Verðbólga helst í stað og mældist 4,8 prósent í desember sem er sama hlutfall og mældist í nóvember. Mælingin er í takti við spár greiningaraðila. Til að mynda spáði Íslandsbanki óbreyttri verðbólgu í desember. Í grein bankans er einnig spáð því að verðbólga verði komin nokkuð nálægt 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans.
Í tilkynningu frá Hagstofu Íslands kemur fram að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 0,39 prósent milli mánaða. Án húsnæðis nemur hækkunin 0,37 prósentum.
Kostnaður við búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 0,5 prósent og flugfargjöld til útlanda um átta prósent. Þegar litið er á þróun vísitalnanna má glöggt sjá að verðbólga hefur dregist saman jafnt og þétt frá því að hún stóð í 10,2 prósentum í febrúar 2023. Línan flettist út undir lokin vegna mælinga síðustu tveggja mánaða.
Athugasemdir