Athugasemdir Carbfix: Leiðréttingar takmarkast við trúnað

Car­bfix hef­ur gert fjöl­marg­ar at­huga­semd­ir við um­fjöll­un Heim­ild­ar­inn­ar og er því kom­ið á fram­færi hér. Fyr­ir­tæk­ið ber við trún­að tví­veg­is þeg­ar kem­ur að leið­rétt­ing­um. Þá úti­lok­ar fyr­ir­tæk­ið ekki stækk­un, en ber fyr­ir sig að slíkt yrði nýtt verk­efni.

Athugasemdir Carbfix: Leiðréttingar takmarkast við trúnað
Framkvæmdastjóri Carbfix, Edda Sif Aradóttir.

Í prentútgáfu Heimildarinnar er fjallað um fjárfestingakynningu Carbfix frá árinu 2023. Í nóvember síðastliðnum samþykkti bæjarstjórn í Hafnarfirði íbúakosningu um Coda Terminal-verkefni Carbfix, þar sem til stendur að dæla 3 milljónum tonna af koldíoxíði frá erlendum fyrirtækjum í jörð. Í umfjöllun Heimildarinnar kemur fram að forsvarsfólk Carbfix hefur ekki veitt Hafnfirðingum sömu upplýsingar um framtíðaráform sín og kynntar voru fyrir fjárfestum. 

Umfjöllun Heimildarinnar byggir á gögnum frá Carbfix, sem sýna að fjárfestar hafa fengið kynningar þar sem miðað er við að niðurdæling koldíoxíðs verði mun umfangs meiri en áður hefur komið fram gagnvart íbúum í Hafnarfirði. 

Í kjölfar umfjöllunar Heimildarinnar sendi Carbfix frá sér yfirlýsingu, sem birt var á vefsíðum Orkuveitunnar og Carbfix á föstudag, þar sem segir að áformin hafi birst í drögum að fjárfestakynningu en ekki kynningu sem lögð var fyrir fjárfesta. Það samræmist ekki þeim gögnum sem Heimildin hefur undir höndum. 

Fjárfestingakynningin var unnin af Morgan Stanley í júlí árið 2023 og byggir eingöngu á upplýsingum sem fengnar eru frá fyrirtækinu sjálfu. Gögnin voru merkt fjárfestingasjóðnum og eru 120 blaðsíður á lengd. Morgan Stanley leiðir viðræður við fjárfesta samkvæmt forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Gögnin eru ekki merkt sem vinnugögn, ólíkt ýmsum öðrum gögnum sem Heimildin hefur undir höndum tengdum Carbfix. 

Í fjárfestingakynningunni kemur skýrt fram að um sé að ræða trúnaðargagn og í lagalegum fyrirvara skjalsins segir ítrekað að um sé að ræða kynningu fyrir fjárfesta, nánar tiltekið EIG fjárfestingarsjóð.

Útiloka ekki stækkun

Fyrirtækið neitar því ekki að mögulega yrði sótt um nýtt umhverfismat til aukinnar niðurdælingar, eins og stefnt var að samkvæmt fjárfestingakynningunni og Heimildin greindi frá.  

Í yfirlýsingu Carbfix segir að engin áform séu um frekari niðurdælingu að svo stöddu. Hins vegar er ekkert útilokað í þeim efnum: „Ef áhugi yrði á slíku,“ eins og það er orðað.

Fullyrt hefur verið bæjarbúa í Hafnarfirði að stefnt sé á að dæla niður 3 milljónum tonna af koldíoxíði árið 2032. Fjölmiðlar fjölluðu um málið sumarið 2023 og út árið, en fyrirtækið tók aldrei fram að möguleiki væri á stækkun. 

Í umfjöllun Heimildarinnar kemur fram að Carbfix kynnti fyrir fjárfestum fyrirætlanir um að sækja um nýtt umhverfismat árið 2026 fyrir aukinni niðurdælingu, eða 4,8 milljónum tonna af CO2. Samkvæmt fjárfestingakynningunni áætlar fyrirtækið að heimild til þess að dæla meiru niður verði komin árið 2028. 

Skriflegum svörum komið á framfæri 

Á föstudag birti Vísir yfirlýsingu Carbfix og viðtal við framkvæmdastjóra Carbfix, undir fyrirsögninni „Furðar sig á blekkingarbrigslum Heimildarinnar“. Vísir birti ásakanir Carbfix á hendur ritstjórn Heimildarinnar fyrirvaralaust, án þess að vísað væri í umfjöllun Heimildarinnar eða viðkomandi veitt veitt færi á að svara fyrir miðlinn. 

Hvorki forstjóri né stjórnarformaður Orkuveitunnar vildu veita blaðamönnum Heimildarinnar viðtal á meðan vinnslu greinarinnar stóð. 

Í yfirlýsingu Carbfix segir að forsvarsmenn fyrirtækisins séu tilbúnir til að veita viðtöl og frekari upplýsingar sé eftir því leitað. Í því samhengi ber að nefna að blaðamanni Heimildarinnar bauðst viðtal við vísindamenn Carbfix. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins mætti þangað en neitaði að veita blaðamanni ítarlegt viðtal um starfsemi fyrirtækisins síðar, þótt þess væri óskað.  

Skriflegum svörum frá upplýsingafulltrúa Carbfix var hins vegar komið á framfæri í umfjölluninni.

Eftir birtingu greinarinnar bárust frekari athugasemdir frá Carbfix. Þeim er komið á framfæri hér að neðan, ásamt skýringum Heimildarinnar. Ólafur Elínarson, upplýsingafulltrúi Carbfix er skráður fyrir athugasemdunum. Athugasemdir fyrirtækisins eru merktar með nafni þess, Carbfix.

CARBFIX:

1. Það er ekki verið að blekkja Hafnfirðinga 

Dæmi um fullyrðingar þess efnis í umfjölluninni: 

Bls. 18: Fyrirætlanir Carbfix eru mun umfangsmeiri en fram hefur komið. Stefnt er að því að  dæla niður allt að 4,8 milljónum tonna af koldíoxíði (CO2) og fyrirtækið vonast til þess að  velta hátt í þrjú hundruð milljörðum á fullum afköstum. 

Carbfix, fyrirtæki Orkuveitunnar sem fargar kolefnum með því að dæla þeim ofan í  jörðina, stefnir að mun meiri niðurdælingu á koldíoxíði í Hafnarfirði en íbúum hefur verið  sagt frá.  

Í viðskiptaáætlun fyrirtækisins segir að sótt verði um auknar heimildir til  niðurdælingar, í fyrsta ársfjórðungi árið 2026. 

Í viðskiptaáætlun fyrirtækisins kemur hins vegar fram að sækja eigi um annað  umhverfismat á næsta ári og óska eftir að dæla mun meira magni en það ofan í jörðina. 

Bls. 19: en markmiðið sé að nýta getu hafnarinnar til þess að flytja inn allt að 10 milljónir  tonna af koldíoxíði á ári og sótt verði um auknar heimildir. 

Bls 21: Árið 2026 áætlar Carbfix að sækja um umhverfismat (EIA) hjá Umhverfisstofnun til  þess að auka niðurdælingu um 60% og dæla þá niður alls 4,8 milljónum tonna af CO2 á ári.  Fyrirtækið telur að málsmeðferðin taki um 18–24 mánuði. 

Fyrirtækið áætlar að niðurdæling á 4,8 milljónum tonna af CO2 hefjist árið 2028.

Ofangreint er rangt. Heimildin vitnar sjálf í orð framkvæmdastýru Carbfix á opnum  íbúafundi þar sem hún segir "Við sjáum ekki fyrir okkur á þessu stigi frekari stækkun. Ef vel  gengur, það er mögulegt, við þurfum bara að sjá til, við ætlum fyrst að byggja þetta".  Jafnframt er myndband af því birt á vef Heimildarinnar. Þá er þetta enn fremur staðfest í  skriflegum svörum til Heimildarinnar sem birtist í umfjölluninni. 

Það sem nefnt er í gögnum frá júní 2023 sem Heimildin hefur undir höndum sem Heimildin  fullyrðir að séu áform Carbfix eru sviðsmyndir og möguleikar: Farið er yfir  stækkunarmöguleika þeirra verkefna sem Carbfix vinnur nú þegar að, stækkunarmöguleika  í nýjum verkefnum hérlendis og stækkunarmöguleika í verkefnum erlendis. Aldrei hefur átt  sér stað blekking varðandi magn CO2 sem áætlað er að dæla niður í Coda Terminal í  Straumsvík. Verkefnið í Straumsvík verður fullbyggt allt að 3 milljónir tonna á ári og frekari  umsvif myndu falla undir nýtt verkefni og krefjast nýs leyfisferils. Hinsvegar er markmið  Carbfix að hafa jákvæð áhrif á loftslag með skölun tækninnar, bæði hérlendis og erlendis.  

Athugasemdir ritstjórnar: 

  1. Orðalagið að „blekkja íbúa“ er hvergi notað í umfjöllun Heimildarinnar, heldur er talað um að fyrirtækið hafi falið áform sín fyrir bæjarbúum og vísað til þess að íbúar í Hafnarfirði fengu aðrar upplýsingar um framtíðaráform Carbfix en birtust í fjárfestingakynningu Carbfix. Í kynningunni kemur skýrt fram að fyrirtækið stefni á að óska eftir nýju umhverfismati árið 2026, en þær tímasetningar hafa riðlast vegna umhverfismats og íbúakosninga. 

  2. Hér má sjá áætlanir Carbfix þegar kemur að því að sækja um nýtt umhverfismat árið 2026. Þessum áætlunum hefur augljóslega seinkað en litu engu að síður út með þessum hætti sumarið 2023.
  3. Misræmi birtist í upplýsingum frá Carbfix varðandi framtíðaráform um aukin umsvif Coda Terminal-verkefnisins í Hafnarfirði. Því er haldið fram að það sé rangt að það standi til að auka umsvifin, en á sama tíma sagt að „[...] frekari umsvif myndu falla undir nýtt verkefni og krefjast nýs leyfisferils,“ sem er samhljóma umfjöllun Heimildarinnar. Tekið er til orða með samskonar hætti í öðrum yfirlýsingum Carbfix. 

  4. Ritstjórn Heimildarinnar hafnar því að um rangfærslu sé að ræða, þar sem umfjöllun fjallar um fjárfestingakynningu Carbfix sem unnin var af Morgan Stanley í júlí 2023 út frá upplýsingum frá fyrirtækinu, þar sem þessar fyrirætlanir er að finna. Hins vegar væri æskilegt að Carbfix myndi upplýsa almenning um áætlanir sínar um hið „nýja verkefni“ sem vísað er í. 

CARBFIX:

2. Það er ekki rétt að áformað sé að umrædd fyrirtæki verði viðskiptavinir 

Bls. 18. Heimildin er með lista yfir fyrirtæki sem hafa gert viljayfirlýsingu um förgun á  koldíoxíði í gegnum Carbfix. 

Bls. 18: Á meðal viðskiptavina er fyrirtæki sem framdi glæp gegn mannkyni og vill dæla  niður CO2 á Íslandi. 

Bls. 18: Á meðal þeirra eru alræmd fyrirtæki sem hafa ítrekað brotið gegn umhverfislögum  um allan heim, auk fyrirtækis sem fyrir ári síðan var dæmt fyrir frönskum dómstólum fyrir  glæpi gegn mannkyni. 

Bls 20: Fá fyrirtæki eru hins vegar með jafnslándi sögu og fransk-svissneska  sementsfyrirtækið Lafarge/Holcim. 

Bls. 21. Dótturfélagið Carbfix hyggst engu að síður taka við 2,3 milljónum tonna af koldíoxíði  frá tveimur verksmiðjum Lafarge/Holcim árið 2029, samkvæmt viðskiptaáætlun þess, og  dæla ofan í jörðu hér á landi. Hafa fyrirtækin undirritað viljayfirlýsingu þess eðlis. Magnið er  um 77 prósent af heildarmagni CO2 sem Carbfix hefur sagt Hafnfirðingum að verði dælt  niður. Í ljósi fyrirhugaðra umsvifa má ætla að magninu verði dreift á þær þrjár stöðvar sem  Carbfix hyggst opna hér á landi, í það minnsta til að byrja með. 

Þetta er rangt. Carbfix hefur ekki skrifað undir viljayfirlýsingu við þessi fyrirtæki og á ekki í  viðræðum við þau um að taka á móti CO2 til niðurdælingar í Straumsvík. Gögnin sem  Heimildin hefur undir höndum árinu 2023 inniheldur fjölda fyrirtækja sem eru innan þess  geira sem Carbfix starfar. Eðli málsins samkvæmt ríkir trúnaður um þau fyrirtæki sem viðræður eru í gangi við, en Carbfix hefur þó aðeins gert viljayfirlýsingar við örfá fyrirtæki á  þessum lista öfugt við það sem haldið er fram í umfjöllun Heimildarinnar. Verða þau  fyrirtæki kynnt þegar samningar nást og trúnaði léttir. 

Bls 21: Annar stærsti stálframleiðandi veraldar, ArcelorMittal, er eitt fyrirtækjanna sem  Carbfix hefur undirritað viljayfirlýsingu við: 

Rangt, engin viljayfirlýsing hefur verið undirrituð við ArcelorMittal. 

Bls . 19: 2.569% Áætlaður vöxtur Carbfix. Á einum áratug áætla stjórnendur Carbfix að  fyrirtækið velti mest 275 milljarða. 

Þetta eru úreltar tölur. Markmiðið eftir sem áður er að stækka og að tæknin nýtist á  heimsvísu. 

Bls. 19 - Ákvörðun um íbúakosningu í Hafnarfirði hefur seinkað þessum áformum um að  minnsta kosti eitt ár. Upphaflega var vonast til þess að hefja framkvæmdir í ágúst 2024 og  að full starfsemi hæfist í Hafnarfirði árið 2032. 

Þetta er villandi. Það eru önnur atriði sem hafa haft áhrif á seinkun framkvæmda eins og  umfang og málsmeðferð umhverfismats vegna Coda Terminal. 

Athugasemdir ritstjórnar: 

  1. Fyrirtækin sem nefnd eru í umfjöllun Heimildarinnar hafa átt í samskiptum við Carbfix á einhverjum tímapunkti varðandi niðurdælingu á CO2, samkvæmt fjárfestingakynningunni. Carbfix er undanskilið upplýsingalögum, ber fyrir sig trúnaði og veitir ekki upplýsingar um hver staða viðræðna er í dag. 

  2. Carbfix hafnar því að hafa undirritað viljayfirlýsingu við ArcelorMittal og segist ekki eiga í viðræðum við Lafarge/Holcim. Hver sem staða viðræðna er að svo stöddu, þá voru þessi fyrirtæki fyrirferðarmikil í fjárfestingakynningu Carbfix sem unnin var í júlí 2023, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

  3. Flest fyrirtækjanna sem nefnd eru í fjárfestingakynningunni eru sögð ætla að leggja til koldíoxíð til niðurdælingar yfir ákveðið tímabil, líkt og greint er frá í umfjöllun Heimildarinnar. 

Hér má sjá Nafn Lafarge/Holcim ásamt fleiri fyrirtækjum. LOI þýðir viljayfirlýsing eða letter of intent á ensku.
Hér má sjá lista yfir þau fyrirtæki sem Carbfix á í samræðum við. Aftur kemur fyrir LOI í þessari glæru auk þess sem finna má nöfn fyrirtækja eins og AcelorMittal, sem Carfbix segist ekki hafa undirrtað viljayfirlýsingu við. Þó virðist fyrirtækið hafa hug á að flytja inn CO2 til landsins og nýta þjónustu carbfix.
Hér má finna aðra blaðsíðu með fyrirtækjum sem Carbfix virðist eiga í samtali við um innflutning á CO2. Þar má meðal annars finna Lafarge/Holcim eins og fram kom í upphaflegri umfjöllun blaðsins. Til hliðar má sjá hversu mörg tonn af CO2 fyrirtækin geta hugsað sér að flytja til landsins og dæla ofan í íslenskt berg.
Í textanum fyrir ofan fyrirtækjalistann kemur fram að þetta séu fyrirtæki sem Carbfix eigi í sambandi við eða samtali. Þar má finna bæði Lafarge/Holcim og stálfyrirtækið ArcelorMittal.

CARBFIX: 

3. Misfærslur um mögulega fjárfesta 

Bls. 19. Bandaríski fjárfestingasjóðurinn EIG Global Partners er eini fjárfestingasjóðurinn  sem er í viðræðum við Carbfix um fjárfestingu í Coda Terminal en samningar hafa ekki tekist  enn, einu og hálfu ári síðar. 

Hér er rangt farið með stöðu viðræðna í fjármögnunarferli og viðskiptasambönd. Carbfix er bundið trúnaði varðandi mögulega fjárfesta eins og gefur að skilja og mun birta hver verður  fjárfestir/ar þegar samkomulagi er náð.  

Bls. 20. Þrátt fyrir stórhuga áætlanir hefur gengið erfiðlega að laða að einkafjárfesta að  verkefninu og hefur það verið fjármagnað að öllu leyti fyrir almannafé hingað til. 

Hér er rangt farið með stöðu viðræðna í fjármögnunarferli. Samræður við fjárfesta ganga  eðlilega fyrir sig og hefur Orkuveitan getað valið úr þeim sem sækjast eftir að verða  minnihlutaeigandi. Varðandi fjármögnun af almannafé þá hefur rekstur Carbfix haft jákvæð  áhrif á rekstur Orkuveitunnar. Í viðtali Morgunblaðsins við forstjóra Orkuveitunnar þann  23.10.2024 kemur fram að notkun tækni Carbfix við Hellisheiðarvirkjun hafi sparað  Orkuveitunni miklar fjárhæðir. „Þegar við stóðum frammi fyrir því að þurfa að uppfylla  kröfur í reglugerð um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti var hægt að kaupa aðrar iðnaðarlausnir. Orkuveitan átti þá í samstarfi við verkfræðistofur til að finna leiðir til að  leysa þetta verkefni. Þær lausnir voru alls ekki jafn umhverfisvænar. Til dæmis hefðu myndast heilu brennisteinsfjöllin við það að fanga brennisteinsvetni og þá hefði þurft að  finna leiðir til að losna við þau með öðrum hætti, en því fylgir líka ýmis kostnaður. Lausn  okkar felur í sér að brennisteinsvetni er dælt í jörðina og verður þar hluti af bergi. Sé  rekstrarkostnaðurinn og fjárfestingin að baki þessari aðferð borin saman við aðrar aðferðir  reynist sparnaðurinn vera 14 milljarðar króna,“ segir Sævar Freyr. Til samanburðar hafi öll  þróun og fjárfesting í Carbfix, sem og uppbygging innviða sem tengist föngun og  niðurdælingu koldíoxíðs og brennisteinsvetnis við Hellisheiðarvirkjun, numið 6,7  milljörðum en 2,7 milljarðar komið í styrki á móti. 

Ekki gengur erfiðlega að finna fjárfesti: Í viðtali þann 23.10.2024 segir Sævar Freyr í  Morgunblaðinu:” Við fengum bandaríska fjárfestingarbankann Morgan Stanley til að halda  utan um hluta af ferlinu með okkur og hafa sérfræðingar hans leitt viðræðurnar fyrir hönd  Orkuveitunnar. Þær viðræður hafa gengið vel. Þær hófust með því að haft var samband við  138 erlenda fjárfesta í upphafi sem og við innlenda fjárfesta. Síðan skrifuðu 58 fjárfestar  undir trúnaðarsamning og komust áfram í ferlinu. Níu voru virkir í viðræðunum og sex  skiluðu inn óskuldbindandi tilboði. Þrír skiluðu inn lokatilboði og nú erum við í  einkaviðræðum við einn aðila. Meira get ég ekki sagt á þessu stigi.“ Hvers vegna hafið þið  valið inn einn aðila? „Við erum að leita að aðila til að vinna með okkur að uppbyggingu  fyrsta verkefnisins af þessu tagi. Það er lykilatriði að velja samstarfsaðilann vandlega og  hefur raunar verið mikilvægur þáttur í því hvernig við höfum unnið þetta ferli áfram.“ 

Bls. 22 - Orkuveitan varð að endurskoða fjárhagsspá sína til næstu fimm ára fyrir áramót.  Vonir stóðu til að fjárfestingar í verkefninu skiluðu Orkuveitunni í kringum 60 milljörðum í  gegnum fjárfestingar fyrir 2029. Það mat var svo lækkað niður í um 40 milljarða í uppfærðri  fjárhagsspá, sem þurfti að breyta aðeins ári eftir að hún var samþykkt. 

Ferli endurskoðunar og gerð spár er eins og vera ber. Fjárhagsspá félaga í samstæðu  Orkuveitunnar er endurskoðuð oft á ári. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum gerir Orkuveitan,  sem hluti samstæðu Reykjavíkurborgar, opinbera fjárhagsspá einu sinni á ári. Hún er til  fimm ára í senn. Fjárhagspá Orkuveitunnar fyrir árin 2025-2029 var afgreidd í lok október  síðastliðins. Engar sérstakar breytingar hafa verið gerðar á útgefnum spám en tafir á  verkefnum endurspeglast í spám hvers árs. 

Ekki finnast efnislegar umræður á vettvangi borgarstjórnar um þá áætlun að breyta  kjarnastarfsemi Orkuveitunnar. Þvert á móti virðist lítil sem engin efnisleg umræða hafa  farið fram um áætlanir Carbfix á opinberum vettvangi. 

Kjarnastarfsemi Orkuveitunnar var ekki breytt, heldur var með breytingu á lögum um  fyrirtækið tekin af öll tvímæli um lagaheimild fyrir geymslu koldíoxíðs og annarra vatnsleysanlegra gastegunda í jörðu, sem er og hefur verið hluti af kjarnastarfsemi  fyrirtækisins um árabil og tekið við útblæstri frá virkjunum þess og bundið í jörðu. 

Þá er ekki rétt að lítil sem engin efnisleg umræða hafi farið fram um áætlanir Carbfix á  opinberum vettvangi. Við vandlegan og ítarlegan undirbúning sveitarfélaganna sem eiga  Orkuveituna, þ.m.t. Reykjavíkurborgar, benti borgarlögmaður á, að vegna ákvæða  sveitarstjórnarlaga þyrfti að taka af öll tvímæli um að borgin mætti eiga í fyrirtæki sem  stundaði starfsemi eins og þá sem Carbfix stundar. Því lagði umhverfis-, orku- og  loftslagsráðherra fram frumvarp fyrir Alþingi, þar sem kemur skýrt fram í greinargerð að  „þróun aðferðafræði Carbfix hefur verið álitin tengjast kjarnastarfsemi Orkuveitu  Reykjavíkur enda dregur hún úr mengun sem stafar frá virkjunum. Að auki var við þróun aðferðarinnar byggt á þekkingu og rannsóknum Orkuveitu Reykjavíkur. Aðferðin hefur því  verið talin rúmast innan starfsheimilda Orkuveitunnar og dótturfélaga samkvæmt  núgildandi lögum nr. 136/2013, en með skýru lagaákvæði þess efnis eins og frumvarp þetta  gerir ráð fyrir eru tekin af öll tvímæli.“ 

Fulltrúar Orkuveitunnar og Carbfix sóttu fjóra fundi borgarráðs um málið og þrjá fundi  rýnihóps, sem borgarráð skipaði til að undirbúa ákvörðun sem best, auk funda með  starfsfólki fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar og embættis borgarlögmanns.  Einnig fóru fulltrúar fyrirtækjanna á fundi bæjarráðs Akraness og byggðaráðs Borgarbyggðar  áður en ákvarðanir voru teknar. Þetta sýnir hversu ítarlegur og vandaður undirbúningur  eigendasveitarfélaganna var.  

Það er einnig rangt að ekki hafi farið fram umræður á opinberum vettvangi, þó að það hafi  verið afgreitt í borgar-, bæjar- og byggðaráðum en ekki farið fyrir sveitarstjórnir eigenda, því  málið hlaut lögbundna málsmeðferð á Alþingi, þ.m.t. þrjár umræður í þinginu og umfjöllun  atvinnuveganefndar, auk þess sem það var kynnt í samráðsgátt.  

Carbfix hefur unnið náið með starfshópi borgarinnar og mætt ítrekað á fundi borgarráðs  vegna áforma um uppbyggingu og fjármögnun fyrirtækisins. Trúnaður hefur gilt um tiltekna hluta þeirrar vinnu. 

Því er ljóst að um gífurlega áhættu er að ræða fyrir sveitarfélagið, á meðan  Orkuveitan hefur þegar varið sig bæði með belti og axlaböndum í ljósi sérstæðs  viðskiptaforms þar sem aðeins hlutafé í einkahlutafélaginu myndi tapast ef illa færi.  

Það er ekkert „sérstætt“ við hlutafélög sem rekstrarform enda er meirihluti allrar þjónustu  Orkuveitunnar veittur af hlutafélögum. Áðurnefnd málsmeðferð Reykjavíkurborgar er til  marks um að áhætta og áhættustýring verkefnisins er metin með faglegum hætti. Þar sem  Hafnarfjarðarbær hefur ekki gengist undir neinar skuldbindingar vegna fyrirhugaðrar  kolefnisbindingar við Straumsvík er engri áhættu sveitarfélagsins þar til að dreifa. Hvernig Hafnarfjarðarbær stýrir hugsanlegri framtíðaráhættu birtist væntanlega í hugsanlegum  samningum við Carbfix og áætlunum Hafnarfjarðarhafnar varðandi mögulegrar  uppbyggingu hafnar í Straumsvík. 

Athugasemd ritstjórnar: 

  1. Engin efnisleg leiðrétting er í svörum Carbfix varðandi stöðu fyrirtækisins gagnvart fjárfestum. Því er aðeins haldið fram að rangt sé farið með stöðu viðræðna í fjármögnunarferli og viðskiptasambönd, án þess að ljóst sé í hverju leiðréttingin felst. Í því samhengi ber fyrirtækið fyrir sig trúnaði. 

  2. Í athugasemdum Carbfix er vísað í viðtal við forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, sem segir að aðeins sé verið að ræða við einn fjárfesti, líkt og fram kom í umfjöllun Heimildarinnar. 

  3. Þar sem viðræður hafa dregist á langinn hefur Orkuveitan opnað 2,8 milljarða lánalínu fyrir Carbfix á meðan beðið er eftir niðurstöðum. Snemma á síðasta ári var sú upphæð hækkuð upp í sjö milljarða, þar sem enn var beðið eftir niðurstöðum. Um almannafé er að ræða. 

  4. Engin efnisleg umræða um breytingar á lögum um Orkuveituna hefur farið fram í borgarstjórn Reykjavíkur. Umræðan á Alþingi var sömuleiðis lítil sem engin, og lauk um tíu mínútum eftir að hún hófst, líkt og greint er frá í umfjöllun Heimildarinnar. Að öðru leyti var málið ekki rætt á opinberum vettvangi. Fundargerðir borgarráðs veita takmarkaðar upplýsingar sökum trúnaðar, og er viðurkennt í aðfinnslum Carbfix. Sá trúnaður hefur gert almenningi erfitt um vik að fylgjast með þróun málsins.  

  5. Hlutverki Orkuveitunnar var breytt með lagabreytingu á Alþingi til að fella starfsemi Carbfix undir rekstur Orkuveitu Reykjavíkur. Meðal annars vegna umsagnar borgarlögmanns um lagalega óvissu um starfsemi Carbfix. Að halda því fram að með því hafi ekki verið ráðist í breytingar varðandi kjarnastarfsemi Orkuveitunnar er útúrsnúningur.  

  6. Fullyrðing upplýsingafulltrúa Carbfix um að ekkert sé „sérstætt“ við hlutafélagaformið stenst ekki skoðun. Ekkert annað dótturfélag innan samstæðu Orkuveitunnar er rekið með samskonar hætti á samkeppnismarkaði; sem opinbert hlutafélag, sem stofnar hlutafélag, sem stofnar svo annað hlutafélag um sérstakt fjárfestingaverkefni af þessari stærðargráðu, eins og í tilfelli Coda Terminal. 

CARBFIX:

4. Það er rangt að starfsemi Carbfix gangi gegn markmiðum ETS kerfisins. 

Bls 22: Hvatinn er hugsaður sem svo að fyrirtæki leiti í endurnýjanlega orku og þannig ná  þau kostnaði niður þegar kemur að ETS kerfinu. 

Þetta er einn hvati í ETS. Tenging Coda Terminal við ETS er þannig að með því að binda CO2 er komið í veg fyrir losun. 

Carbfix áætlar að kostnaðurinn við niðurdælingu og flutningar á CO2 frá höfn í  Evrópu til Íslands, verði á bilinu 54 til 63 evrur á hvert tonn. Þá áætlar Carbfix að hægt sé að  ná þessum kostnaði niður í allt að 45 til 52 evrur hvert tonn, að því gefnu að stærri skip verði  notað til flutninga. Þau skip eru hins vegar ekki til í dag, en þau eiga að geta tekið allt að  55.000 tonn af CO2 í vökvaformi. 

Úrelt samantekt úr sviðsmyndagreiningu úr gögnum frá árinu 2023 sem Heimildin hefir  undir höndum. Markmiðið Carbfix er eftir sem áður að stækka og að tæknin nýtist sem  best, bæði á Íslandi og á heimsvísu. 

Margir umhverfisverndarsinnar hafa bent á að sú aðferð að safna og dæla niður CO2  sé helst til þess fallin að leyfa stærstu mengunarvöldum heimsins að halda áfram að  menga andrúmsloftið með hættulegum efnum, en söfnun og niðurdæling á CO2 geri ekkert  til að minnka mengun frá stærstu mengunarvöldum heimsins. 

Starfsemi Carbfix snýr að því að draga úr eða koma í veg fyrir losun CO2 eins og svarað  hefur verið. Orkuskipti og orkunýtni skipta eðlilega mestu máli og hefur Carbfix lagt mikla  áherslu á það. Aftur á móti er skýrt af t.d. IPCC og IEA að föngun koldíoxíðs þarf að vera  hluti af lausninni en alltaf samhliða orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti. 

Eingöngu 28 þannig vélar hafa verið seldar frá árinu 2012 og eru að mestu notaðar af  olíu- og gasiðnaði til að safna koldíoxíði sem er svo dælt niður í gamlar olíulindir til að  endurheimta meiri olíu. 

Hér er lýst tækni sem er eðlisólík Carbfix tækninni. Tækni Carbfix virkar ekki við slíkar  aðstæður og tækni Carbfix er á mun lægri þrýstingi og dýpi og steinrennir CO2 ólíkt  aðferðum olíugeirans sem geymir CO2 á gas eða súperkrítísku formi. 

Það sem er þó umhugsunarvert er að Carbfix og Climeworks telja sig hluta af  lausninni þegar kemur að loftslagsvandanum, á sama tíma ætla fyrirtækin í beina samkeppni við viðskiptakerfi ESB, sem gengur út á að hvetja fyrirtæki til þess að leita í  endurnýjanlega orkugjafa, sem er yfirlýst markmið kerfisins og helsta lausnin við  loftslagsvandanum samkvæmt loftslagsráði Sameinuðu Þjóðanna. 

Þetta er rangt. Eitt hlutverk ETS er að skipta út jarðefnaeldsneyti með endurnýjanlegum  orkugjöfum. Hlutverk ETS kerfisins er einnig að draga úr losun frá iðnaðarferlum. Styrkur  ESB til Carbfix vegna Coda Terminal er beinlínis fjármagnaður með tekjum úr ETS kerfinu  enda föngun og niðurdæling koldíoxíðs(e. Carbon Capture and Storage) nauðsynlegur hluti  af aðgerðum samkvæmt ESB og IPCC.  

Það sem undirbyggir þessi rök, ofan á allt annað, er að langflest kolefnisföngunar og förgunarfyrirtæki sem eru í bígerð, eða hafa komist á laggirnar, eru í eigu olíu- og  gasfyrirtækja sem eru allt um kring í þessum iðnaði. 

Óljóst samhengi. Carbfix hefur engin áform um að dæla niður CO2 í tengslum við olíu- og  gasframleiðslu, og líkt og fram hefur komið, m.a. í viðtali við Heimildina, er hvorki áhersla  Carbfix eða Orkuveitunnar að taka þátt í slíkum verkefnum. 

Slíkt kæmi aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. í þróunarlöndum þar sem ljóst er  að ekki sé raunhæft að horfa til orkuskipta til að draga úr losun. 

Athugasemdir ritstjórnar: 

  1. Heimildin greinir frá gagnrýni umhverfisverndarsinna um að umhugsunarvert sé að fyrirtækið bjóði upp á þjónustu fyrir mengunarvalda. Sú umræða hefur átt sér stað á meðal umhverfisverndarsinna og sérfræðinga um allan heim, en hefur ekki verið tekin hér á landi varðandi starfsemi Carbfix. 

  2. Í umfjöllun Heimildarinn er hvergi haldið fram að Carbfix gangi gegn markmiðum ETS heldur að starfsemi fyrirtækja í þessum rekstri sé í samkeppni við ETS kerfið. 

  3. Carbfix dregur fram setningu úr umfjöllun Heimildarinnar þar sem segir CCS tæknin sé aðallega nýtt af olíu- og gasfyrirtækjum. Um leið er gagnrýnt að þetta sé sett fram í óljósu samhengi í umfjöllun Heimildarinnar. Carbfix slítur textann hins vegar úr samhengi. Í umfjöllun Heimildarinnar kemur fram að Carbfix notar ekki tæknina til þess að endurheimta jarðefnaeldsneyti. Er það sérstaklega tekið fram í sama kafla og setningin sem um ræðir. 

  4. Annað sem fram kemur í athugasemdum Carbfix varðar ekki efni Heimildarinnar.

Kjósa
11
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Elín Sigríður Óladóttir skrifaði
    Takk blaðamenn Heimildarinnar fyrir upphaflegu greinina og síðan að fletta svo rækilega ofan innistæðulausum "leiðréttingum" sem Carbofix í kjölfar greinarinnar. Áfram Heimildin
    7
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
1
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Læknamistök og handleggsbrot hafa markað ævi Ingu
2
Nærmynd

Læknamis­tök og hand­leggs­brot hafa mark­að ævi Ingu

Ingu Sæ­land fé­lags- og hús­næð­is­mála­ráð­herra var ekki hug­að líf vegna skæðr­ar heila­himnu­bólgu þeg­ar hún var smá­barn. Hún lifði en sjón henn­ar tap­að­ist að miklu leyti. Inga þekk­ir bæði fá­tækt og sár­an missi, gift­ist sama mann­in­um tvisvar með 44 ára milli­bili og komst í úr­slit í X-Factor í milli­tíð­inni. Hand­leggs­brot eig­in­manns­ins og ít­rek­uð læknamis­tök á tí­unda ára­tugn­um steyptu fjöl­skyld­unni í vand­ræði.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
1
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
2
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
4
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
3
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
„Þetta er eins og að búa í einbýlishúsi“
4
VettvangurHjólhýsabyggðin

„Þetta er eins og að búa í ein­býl­is­húsi“

Berg­þóra Páls­dótt­ir, Bebba, hef­ur un­un af því að fá gesti til sín í hjól­hýs­ið og finnst þetta svo­lít­ið eins og að búa í ein­býl­is­húsi. Barna­börn­in koma líka í heim­sókn en þau geta ekki far­ið út að leika sér í hjól­hýsa­byggð­inni í Sæv­ar­höfð­an­um: „Þau skilja ekki af hverju við vor­um rek­in úr Laug­ar­daln­um og sett á þenn­an ógeðs­lega stað.“
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
6
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu