Um miðjan desember fór ég á ráðstefnu í Stokkhólmi um inngildingu innflytjenda. Ég bjó í Stokkhólmi í þrjú og hálft ár fyrir margt löngu og eftir að hafa fengið sænskan ríkisborgararétt flutti ég aftur til Íslands, þar sem ég hafði áður búið í tvö ár á stúdentavísa. Ég var frekar fátæk, en elskaði samt Ísland.
Ég bjó í úthverfi Stokkhólms þar sem um 83 prósent íbúa voru innflytjendur. Þetta var mikið menningarsjokk fyrir mig, auk þess sem ég fann aldrei fyrir öryggi í hverfinu. Hvert skref sem ég tók sem innflytjandi í gegnum skriffinnskukerfið var niðurlægjandi og mér leið eins og þriðja flokks manneskju. Alla tíð meðan ég var þar langaði mig að koma aftur til Íslands, þar sem ég var að minnsta kosti annars flokks.
„Var ég orðin íslensk í miðborg Stokkhólms?“
Þrátt fyrir allt naut ég þess að heimsækja Stokkhólm um daginn. Ég dáðist að fallegum húsum í miðborginni og tók myndir af bláum himni og sólsetri, sem ég sé ekki oft heima á klakanum. Ég tók neðanjarðarlest og hugsaði með pirringi um strætó í Reykjavík. Á milli Slussen og Gamla Stan fékk ég bréf frá Útlendingastofnun um að ég hefði öðlast íslenskan ríkisborgararétt. Var ég orðin íslensk í miðborg Stokkhólms?
Eftir að hafa búið hér í tólf ár finnst mér Ísland ekki lengur vera paradís á jörð og fegurð náttúrunnar gerir mig ekki orðlausa eins og í fyrstu. Ég spyr nýflutt fólk af hverju það hefur flutt til Íslands, spurningu sem ég þurfti oft að svara sjálf, en man ekki hvað ég hugsaði um þegar ég tók þá ákvörðun.
Ég er hætt að fara í göngutúra, sem ég elskaði að gera í heimalandinu. Nú eru yfirleitt bara aðrir innflytjendur sem ég get heimsótt án fyrirvara, og ég þekki enga Íslendinga sem ég get hringt í til að spjalla. Ég kvarta meira og meira yfir heilbrigðiskerfinu, er vonsvikin með pólitíkina og leiðist veðrið. Kannski er ég orðin meiri Íslendingur en ég bjóst við?
Á ráðstefnunni sá ég tölfræði þar sem íbúum var skipt eftir uppruna. Ég velti fyrir mér hvort ég muni núna teljast sem Íslendingur eða innflytjandi. En ég veit að sjálf mun ég alltaf telja mig sem hluta af þeim síðarnefndu.
Athugasemdir