Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, hlaut stjórnarmyndunarumboð á Bessastöðum í morgun. Hún sagðist þá ætla að viðræður við Viðreisn og Flokk fólksins strax síðar í dag.
Kristrún boðaði þær Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, og Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, á fund sinn í dag vegna viðræðnanna og hófst hann klukkan þrjú í fundarherbergi forsætisnefndar Alþingis. Þær gáfu ekki kost á viðtali áður en fundurinn hófst en munu ræða við blaðamenn að honum loknum.
„Kristrún hefur tjáð mér að hún hafi nú þegar átt samtöl við formenn annarra flokka sem einnig hafa upplýst mig um að þeir séu reiðubúnir til formlegra viðræðna um myndun nýrrar ríkisstjórnar með Samfylkingunni,“ sagði Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, við blaðamenn eftir fund sem hún átti með Kristrúnu á Bessastöðum í morgun þar sem hún fól henni stjórnarmyndunarumboðið.
Kristrún ræddi við blaðamenn á eftir forsetanum og sagði að hennar mati og flestra annarra væru þrír flokkar sem hefðu náð hvað mestum árangri í kosningunum. „Það er Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins. Ég ætla núna í kjölfar þessa fundar að setja mig í samband við formann Viðreisnar og formann Flokks fólksins og boða þær á fund og í samtal núna, strax eftir hádegi til að ræða næstu skref. Ég held að það sé brýnt að við förum strax af stað í þessa vinnu.“
Kristrún bætti við að hún teldi lykilatriði hjá næstu ríkisstjórn að halda efnahagsmálunum í festu. Tryggja þyrfti áframhaldandi lækkun vaxta og verðbólgu. „Við þurfum að fara strax af stað og skapa festu.“
Athugasemdir (1)