Lagafrumvarp um að veita fólki í Englandi og Wales, sem þjáist af ólæknandi sjúkdómum, rétt á dánaraðstoð er um þessar mundir rætt á breska þinginu. Á meðan almenningur veltir fyrir sér siðferðilegum rökum, beina læknar sjónum sínum að raunverulegum áhrifum slíkra lagabreytinga.
Breytingar í afstöðu lækna
Rétt eins og almenningsálitið hefur þróast á undanförnum áratug, hefur afstaða lækna einnig breyst. Árið 2021 samþykkti Breska læknafélagið (British Medical Association) að breyta afstöðu sinni til dánaraðstoðar úr neikvæðri yfir í hlutleysi, þ.e. hvorki fylgjandi né andvígt dánaraðstoð. Margir læknar leggja nú áherslu á mikilvægi þess að sjúklingar geti haft stjórn á eigin líkama og ákvörðunum um lífslok, sérstaklega þegar um ólæknandi sjúkdóma er að ræða.
Læknar eiga erfitt með að spá fyrir um lífslíkur
Ein lykilspurning í umræðunni snýr að því hvaða skilyrði verði sett fyrir hæfi eða rétt sjúklinga til dánaraðstoðar. Þó að frumvarpið sé enn í umræðunni, er búist er við að það verði sambærilegt tillögu sem lögð var fram í lávarðadeildinni. Sú tillaga miðaði að því að leyfa aðeins fullorðnum einstaklingum með ólæknandi sjúkdóma, sem eiga sex mánuði eða skemur eftir ólifaða, að fá dánaraðstoð.
Í grein í The Guardian segir prófessor Mark Taubert, ráðgjafi í líknarlækningum við Velindre University og læknadeild Cardiff, háskóla að það sé verulega erfitt að spá nákvæmlega fyrir um hve lengi einstaklingur muni lifa, jafnvel fyrir þjálfaða heilbrigðisstarfsmenn. Margir sjúkdómar hafi ófyrirsjáanlegan framgang. „Ég hef haft krabbameinssjúklinga sem ég taldi að myndu deyja innan nokkurra daga, en hitt þá svo aftur fimm árum síðar. Ég hef líka haft sjúkling sem ég taldi að myndi lifa í tvö ár, en svo versnaði honnum mjög hratt. Flestir læknar eiga erfitt með að gera slíkar spár og þykir óþægilegt að vera settir í þessa stöðu.“
Graham Winyard, fyrrverandi framkvæmdastjóri lækninga heilbrigðisþjónustunnar í England (NHS), er sömu skoðunar og telur að sex mánaða viðmiðið sé vandmeðfarið. „Að hluta til vegna þess hversu erfitt er að spá nákvæmlega fyrir um horfur einstaklings, en einnig vegna þess að þetta útilokar marga sem þjást óbærilega. Einstaklingar með alvarlega taugahrörnunarsjúkdóma, eins og MND, Parkinson sjúkdóminn og MS, og fólk með heilabilun, myndi ekki falla undir þessi skilyrði.” Winyard, sem styður lagabreytinguna, bendir á að minna en helmingur þeirra Breta sem hafa ferðast til Dignitas í Sviss til að fá dánaraðstoð, myndu uppfylla þessi viðmið.“ Þetta ætti að vera réttur allra,“ segir hann.
Sex mánaða viðmiðið talið skynsamlegt og framkvæmanlegt
Sumir telja að sex mánuða viðmiðið sé bæði skynsamlegt og framkvæmanlegt enda hafi það gefist vel á öðrum stöðum, eins og í Oregon í Bandaríkjunum, þar sem dánaraðstoð hefur verið lögleg síðan 1997 með sambærilegu viðmiði. David Bogod, svæfingalæknir frá Nottingham sem nýlega fór á eftirlaun, bendir á að þó að forspár um lífslíkur séu vissulega ekki nákvæm vísindi, þurfi læknar engu að síður reglulega að gera slíkt mat. Hann bendir á að áhyggjur af ónákvæmum spám geri oft ráð fyrir að þeir sem óski eftir dánaraðstoð séu reiðubúnir að deyja. „Gögn frá Oregon og öðrum löndum sýna hins vegar að um þriðjungur þeirra sem fá lyf til að binda enda á líf sitt, nota þau aldei. Það virðist vera að fólk vilji hafa plan B, ef þjáningar þess verði óbærilegar.“
Unnið að afnámi sex mánaða ákvæðisins
Í nokkrum löndum þar sem sex mánaða ákvæðið var sett í lögin um dánaraðstoð hefur það reynst mikil hindrun og vinna þessi lönd nú að því að afnema það. Í Kanada hefur ákvæðið þegar verið afnumið og bæði Nýja Sjáland og Ástralía eru meðal þeirra landa sem stefna á að fella það úr gildi. Gary Payinda, bráðalæknir frá Nýja Sjálandi, sagði á ráðstefnu World Federation of Right to Die Societies eða heimssamtaka félaga um dánaraðstoð, sem haldin var í Dyflinni dagana 20.-21. september 2024, að ákvæðið væri bæði óréttlátt og siðlaust. Samkvæmt honum séu sjúklingar oft annað hvort of heilbrigðir þegar þeir sækja um og fá þar af leiðandi beiðni um dánaraðstoð ekki samþykkta, eða þá að þeir eru of veikir og deyja áður en þeir fá beiðni sína samþykkta.
Skerðing á sjálfræði
Margir hafa bent á að það skerði sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga að takmarka dánaraðstoð við fólk sem er deyjandi. Einstaklingar eigi að hafa rétt til að taka ákvarðanir um eigið líf og dauða, þar á meðal hvernig þeir vilja ljúka lífi sínu, sérstaklega ef þeir þjást óbærilega, óháð því hvort dauðinn sé yfirvofandi. Að takmarka dánaraðstoð við deyjandi fólk viðurkenni ekki að sumir einstaklingar kjósi að vilja forðast tap á reisn, sjálfstæði og lífsgæðum, sem getur átt sér stað löngu áður en dauðinn nálgast.
Að heimila víðtækara aðgengi að dánaraðstoð, sem tekur tillit til þeirra fjölbreyttu ástæðna sem fólk kann að hafa til að flýta fyrir andlátinu, sýnir virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins og viðurkennir margbreytilega og flókna mannlega þjáningu.
Á meðan ríki og sveitarfélög draga lappirnar við að aðstoða fólk við að lifa, þá vara ég við að opna á leið fyrir fólk að koma sér úr erfiðum skorti á umönnun með því að velja að deyja frekar en að umönnun lendi öll á nánustu ættingjum.
Allt of mörg dæmi sýna að fólk notar þessa leið til að sleppa sýnum nánustu undan þrælahaldi ríkis og sveitarfélaga, það er að þau verði bundin yfir umönnun, án launa í mörg ár, eins og dæmin sanna.
Þetta er þörf umræða og engum vil ég svo illt að þjást að óþörfu, en ég bið um að tryggt sé að þetta verði aldrei notað í þeim tilgangi sem nefnt er hér að ofan. Hvernig tryggjum við það?
Virðingarfyllst
Gaui