Ég er í jólaforðun. Hér sit ég á suðrænni eyju, sæl við sundlaugarbakka og leyfi Miðjarðarhafsgolunni að hríslast um forhertar hjartarætur mínar þar sem ég sting niður penna og játa það fyrir ykkur, ástkæru, ylhýru landar, að ég er í raun og sanni að flýja íslensku jólin. Flýja skammdegið, aðventuna og kransinn sem ég man orðið aldrei eftir að taka upp fyrr en alltof seint og bara einn sunnudagur til stefnu, flýja Kringluna og desemberösina sem byrjar í október, jólatónleika Emmsjé Gauta jafnt sem Baggalúts, og eiginlega bara ykkur og okkur öll, blessist þó öll sem eitt. Ekki samt segja þeim krökkum mínum sem heima sitja, ég er að þykjast vera í einhvers konar Borða biðja elska-ferð, eins og konan sagði, að finna sjálfa mig og almættið. Og kannski er það líka þannig. Ég hef hvoru tveggja aðeins týnt í jólastreitu síðari ára. Ég vaknaði upp við þann vonda veruleika einn daginn að við jólin, sem eitt sinn vorum mestu mátar, höfðum fjarlægst hvort annað, sambandið hafði kulnað og einkenndist orðið af biturð og ergelsi fremur en gleði og gamani. Það getur jú gerst í samböndum.
Því einu sinni vorum við ótrúleg saman, ég og jól. Ég byrjaði barnung að halda mín eigin, þrjóskaðist átján ára gömul með eiginmann og ungabarn til að brúna eigin kartöflur í kjallaranum hjá foreldrum mínum, með nýskúraða veggi því konur í mínu klani hafa haldið í þá mætu hefð að skúra veggi og þvo gluggatjöld fyrir jólin. Mögulega laumuðumst við ungu hjónin þáverandi aðeins upp þegar líða tók á aðfangadagskvöld, í smá sjerrífrómas hjá mömmu því gifti unglingurinn hafði jú ekki aldur til að búa hann til sjálf. Ég tók húsmóðurhlutverk mitt mjög alvarlega á yngri árum og hafði gaman af, rak heimili innblásin af röggsemd formæðra minna, var góð og best í mömmó og jólin voru hápunktur minnar húsmóðurlegu reisnar. Vissulega alltaf hlaup og stress og ákveðið álag en við vorum saman og sannfærð í þessu, við jól, keppnisandinn kom okkur í mark. Blikkuðum hvort annað svo samsærislega á þrettándanum og hvísluðum kankvís: Á sama tíma að ári?
Með árunum breyttist blikkið í grettu, hvíslið í hvæs og svo hættum við eiginlega að tala saman. Trúlega var það ég en ekki þau, jólin. Ég óx dálítið undarlega úr grasi, varð virðuleg húsmóðir áður en ég fékk allar fullorðinstennurnar og tók síðan út nauðsynlega hugmyndafræðilega andspyrnu upp úr þrítugu, þegar menn eiga með réttu að fara að róa sig. Póstmódernisminn náði mér því fyrst á að verða virðulegasta skeiði og loksins þegar umgjörðin öll var orðin klár, einbýlishúsið sem beið þess eins að ég blési í það jólaanda, þá var ég komin í húsmæðrakulnun, buguð á öllu brasinu og ergileg orðin á óþolandi síbylju kapítalismans sem krafðist þess að ég eyddi aðventunni í Kringlunni. Mér fannst ég ekki hafa orku í að sinna mínu hlutverki, sem var og er auðvitað það að vera verkstjóri jólanna. Ég velti því furðu lostin fyrir mér hvernig ömmu hefði tekist að trúa staðföst á málstaðinn í öll þessi ár, enn þá að príla níræð upp á eldhúsbekk til að þrífa ofan á skápunum, og af hverju var ég byrjuð að efast löngu fyrir fertugt?
Því mér þykja hefðirnar mikilvægar, póstmódernisminn á ekkert erindi á jólunum. Og konurnar sem viðhalda þeim stórkostlegar. Því það eru, jú og víst og enn þá, fyrst og fremst konurnar. Ég ber æ meiri virðingu fyrir öllum mömmum og ömmum sem töfra fram jólin eins og síbrasandi býflugur og býð öllum sem einhvern tímann hafa ergt sig á suðinu að gera iðrun, því hvað myndi gerast ef suðið þagnaði og býflugurnar hyrfu af sjónarsviðinu? Heimsendir, hvorki meira né minna.
Það er mögnuð list í því fólgin að skera út laufabrauð, dýrmætur menningararfur sem ber að heiðra og styðja við. Mennta- og menningarmálaráðherra ætti ár hvert að úthluta styrkjum til hverrar einustu ömmu sem stendur sína pligt í að smala saman afkomendum sínum, viljugum og óviljugum, annan sunnudag í aðventu í laufabrauðsútskurð og steikingu. Styrkinn mætti nýta til að múta áhugalausum unglingum til þátttöku, sjálfsögð og réttmæt fjárfesting í framtíð landsins. Listin að brúna kartöflur rétt er önnur þjóðargersemi, ekki eins og þær eru bornar fram á jólahlaðborðum sérfræðinganna að sunnan hvar forsoðnar kartöflur svamla andlausar um í alltof ljósu sýrópssulli, heldur alvöru heimasoðnar og skrælaðar Þykkvabæjarins bestu, misstórar og vandlega klístraðar í þykkum djúprauðum sykurmassa sem var rétt svo sekúndunni frá því að brenna við en það er þessi sekúnda sem skilur á milli fagmannsins og amatúrans, ömmu og mín. Ég hringdi yfirleitt angistarfullt símtal austur til ömmu um fimmleytið á aðfangadagskvöld, komin í árlegu ógöngurnar með endemis kartöflurnar og það var eins og við manninn mælt, þegar sannfærð og sigld rödd ömmu barst ómþýð landlínuna yfir austurlandið að glettingi og alla leið suður í sollinn, þá skyndilega varð allt að sólu, þvermóðskufullar sykurklessurnar hættu að etja stríð við sundurkramin kartöflugreyin og bráðnuðu bljúgar saman við heilaga þögn Ríkisútvarpsins, komin voru jól.
Ojæja, ætli það sé ekki eitthvað við þau eftir allt saman, íslensku jólin. Ég kem kannski bara heim, í mat til mömmu.
P.s. Leynihráefni ömmu var skvetta af tómatsósu saman við sykurinn, verði ykkur að góðu, veröld, og gleðileg jól.
Athugasemdir