Í París þar sem ég bý er mikið úrval af jólamörkuðum úti um alla borg sem er vinsæl og ánægjuleg hefð að rölta um í lok nóvember og desember. Á jólamörkuðunum geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi bæði í mat, drykk og gjafavöru. Þeir markaðir sem eru í miklu eftirlæti hjá mér eru í Montmartre sem er staðsett í 18. hverfi og Saint Germain dés Prés, þar er hægt að finna allt milli hemins og jarðar, eins og fallega útskorna muni úr við, ilmkerti, skartgripi og ýmislegt matarkyns, eins og hunang frá bændum í úthverfum Parísar og handverkssúkkulaði.
Það er alltaf jafn huggulegt að fá sér heitt súkkulaði eða heitt vín í leiðinni og njóta þess sem borgin hefur upp á að bjóða.
Hjá mörgum er líka hefð að fara að skoða jólagluggana í Gallery Layfette, það er svo sannarlega mikið augnakonfekt að skoða skreytingarnar í gluggunum, þar sem hugsað er út í öll smáatriði og jólatréð sem býður upp á nýtt þema á hverju ári og er staðsett inni í miðju byggingarinnar, undir töfrandi Art Nouveau-hvelfingunni. Verslunarmiðstöðin er staðsett í 9. hverfi, sem er einn elsti verslunarkjarni í borginni, en það eru 130 ár síðan hún var opnuð.
Mikið er lagt upp úr því að fegra borgina í jólamánuðinum með alls kyns skreytingum og það er í miklu uppáhaldi hjá mér að rölta um borgina og dást að öllum fallegu jólaskreyttu byggingunum og jólatrjánum. Það er notaleg hefð að gefa sér tíma til að ganga meðfram Champs-Élysées götunni og skoða ljósadýrðina á trjánum sem standa við breiðstrætið, ljósin skapa hlýja og töfrandi upplifun. Á hverju ári eru Champs-Élysées jólaljósin hönnuð í kringum ákveðið þema, ljósin eru oft í samræmi við aðra hátíðarviðburði í París sem skapar heildrænt útlit um alla borg. Þemað endurspeglar alþjóðlega strauma eða varpar ljósi á menningarlegar eða listrænar hugmyndir, sem gerir sýningu hvers árs einstaka.
Mér finnst alltaf skemmtileg hefð að fara með börnin mín á skauta, hvað þá í Grand Palais-byggingunni sem býður ekki bara upp á heillandi byggingarlist heldur einnig ómissandi menningarmiðstöð, sambland af sögulegum sjarma gerir bygginguna að einum mikilvægasta vettvangi Parísar.
Annað hvert ár er boðið upp á 3.000 fermetra skautasvell undir hinu glæsilega og umfangsmikla stál- og glerþaki þar sem náttúrulegt ljós flæðir inn og skapar stórkostlegt rými fyrir sýningar og viðburði sem byggingin er líka þekkt fyrir. Hvort sem þú ert listunnandi eða bara einhver sem vill dást að fallegri hönnun þá er frábær upplifun að fara þangað.
Athugasemdir