Þegar þetta er skrifað [er] ríkisstjórn Frakklands [fallin] á vantrauststillögu vinstri blokkarinnar, skipaðri sósíalistum, græningjum, gamla kommúnistaflokknum og vinstri flokki Jean-Luc Mélenchon, La France Insoumise. Í fyrsta sinn í sögu fimmta lýðveldisins, sem stofnað var af Charles De Gaulle árið 1958, greiddi flokkurinn sem lengst er til hægri í frönskum stjórnmálum atkvæði með vinstri blokkinni og þar með voru dagar ríkisstjórnarinnar taldir.
Þetta hefur gerst einu sinni áður, 1962, en þá féll ríkisstjórn Georges Pompidou, forsætisráðherra Charles De Gaulle. Þá orti Pétur Jónsson í Reynihlíð eftirfarandi stöku:
Franska stjórnin féll í nótt
úr fúnum valda tréstól.
Ætli verði ekki hljótt
eftirleiðis um De Gól?
En De Gaulle leysti upp þingið, efndi til kosninga, fékk traustan meirihluta og stýrði landinu til 1969. Þetta getur Emmanuel Macron ekki gert.
Atburðurinn 4. desember á sér nokkurn aðdraganda. Fyrst má nefna að Macron tókst ekki að tryggja sér meirihluta í þingkosningunum sem haldnar voru í kjölfar þess að hann var endurkjörinn til fimm ára 2022. Minnihluti kosningabandalags hans var þó það stór að hann gat komið stefnumálum sínum í gegn, meðal annars hækkun eftirlaunaaldurs, sem var barið í gegnum þingið með sérstöku ákvæði stjórnarskrárinnar sem heimilar forsætisráðherra að setja lög án samþykkis þingsins sem á móti getur kosið um vantraust. Þá sameinaðist stjórnarandstaðan ekki um vantraust og lögin héldu.
Macron mátti búast við erfiðleikum með að koma fjárlögum í gegnum þingið nú í haust. Í júní vann Þjóðfylking Marine Le Pen stórsigur í Evrópukosningunum, og var það áfall fyrir þann hluta þjóðarinnar sem grunar Þjóðfylkinguna um útlendingahatur og takmarkaða virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum.
Að kvöldi kjördags kom Macron forseti á óvart með því að beita ákvæði stjórnarskrárinnar sem heimilar honum að leysa upp þingið og boða til kosninga. Tilgangur hans virðist hafa verið að „stela senunni“ frá Þjóðfylkingunni og leiða athyglina frá sigri hennar, en um leið að fylkja andstæðingum Þjóðfylkingarinnar á bak við sig, og fá þingmeirihluta sem gerði honum kleift að stjórna áfram landinu. Sú von brást því þótt flestir flokkar hafi gert með sér samkomulag um að koma í veg fyrir að Þjóðfylkingin fengi þingmeirihluta, varð útkoman sú að þingið er þríklofið. Þingmenn Macron eru þriðji stærsti flokkurinn. Þjóðfylkingin er næststærstur og þingmenn bandalags græningja og vinstri flokka mynda stærsta hópinn á þinginu. Enginn er með meirihluta og býsna langt á milli fylkinganna.
Ljóst var að erfitt yrði að mynda starfhæfan meirihluta á þinginu. Vinstra bandalagið krafðist þess að fá að spreyta sig en Macron neitaði og studdist meðal annars við yfirlýsingu Jean-Luc Mélenchon strax á kvöldi kjördags um að vinstra bandalagið myndi stjórna samkvæmt stefnu sinni og ekki hvika frá neinu atriði í henni. Þar með var vonin úti um að hægt væri að mynda eins konar miðjubandalag með Macronistum, gaullistum og einhverjum þingmönnum úr röðum vinstri manna.
Macron lét þrjá mánuði líða þar til hann skipaði forsætisráðherra. Þegar hann loks skipaði Michel Barnier, bentu margir á að hann væri úr flokki gaullista, sem væri mjög lítill á þingi og hafði ekki tekið þátt í varnarbandalaginu gagnvart Þjóðfylkingunni í þingkosningunum.
Á móti kom að Barnier hafði verið fjarri innanríkispólítíkinni meðan hann stýrði samningaviðræðum Evrópusambandsins við Breta í kjölfarið á Brexit. Líklega myndi samningalipurð hans hjálpa honum að koma málum í gegnum þingið. Vinstri menn lýstu strax yfir andstöðu, töldu sig hafa rétt á að reyna að stýra landinu sem stærsta bandalag á þingi, þrátt fyrir að þá vantaði 100 þingmenn til að hafa meirihluta. Aftur á móti gengu gaullistar til samstarfs við Macronista. Meira máli skipti að Le Pen lýsti því yfir að hún myndi verja stjórnina vantrausti svo framarlega sem flokki hennar og þeim 11 milljónum sem greiddu honum atkvæði sitt yrði sýnd virðing. Þar með hafði Þjóðfylkingin örlög stjórnarinnar í hendi sér.
Þegar Barnier tók við kom í ljós að fjárlagahalli Frakklands er meiri og skuldastaða ríkisins verri en sagt hafði verið. Hann neyddist til að setja ríkissjóði óvinsæl markmið: annars vegar að hækka skatta, sem stríðir gegn stefnu Macron; hins vegar að draga úr útgjöldum til velferðarmála.
Barnier bjó því við takmarkaðan stuðning frá eigin baklandi, andstöðu vinstra bandalagsins, og varð því að reiða sig á hlutleysi Þjóðfylkingarinnar, sem var keypt með því að koma til móts við helstu stefnumál hennar, meðal annars í meðferð útlendingamála. Barnier mat þó stöðu Le Pen þannig að hún myndi vilja tefja það fram á næsta sumar að fella stjórnina því þá væri hægt að knýja fram kosningar og fá meirihlutann sem henni mistókst að ná sl. sumar.
En þá komu réttarhöldin yfir Le Pen og flokki hennar um fjármuni sem flokkurinn mun hafa haft af Evrópuþinginu með því að fjármagna sig með peningum sem áttu að fara í laun aðstoðarmanna Evrópuþingmanna flokksins. Um miklar fjárhæðir er að ræða og ólíklegt er að Le Pen sleppi við refsingu. Þegar í ljós kom að ákæruvaldið krefðist auk fangelsisdóma að hún yrði svipt tímabundið réttinum til að bjóða sig fram, breyttist afstaða hennar. Ef dómurinn verður þessi er úti um forsetavonir Marine Le Pen.
Macron hefur útilokað að segja af sér fyrr en kjörtímabili hans lýkur um mitt ár 2027. Síðustu daga riðlaðist samstaða vinstri blokkarinnar og sósíalistar lýstu sig reiðubúna til samstarfs við flokka á miðjunni um tímabundna ríkisstjórn sem framfylgdi einhver stefnumál þeirra. Þeir gerðu líka kröfu um að forsætisráðherrann kæmi af vinstri vængnum. Macron hunsaði þá enn einu sinni og skipaði hinn margreynda miðjumann François Bayrou í embættið. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig honum gengur að vinna úr stöðunni og mynda stjórn á næstu dögum.
Greinin birtist fyrst í Vísbendingu, vikuriti um viðskipti og efnahagsmál 19. desember 2024. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.
Athugasemdir