Hann er nýbúinn að vera úti á Spáni með foreldrum sínum og þar var hann að spila svona pool þannig mér datt í hug hvort það væri ekki gaman að prófa þetta saman svo ég fór inn á Google og þá fann ég Billiardbarinn. Við ákváðum að koma hingað og fá okkur pitsu og spila smávegis saman. Þetta er bara jafnt, það skiptir ekki máli hvor er að vinna, þetta snýst bara um að hafa gaman.
Ég á ellefu afabörn og tvö langafabörn. Hann er einn af mörgum sem maður reynir að gera eitthvað með. Það er ekki allt sem maður getur gert með þessum unglingum, það er nú 70 ára aldursmunur á okkur. Æi, ég veit ekki, það er orðið dálítið erfitt að vera unglingur í dag, það eru stærri áskoranir, en sem betur fer erum við afskaplega heppin með strákana okkar, þeir eru frekar rólegir og ekkert að vesenast.
„Það er orðið dálítið erfitt að vera unglingur í dag“
Það er nú dálítill mikill munur á að verða pabbi og afi. Þegar þú ert pabbi ertu meira bundinn. Í hitt skiptið geturðu alltaf sett börnin aftur til mömmu og pabba þegar þau fara að gráta. En það er voðalega gott að vera afi. Yngsti er sex mánaða en elsti 43 ára.
Sjálfur er ég 83 ára. Það eru 23 ár síðan ég hætti að vinna. Ég var búinn að vera í sama starfinu, í banka, í 43 ár og það var fínt að breyta til. Við fluttum til Hveragerðis fyrir níu árum, við erum rosalega ánægð, búum við hliðina á Náttúrulækningafélaginu og þetta er rólegt og gott. Við búum í fallegu umhverfi með fjöllin og trén og skóginn. Svo getum við alltaf farið yfir í Náttúrulækningafélagshúsið og farið í sund, tækin og mat. Þetta er lífið. Ég færi aldrei aftur til Reykjavíkur, aldrei í lífinu. Við erum alsæl.“
Athugasemdir