Yoon Suk Yeol, forseti Suður-Kóreu, var handtekinn á fimmtudag vegna rannsóknar á uppreisn, eftir að forsetinn lýsti yfir herlögum þann 3. desember. Rannsakendur þurftu að brjóta sér leið í gegnum gaddavír í frosthörku til að komast að forsetanum. Kóreska þingið hefur ákært hann til embættismissis en mál hans er nú í höndum stjórnlagadómstóls landsins.
Um eitt þúsund manns tóku þátt í aðgerðunum, samkvæmt fréttaflutningi BBC, en forsetinn hefur þráast við að verða við skipunum um að gefa sig fram við lögreglu. Hefur hann lýst rannsókninni á hendur sér sem ólöglegri. Fjármálaráðherra Suður-Kóreu situr nú tímabundið í embætti forseta eftir að þingið lýsti vantrausti á Han Duck-soo, sem fyrst tók við embættinu af Yoon.
Yoon lýsti yfir herlögum í byrjun desember, að eigin sögn til að bregðast við því sem hann lýsti sem „ógn við þjóðaröryggi“. Hann hélt því fram að hernaðarógn sem stafaði af Norður-Kóreu hefði aukist og að þjóðin þyrfti að bregðast við með tafarlausum neyðarráðstöfunum til að vernda öryggi borgaranna og innviða ríkisins.
Sakaði hann stjórnarandstöðuna, sem þó hefur stóran meirihluta á þinginu, um að sýna málstað Norður-Kóreu samúð.
Þessi ákvörðun var mjög umdeild. Gagnrýnendur sögðu að herlögin hefðu verið notuð sem yfirvarp til að herða tökin á valdi og þagga niður í andstæðingum. Flokkur Yoon hafði misst meirihluta sinn á suður-kóreska þinginu auk þess sem víðtæk mótmæli höfðu farið fram gegn stjórn hans. Líklegt má telja að það hafi átt meginþátt í ákvörðun Yoon.
Herlögin leiddu til tafarlausra viðbragða frá þinginu, sem ógilti þau og hóf strax ferli til að ákæra hann fyrir valdníðslu og misnotkun opinbers valds. Þingmenn þurftu að brjóta sér leið inn í þinghúsið til að greiða atkvæði um ógildingu laganna.
Athugasemdir