang að efni
Almennt séð munu þessar breytingar valda skaða, langt út fyrir raðir tiltekinna einstaklinga eða hópa. Tjáningarfrelsi krefst þess ekki aðeins að fólk geti látið skoðanir sínar í ljós, heldur geti leitað að og móttekið hugmyndir og upplýsingar. Reglusnauðir samfélagsmiðlar ganga á þetta frelsi á ýmsan hátt. Með því að þagga niður í sumu fólki og samfélögum er dregið úr fjölbreytni þeirra upplýsinga sem standa öllum til reiðu. Og með því að leyfa ósannindum og rangfærslum að þrífast, eitra þeir upplýsingaumhverfið. Þeir má út línuna á milli staðreynda og skáldskapar og sundra samfélögum. Jafnframt er gengið á hið þýðingarmikla opinbera rými fyrir opna umræðu, sem byggir á staðreyndum og sameiginlegum skilningi.
Facebook hefur viðurkennt ábyrgð
Hin mikla aukning ómeðhöndlaðs efnis og hatursorðræðu, sem mun leiða af þessum breytingum, mun ætíð vera skaðleg. En mestur gæti skaðinn orðið á tíma átaka, hamfara og í kosningabaráttu. Þetta getur því snert líf hundruð milljóna manna, án tillits til þess hvort þeir yfirleitt nota þessa miðla. Ég er nýkominn frá Sýrlandi, þar sem ég varð vitni að því hvernig eitraðar rangfærslur eru notaðar í hefndarskyni og til að espa til ofbeldis.
„Ég er nýkominn frá Sýrlandi, þar sem ég varð vitni að því hvernig eitraðar rangfærslur eru notaðar í hefndarskyni
Reyndar viðurkenndi Facebook árið 2018, að fyrirtækið hefði ekki gert nóg til þess að hindra að miðilinn væri notaður til að skapa sundrungu og hvetja til ofbeldisverka gegn Rohingyafólkinu í Myanmar. Samfélagsmiðlar sem hafna reglubundnum stjórnunarháttum, stuðla að því að grafa undan samheldni samfélaga og skekkja lýðræðislega ákvarðanatöku. Þetta hefur komið í ljós í kosningabaráttum undanfarið. Á síðustu árum hefur verið skýrt frá mikilli útbreiðslu falsfrétta og hatursorðræðu á samfélagsmiðlum í kosningabaráttum í Brasilíu, Kenýa, Moldóvu og Rúmeníu. Við slíkar aðstæður er þýðingarmikið að fyrirtæki sinni áreiðanleikakönnun og að ríki tryggi að umræðurými, jafnt innan sem utan netsins, sé frjálst og öllum opið.
Umræða um Palestínu þögguð niður
Það er vandasamt úrlausnarefni að vega og meta efni á samfélagsmiðlum og getur orkað tvímælis. Embætti mitt hefur látið í sér heyra þegar gengið hefur verið of langt, til dæmis þegar ríki beita löggjöf og stefnumótun til að þagga niður í andstæðum röddum og athöfnum á opinberum vettvangi. Og til þess að nefna eitt dæmi, þá hafa nokkur almannasamtök nýverið sýnt fram á hvernig umfjöllun um réttindi Palestínumanna hefur almennt verið þögguð niður á samfélagsmiðlum.
En vandleg stýring á birtingu hatursorðræðu og meðhöndlun innihalds í því skyni að koma í veg fyrir umtalsverðan skaða, er ekki ritskoðun. Slíkt er nauðsynlegt hryggjarstykki til að heilindi ríki í upplýsingamálum á stafrænni öld og er á ábyrgð samfélagsmiðlanna.
Alþjóðleg mannréttindalög leiðarljós
Alþjóðasamfélagið býr nú þegar yfir regluverki, sem getur verið okkur fyrirmynd í þessum efnum: alþjóðleg mannréttindalöggjöf. Viðmið og staðlar hafa verið samþykktir, sem er einmitt ætlað að vernda allar tegundir frelsis í allra þágu og koma á sama tíma í veg fyrir að hvatt sé til illinda og ofbeldis. Þetta eru kjörin verkfæri; ná til alls heimsins, eru kraftmikil og má aðlaga að nýjum málefnum.
Ekki ber að taka mannréttindi til endurskoðunar eða nýrra skilgreininga. Hart hefur verið barist fyrir tjáningarfrelsinu með áralöngu andófi gegn ritskoðun og kúgun. Okkur ber að vera á varðbergi og vernda þau. Í því felst að takast hiklaust á við hvatningar til illinda og ofbeldis þegar lög eru brotin. Þetta er nauðsynlegt til að tryggja rétt allra til að hafa aðgang að upplýsingum og hugmyndum. Tryggja ber að almenningur geti leitað að og móttekið allar hugmyndir af ólíkum toga. Sá lærdómur, sem má draga af undanförnum árum er skýr. Hver sá vettvangur, sem lítur fram hjá ofbeldi og lætur hótanir sem blaðamenn og verjendur mannréttinda mega sæta, sem vind um eyru þjóta, mun óumflýjanlega ekki standa undir kröfum sem til hans eru gerðar og grafa undan tjáningarfrelsi.
Gegnsæi, ábyrgð, áfrýjun
Við skilvirka stýringu efnis ber að hafa gegnsæi og ábyrgð í fyrirrúmi. Tryggja ber að hægt sé að áfrýja ákvörðunum um efnisstýringu. Hafa ber í huga samhengi, blæbrigði tungumála á hverjum stað og hver stýrir efninu og dreifingu þess. Í stuttu máli verður að taka tillit til upplýsingaumhverfisins í heild.
Skilvirk umfjöllun efnis á netinu getur einungis þrifist ef hún nýtur opinnar, stöðugrar og upplýstrar umræðu í öllu samfélaginu. Embætti mitt mun halda áfram að hvetja til og vinna að reikningsskilum í hinu stafræna rými í samræmi við mannréttindalög. Mannréttindum ber að vera okkur leiðarljós við að vernda almenna umræðu, byggja upp traust og tryggja sæmd allra.
Athugasemdir