Þegar ég ólst upp í Þýskalandi á áttunda- og níunda áratug síðustu aldar einkenndist matarræði okkar heima að miklu leyti af uppskeru og framboði bænda í nærumhverfinu á viðkomandi árstíma. Á veturna var rótargrænmeti í forgrunni, á vorin bættist við ferskur aspas, jarðarber voru á boðstólnum fyrri part sumars, en kirsuber seinni hlutann, perur og epli að hausti og innfluttar evrópskar appelsínur í kringum jólin. Auk þess var náttúrulega margt úr nærumhverfinu í boði allan ársins hring eins og dýraafurðir og matvæli sem geymist vel á ýmsan hátt. Í dag er staðan gjörbreytt. Við viljum hafa aðgang að öllu alltaf, alveg sama hvaðan það er. Þannig getum við keypt jarðarber, vínber, aspas, appelsínur, avókadó og nýlega líka bláber allan ársins hring. Ég mun aldrei gleyma þegar pabbi minn var í heimsókn á afmæli dóttur minnar í byrjun febrúar fyrir nokkrum árum síðan og ég setti „fersk“ jarðarber ofan á tertuna eins og gengur og gerist núorðið hérlendis. Hann skammaði mig og það með réttu. Á þessum árstíma kaupir maður ekki jarðarber. Hvort ég hafi ekki velt því fyrir mér hvaðan jarðarberin komu, að það þyrfti að flytja þau langa leið með flugvél, að þau hafi verið sprautuð með allskyns eitruðum varnaefnum og að vinnuaðstæður þeirrar sem tína og pakka jarðarberjunum séu oft óviðunandi.
Framleiðsla í heimi hnattvæðingar
Spánn, sérstaklega Huelva-svæðið, er stærsti útflytjandi jarðarberja í heiminum. Þar sjáum við gott dæmi um þau áhrif sem gríðarleg samþjöppun á framleiðslu getur haft, hvort sem er á umhverfið, á heimafólk og á verkafólk. Hefðbundin ræktun á þessu svæði voru ólívur, korn og vínber sem voru ekki háð áveitu. En undanfarna áratugi hafa skógar verið felldir til að stórauka ræktun á jarðarberjum með mikilli þörf á áveitu. Og á meðan sú ræktun stækkar og stækkar minnkar rakainnihald vistkerfa í kring töluvert, vatnsskortur eykst og jarðvegurinn verður jafnvel ófrjór. Nálægt jarðarberjaræktunarsvæðum er UNESCO Þjóðgarðurinn Doñana. Stór hluti þjóðgarðsins hefur þegar breyst í þurrt kjarrlendi, votlendið þornað upp og um 3000 vötn hafa alveg þornað upp.
Á Spáni rennur um 60% af allri vatnsnotkun í áveitukerfin fyrir korn, ávexti, og berjarækt. Grunnvatnið er ofnotað og hefur lækkað á sumum svæðum um nokkra metra. Mengun er einnig vandamál eins og aukning á styrk nítrats í vatninu.
Í fyrrasumar ríkti neyðarástand vegna þurrka á stórum hluta Spánar, mest þó í Katalóníu og Huelva. Slíkir þurrkar gera það enn erfiðara að endurheimta grunnvatnsstöðuna. Þannig er mikilvægt að nota grunnvatnið eins sparlega og hægt er. Stórfelld áveituræktun á jarðarberjum setur þar með aðra landbúnaðarframleiðslu og starfsemi heimamanna í hættu.
En skuggahliðar á þessari jarðarberjaræktun eru því miður fleiri. Algengt er að verkafólk sem er að stórum hluta innflytjendur og flóttafólk frá Marokkó og Afríku sunnan Sahara, fái minna en lágmarkslaun, þeim er sagt upp störfum fyrir að ganga í stéttarfélög, þau eru neydd til að vinna við óöruggar aðstæður, auk þess að kynferðisáreiti og -ofbeldi er algengt. Eigendur framleiðslufyrirtækja misnota neyð verkafólks sem er oft algjörlega háð því að fá einhverja vinnu og ekki í aðstöðu til þess að gera eðlilegar kröfur.
Neyslumenning í heimi hnattvæðingar
Jarðarberin eru einungis eitt dæmi um fullt af matvörum sem við flytjum inn til þess að tryggja stöðugt framboð af sem flestum tegundum. Eftirspurn vestrænna ríkja eftir jarðaberjum, bláberjum, avókadó, mangó o.s.frv. hefur stóraukið þaulræktun á þessum matvörum með töluverðar neikvæðar afleiðingar fyrir náttúru á framleiðslusvæðunum. Við bætist brot á mannréttindum verkafólks sem oft verða að þrælum nútímans. Og aukin framleiðsla til útflutnings hefur einnig í för með sér að hún þrengir að bændum sem framleiða alls kyns mat fyrir heimafólk. Verðið á mörgum vörum hefur hækkað í takt við aukna eftirspurn í vestrænum löndum þannig að færra heimafólk hefur orðið efni á því að kaupa þessar vörur sem eru framleiddar í bakgarðinum hjá þeim.
Viljum við taka þátt í slíkri neyslumenningu? Samræmist hún réttlætiskennd okkar og áætlun um sjálfbæra þróun? Viljum við að velferð okkar byggi á eyðileggingu á náttúru í fjarlægum og oft fátækum löndum og á nútíma þrælahaldi? Nei!
Stjórnvöldin hafa verk að vinna
Spurningar sem við þurfum að spyrja okkur eru bæði „Hvað kaupum við?“ og „Hvaða stefnur kaupum við?“. Breytingar á hegðun einstaklinga skiptir máli, ekki síst til þess að breyta neyslumenningu sem er m.a. mikilvægt til að auðvelda leiðina að kerfisbreytingum. En til þess að koma á kerfisbundnum breytingum þarf aðgerðir stjórnvalda sem við getum og eigum að hafa umbreytandi áhrif á.
Stjórnvöld hafa tól og tæki til þess að þær vörur sem eru framleiddar á sem umhverfisvænastan hátt og án mannréttindabrota geti verið aðgengilegar og ódýrari en hinar vörurnar og þar með raunhæfur kostur fyrir alla. Auk þess geta stjórnvöld unnið að því að „taka ekki þátt“ í viðskiptum með vörur sem hafa verið framleiddar á varasaman hátt.
Í staðinn fyrir að hækka raforkuverð til garðyrkjubænda hérlendis eins og boðið er núna, ætti að stórlækka verðið og gera garðyrkjubændum kleift að rækta hollar og góðar vörur á sem umhverfisvænasta hátt. Og að sjálfsögðu ættu stjórnvöld að ganga fram með góðu fordæmi og leggja áherslur á að kaupa í stofnunum sínum íslenskar matvörur sem eru í boði hverju sinni.
Nægjusemi kennir okkur að bera virðingu fyrir því hvað náttúran getur gefið okkur á hverjum árstíma án þess að ofnýta og menga hana. Verum ánægð með það og gerum ekki þær kröfur að hafa stöðugan aðgang að alls konar vörum allan ársins hring þar sem framleiðslan er byggð á arðráni náttúrunnar og fólks.
Greinin er hluti af hvatningarátaki Landverndar og Grænfánans undir heitinu Nægjusamur nóvember.
Athugasemdir (1)