Émile Durkheim, einn frumkvöðla félagsfræðinnar, bendir á að félagsleg gildi og norm viðhalda og efla samfélög. Eitt þessara gilda í okkar samfélagi birtist í stuðningi landsmanna við starfsemi og hlutverk björgunarsveitanna. Starfsemi björgunarsveita gera samfélagið betra, við hjálpum hvert öðru, sérstaklega þegar áföll dynja yfir.
En fjármögnun björgunarsveita með flugeldasölu stangast á við önnur gildi, svo sem umhverfisvernd og öryggi. Þessi þversögn sem felst í kaupum og notkun flugelda leiðir til siðrofs, þar sem fólk er klofið milli þess að styðja björgunarsveitirnar og að viðurkenna skaðsemi flugeldanna. Á sama tíma getur skortur á kerfisbundinni lausn viðhaldið því að þessi þversögn standi óleyst. Þó svo þessi vandi hafi ekki verið þungamiðja í nýliðnum kosningum til þings þá skiptir þetta máli.
„Við þekkjum ekki að fullu skaðleg áhrif loftmengunar á öndunarfæri og heilsu fólks en við vitum að áhrifin eru umtalsverð“
Björgunarsveitir á Íslandi gegna lykilhlutverki í samfélaginu. Sérfræðiþekking björgunarsveitarfólks, búnaður þeirra og skipulag hefur oft reynst vel þegar alls kyns áföll verða, svo sem slys, náttúruhamfarir og hrakfarir ýmiskonar. Starfsemin byggir að mestu á sjálfboðaliðum og er fjármögnuð að miklu leyti með flugeldasölu. Notkun flugelda hefur þó alvarlega neikvæð áhrif á heilsu fólks og velferð. Við þekkjum ekki að fullu skaðleg áhrif loftmengunar á öndunarfæri og heilsu fólks en við vitum að áhrifin eru umtalsverð. Hávaðinn og ónæðið sem fylgir sprengingum veldur allmörgum íbúum andlegri, ekki síst þeim sem hafa áður lifað í stríðshrjáðu landssvæði. Eftir áratuga langa notkun almennings á flugeldum þekkjum við því miður allt of mörg dæmi um slys þar sem börn og fullorðnir hafa hlotið varanlega skaða af. Ónæði og mengun flugelda hefur einnig áhrif á mörg hús- og gæludýr í og við þéttbýli. Hættan á íkveikju eykst væntanlega með hverju vindstigi þó loftmengun mögulega minnki. Íslendingar halda margir áfram að styðja við þessa fjáröflunarleið, skjóta upp flugeldum af ýmsum stærðum og gerðum, og passa sig bara betur en í fyrra þegar gaurinn slasaðist í næstu götu. Í ár hlaupum við enn fyrr frá kveiknum áður en tertugosið byrjar.
Kannski réttlætum við hósta hjá nokkrum nágrönnum með því að við styrkjum mjög gott málefni. En hversu mikla vanlíðan hjá hve mörgum getum við sætt okkur við til að unnt sé að efla björgunarsveitir til að bregðast við áföllum þegar þau á okkur dynja?
Hvers vegna er okkur stillt upp þannig að við þurfum að takast á við þversögn sem þessa? Félagsfræðingar, stjórnmálfræðingar, heimspekingar og fleiri glíma meðal annars við slíkar spurningar. Spurningar um hvernig félagslegt taumhald og þagnarsamþykki mótar hegðun okkar og viðheldur þessum þversögnum.
Félagsfræðingurinn Erving Goffman annar bendir á að fólk hegðar sér oft í samræmi við óskráð norm og viðmið til að viðhalda félagslegum friði og samhljómi. Í þessu samhengi kaupa margir flugelda til að styðja björgunarsveitirnar, jafnvel þó þeir séu meðvitaðir um skaðann sem fylgir notkun þeirra. Þessi hegðun er hluti af daglegum „hlutverkaleik“ þar sem stuðningur við björgunarsveitirnar verður að normi sem er erfitt að brjóta án þess að valda óþægindum eða óánægju.
„Sagnfræðingurinn og heimspekingurinn Michel Foucault benti á að vald og norm eru oft svo inngróin í samfélagið að við fylgjum þeim ósjálfrátt“
Sagnfræðingurinn og heimspekingurinn Michel Foucault benti á að vald og norm eru oft svo inngróin í samfélagið að við fylgjum þeim ósjálfrátt, jafnvel þegar þau stangast á við eigin hagsmuni okkar eða gildi. Flugeldakaup og notkun er dæmi um slíka hegðun. Við fylgjum norminu um að styðja björgunarsveitirnar með kaupum á flugeldum, þó notkun þeirra fari gegn aukinni vitund okkar um sjálfbærni, umhverfisvernd og forvarnir.
Þýski stjórnmálafræðingurinn Elisabeth Noelle-Neumann bendir á að þegar skoðanir eru í minnihluta, eða andstaða er við ríkjandi norm getur það leitt til félagslegrar útskúfunar. Fólk kýs fólk oft að þegja fremur en að stíga fram. Þögnin um þverögnina milli flugeldasölu, heilsu- og umhverfisverndar er dæmi um þetta. Þagnarsamþykki tryggir að flugeldasalan haldist sem fjármögnunarleið, þeim sem eru gagnrýnir á þetta ferli getur þótt óþægilegt eða jafnvel siðlaust að tjá sig.
Viðar Halldórsson, félagsfræðingur fjallar einnig um notkun flugaelda í nýlegri bók sinni Sjáum samfélagið. Þar dregur Viðar fram hugtakið sýnileg neysla (e. conspicuous consumption), úr smiðju hag- og félagsfræðingsins Thorstein Veblen þar sem neysla er ekki einungis knúin af þörf okkar að njóta, heldur einnig tæki til að sýna samfélagslega stöðu eða gildi út á við. Margir kaupa flugelda ekki einungis til að styðja björgunarsveitirnar heldur einnig til að senda skilaboð um félagslega stöðu þess sem skýtur þeim upp.
„Stuðningur við björgunarsveitirnar er eitt af mikilvægu gildum íslensks samfélags“
Hvar værum við ef félags- og hugvísindin væru ekki til að hjálpa okkur að greina og skilja þessa árlegu þversögn í íslensku samfélagi? Það er ekkert óvenjulegt eða óeðlilegt að svona þversagnir komi upp í lífinu. Með þá þekkingu sem við höfum á samfélaginu, heilsu okkar, öryggi og sjálfbærni þá er eðlilegt við að bregðumst við.
Stuðningur við björgunarsveitirnar er eitt af mikilvægu gildum íslensks samfélags. Fjármögnun þeirra með flugeldasölu veldur þversögn sem krefst úrlausnar. Með því að skoða þetta í ljósi kenninga félagsfræðinnar og annara greina félagsvísinda er okkur betur ljóst hvernig félagslegt taumhald og þagnarsamþykki viðhalda þessum aðstæðum. Lausnin felst í því að brjóta upp þögnina, skapa nýjar og sjálfbærar lausnir og tryggja að stuðningur við björgunarsveitirnar verði samrýmanlegur öðrum samfélagslegum gildum. Þannig getum við sameinast í verki og komið í veg fyrir að góður málstaður missi mátt sinn.
Að vita af áframhaldandi stuðning þjóðarinnar við björgunarsveitirnar veitir mér meiri gleði en að fylgjast með skottertu gjósa í götunni heima. Á vefsíðunni er landsbjorg.is er auðveld og vistvæn leið sem við getum öll notað til að styðja björgunarsveitirnar með fjárframlagi. Ég fann sól í sinni í skammdeginu hér í Berlín þegar Björgunarfélag Akraness sendi mér til baka skilaboðin: "Takk fyrir stuðninginn. Með framlagi þínu hjálpar þú okkur að bjarga mannslífum".
Gleðilegt nýtt ár!
Fái þessi brennuvargur í mér ekki sína útrás þarna, mun það sjálfsagt ekki hafa önnur áhrif en að maður finni sér einhverja aðra leið, annan tíma eða tækifæri til að svala þessari frumþörf til að horfa í glóðirnar eftir góðan bardaga. Það eru nefnilega ekkert allir í fótboltanum... ;-)