Árið 2019 lýsti Donald Trump, þáverandi forseti Bandaríkjanna, því yfir að hann vildi kaupa Grænland, með manni og mús eins og stundum er komist að orði. Trump hefur löngum verið yfirlýsingaglaður og orð hans um að kaup á Grænlandi væru rétt eins og hver önnur kaup á landareign vöktu mikla athygli. Danskir og grænlenskir stjórnmálamenn voru fljótir til að slá allar slíkar hugmyndir út af borðinu og ekkert varð af kaupunum.
Trump gleymdi þó ekki draumnum og nú, þegar hann tekur við forsetaembættinu á nýjan leik, hefur hann endurtekið yfirlýsingar sínar um nauðsyn þess að komast til áhrifa á Grænlandi. Í ummælum sínum þar að lútandi hefur hann kveðið fastar að orði en áður og á fréttamannafundi fyrir nokkrum dögum vildi hann ekki útiloka að beita hervaldi til að yfirtaka Grænland, og reyndar líka Panama. Nefndi einnig Kanada í sömu andránni.
Sendi soninn til Nuuk
Donald Trump hefur löngum haft lag á að vekja á sér athygli og komast í fjölmiðlana. Í síðustu viku bárust fréttir af því að sonurinn, Donald Trump yngri, væri á leiðinni til Grænlands, til höfuðstaðarins Nuuk. Fjölmiðlar fylgdust vel með og talsverður mannfjöldi var samankominn í og við flugstöðina þegar þotan, kirfilega merkt Trump, lenti. Sonurinn sagði fréttamönnum að hann væri einfaldlega ferðamaður sem væri kominn til að kynnast aðeins þessu áhugaverða landi, ásamt nokkrum félögum sínum.
Athygli vakti að sumir þeirra sem voru í flugstöðinni voru með rauðar húfur, merktar MAGA (Make America Great Again), slagorði Donalds Trump frá kosningabaráttunni árið 2016. Danskir fjölmiðlar greindu frá því að margir þeirra sem báru húfurnar hefðu verið atvinnulausir og verið boðið í rausnarlega máltíð á hóteli í Nuuk gegn því að bera húfurnar og samþykkja myndatökur sem myndatökumenn á vegum Donalds Trump yngri önnuðust. Viðtöl voru tekin við nokkra „húfubera“ sem lýstu sig fylgjandi því að Bandaríkin fengju yfirráð yfir Grænlandi. Eftir fjögurra klukkustunda dvöl í Nuuk héldu Donald Trump yngri og félagar hans heim á leið.
„Margir þeirra sem báru húfurnar hefðu verið atvinnulausir og verið boðið í rausnarlega máltíð á hóteli í Nuuk gegn því að bera húfurnar“
Margir fjölmiðlar sögðu þetta ferðalag einfaldlega „auglýsingatrikk“ og viðtölin sem tekin voru gæfu ekki rétta mynd af skoðunum og viðhorfum almennings á Grænlandi.
Hafna öllum hugmyndum um yfirráð Bandaríkjamanna
Í kjölfar yfirlýsinga Trumps og ferðar sonarins til Nuuk hafa spunnist miklar umræður í Danmörku og á Grænlandi. Stjórnmálamenn í báðum löndum hafa margendurtekið yfirlýsingar um að Grænland sé ekki til sölu þótt samvinna við Bandaríkin sé sjálfsögð. Inn í þetta blandast kröfur grænlenskra stjórnmálamanna um sjálfstæði landsins en þær raddir verða sífellt háværari. Þingkosningar fara fram á Grænlandi á næstu vikum, eigi síðar en 6. apríl.
Margir danskir stjórnmálamenn hafa tjáð sig um hugmyndir Trumps og telja þær fráleitar. Hitt sé annað mál að dönsk stjórnvöld hafi ekki sinnt málefnum Grænlands sem skyldi og nú sé sannarlega ástæða til að bæta þar úr.
Trump er ekki sá fyrsti sem dreymir um Grænland
Hugmyndir Donalds Trump um Grænland eru ekki nýjar af nálinni. Árið 1867 lýsti William Seward, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, miklum áhuga á að kaupa Grænland, Ísland og Dönsku Vestur-Indíur af Dönum. Samningar tókust ekki en sama ár keyptu Bandaríkjamenn Alaska af Rússum, kaupverðið samsvaraði 120 milljónum dollara á núvirði.
„Truman bauð 100 milljónir, í gulli, sem borgun fyrir Grænland“
Eftir lok síðari heimsstyrjaldar, á árunum 1946 til 1950, fóru fram leynilegar viðræður milli Harrys S. Truman, forseta Bandaríkjanna, og danskra stjórnvalda, meðal annars Hans Hedtoft forsætisráðherra, um kaup Bandaríkjamanna á Grænlandi. Truman bauð 100 milljónir, í gulli, sem borgun fyrir Grænland. Auk þess fengi Danmörk hluta af Alaska og réttinn til að vinna þar olíu.
Ástæða fyrir þessum mikla áhuga Bandaríkjamanna var ekki síst að kalda stríðið svonefnda var í uppsiglingu en Grænland var, rétt eins og nú, mikilvægt vegna legu landsins. Samningar um kaupin tókust ekki. Eins og áður sagði lýsti Donald Trump svo miklum áhuga á kaupum á Grænlandi árið 2019. Eftir að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, sagði hugmyndir Trumps um landakaupin „absurd“ aflýsti hann fyrirhugaðri heimsókn til Danmerkur og sagði ummæli danska forsætisráðherrans óviðeigandi. Nokkrum dögum síðar hringdi Mette Frederiksen í Trump og á fréttamannafundi eftir það símtal lýsti Trump Mette Frederiksen sem frábærri konu og þau hefðu átt ánægjulegt samtal. Allar umræður um kaup á Grænlandi gufuðu upp. Þangað til fyrir skömmu.
Ekki af baki dottinn
Í tengslum við heimsókn sonarins til Nuuk sagði Donald Trump að íbúar Grænlands myndu hafa mikinn hag af þegar, og ef, „Grænland yrði hluti af þjóð okkar“ eins og hann komst að orði. Bandaríkjamenn myndu vernda Grænlendinga í fjandsamlegum heimi sagði Trump.
Það er einkum þrennt sem gerir að verkum að mikilvægi Grænlands eykst með ári hverju. Í fyrsta lagi hafa loftslagsbreytingar og hlýnun sjávar í för með sér að ísinn á Norðurslóðum bráðnar hratt og þar með opnast nýjar og styttri siglingaleiðir milli Evrópu og Asíu. Í öðru lagi er í landinu að finna verðmæt steinefni og málma, sem finnast í litlum mæli annars staðar í heiminum en eru afar mikilvæg, til dæmis í framleiðslu rafhlaðna í bíla og síma. Í þriðja lagi hefur lega landsins mikla hernaðarlega þýðingu sem fer vaxandi, ekki síst vegna hernaðarbröltsins í Rússum.
„Hefur lega landsins mikla hernaðarlega þýðingu sem fer vaxandi, ekki síst vegna hernaðarbröltsins í Rússum“
Hvað svo?
Afar ólíklegt verður að telja að Bandaríkin reyni að leggja Grænland undir sig með hervaldi. Og ekki er líklegt að Trump verði að ósk sinni um að kaupa landið. Samvinna af ýmsu tagi varðandi varnar- og öryggismál (Bandaríkjamenn eru með herstöð í Pituffik, sem áður hét Thule) er líkleg til að mælast vel fyrir meðal Grænlendinga og Dana.
Grænlendingar hafa að líkindum ekkert á móti þeirri auknu athygli sem land þeirra hefur fengið að undanförnu. Þeir sjá möguleika á auknum umsvifum vegna þeirra náttúruauðæfa sem landið býr yfir og aukinnar uppbyggingar í öryggis- og varnarmálum. Grænlendingar gera sér sömuleiðis vonir um aukinn ferðamannastraum á næstu árum en 2023 komu um 140 þúsund ferðamenn til landsins og hafði fjölgað um tæp 37 prósent frá árinu áður. Íbúar Grænlands eru um 57 þúsund.
Athugasemdir