Ég var orðin of sein í jólaboðið þegar ég fattaði að síminn hafði orðið eftir heima. Pældi alvarlega í að snúa við en það var of fáránleg tilhugsun, engin þörf á síma í kvöld, sagði ég sjálfri mér á meðan ónotatilfinning tók að hellast yfir mig.
Sannleikurinn er nefnilega sá að ég er símafíkill. Hægt en örugglega hefur síminn skipað sér helgan sess í lífi mínu, alltaf innan seilingar. Auðvitað dreymir mig um tilveru án hans, þar sem hann er ekki það fyrsta og síðasta sem ég sé dag hvern, að yfirgefa hann og skrá mig út fyrir fullt og allt, vera frjáls. Langsótt tilhugsun, of erfið, og svo myndi ég örugglega gleyma öllum lykilorðunum mínum. Mín eina von er að trappa mig niður, einn klukkutíma í einu, þar til ég verð eins og einn af þessum nútíma munkum með undir klukkutíma í skjátíma á dag. Heilög.
Þetta kvöld var því ágætis æfing. Yndisleg gæðastund með vinum, ekkert mál, auðvitað smá leiðinlegt að geta ekki tekið myndir en það skipti ekki máli, ég var í núinu, að skapa alvöruminningar, vorkenndi meira að segja smá hinum sem voru alltaf að kíkja á símana sína. Greyin.
„Guð minn góður, mig var farið að klæja af örvæntingu“
Jólamynd var skellt í tækið, yndislegt, nema ég gat samt ekki fylgst almennilega með ekkjumanninum kynna ríku borgarstúlkunni fyrir fegurð fábrotna fjölskyldulífsins, ég var að hugsa um símann minn. Hvað var eiginlega að gerast í símanum? Hringingar, skilaboð og hópspjöllin, guð minn góður, mig var farið að klæja af örvæntingu. Iðaði svoleiðis í skinninu að viðstaddir spurðu hvort það væri ekki allt í lagi með mig. Neyddist þá til að viðurkenna að ég saknaði símans og við það sjatnaði aðeins á fráhvarfseinkennunum.
Heimferðin var þó ekki laus við tilhlökkun, eins og ég væri á leiðinni á langþráðan ástarfund, keyrði jafnhratt og örvæntingarfullur fjölskyldufaðir sem hefur lofað að koma heim fyrir jólin, ég nánast hljóp inn um dyrnar til að finna minn heittelskaða. Endurfundirnir voru þó heldur þurrir, enginn hafði hringt, engar tilkynningar, engin skilaboð, ekkert.
Bara ég og síminn.
Athugasemdir (1)