„Jens Ólafsson Olsen, sýslumannsfulltrúi á Þórshöfn, var appelsínugulur í framan og sá ofsjónir. Þetta ástand var honum framandi, ekki af ásetningi og truflaði hann umtalsvert.“ (bls. 11) Svo hefst nýjasta skáldsaga Braga Páls Sigurðarsonar sem hefur á síðustu árum skipað sér í röð okkar ósvífnustu og fyndnustu höfunda. Efnistök Braga eru jafnan ögrandi og hið líkamlega og hið lítilmótlega leika þar stórt hlutverk. Það er gaman að því hversu hressilega lesendahópur Braga hefur stækkað á stuttum tíma en með skáldsögunni Arnaldur Indriðason deyr (2021) vakti hann athygli út fyrir þann hóp sem hafði áður fylgst með honum.
Lægsti samnefnari mennskunnar
Líkt og upphafssetningin og titillinn bera með sér fjallar þessi nýjasta skáldsaga höfundarins um Jens Ólafsson Olsen, sem er í upphafi bókar einstaklega ógeðfelldur maður. Hann er einhvers konar lægsti samnefnari mennskunnar, siðlaus og skeytingarlaus lögfræðingur sem helst á í félagslegum samskiptum við hrokafulla, unga karla af hans eigin kalíberi. …
Athugasemdir (1)