Nú veltir alþjóð fyrir sér hvernig ríkisstjórn muni verða til eftir alþingiskosningarnar sem fóru fram um helgina. Í dag fundaði Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, með formönnum þeirra flokka sem náðu mönnum inn á þing.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, lögðu það bæði til við forsetann að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, fengi umboð til stjórnarmyndunar. Samfylkingin er nú stærsti flokkurinn á alþingi, með 15 þingmenn og 20,8 prósent atkvæða.
Gott samband Viðreisnar og Samfylkingar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, mælti einnig með því að Kristrún fengi umboðið en hún sagði að samband þeirra tveggja væri mjög gott. „Við ætlum að reyna vonandi að mynda sterka og samhenta ríkisstjórn,“ sagði Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is, þar sem húb var stödd við Bessastaði.
Með hliðsjón af þessum ummælum Þorgerðar Katrínar mætti leiða að því líkur að fyrst verði reynt að mynda ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. En Kristrún hefur áður svo gott sem útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki, sem annars gætu komið í stað Flokks fólksins í mögulegri ríkisstjórnarmyndun.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við fjölmiðla á Bessastöðum að hann væri ekki á leiðinni í ríkisstjórn. Ákallið væri um stjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins.
Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi ráðherra og stofnandi Viðreisnar, spáði í spilin um mögulegar meirihlutastjórnir á Facebook fyrr í dag. Þar segir hann að mjög ólíklegt sé að Samfylkingin eða Viðreisn muni vilja starfa með Miðflokknum og því sleppir hann því að leggja mat á þær sviðsmyndir.
Að mati Benedikts eru sex mögulegar stjórnir í stöðunni.
„Varla langlíf“
Sú fyrsta sem hann nefnir er stjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Sú myndi hafa 36 þingmenn. „Sú stjórn yrði erfið, en kannski ekki útilokuð. Spurningin er hvort Flokkur fólksins sé stjórntækur. Þingmenn flokksins eru þekktir fyrir glannalegar yfirlýsingar, til dæmis um lög á Seðlabankann til þess að lækka vexti. Yfirlýsingagleði er ekki vænleg uppskrift að farsælu sambandi og fýla er ekki gott stjórntæki,“ skrifar Benedikt.
Þá bendir hann á að kröfur Flokks fólksins séu dýrar og erfitt sé að hrinda þeim í framkvæmd með ríkissjóð í 70 milljarða halla. Þá hafi Viðreisn lýst því yfir að ná eigi saman í ríkisfjármálum og ekki hækka skatta. „Þetta er samt eina stjórnarmynstrið þar sem von gæti verið um breytingar. Varla langlíf stjórn,“ skrifar hann.
Samfylking og Sjálfstæðisflokkur
Annar möguleiki sem Benedikt nefnir er stjórn Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar sem hefði 40 þingmenn. „Þetta gæti orðið þrautalendingin, en þetta væri eiginlega framlenging á núverandi stjórn, eins konar starfstjórn þar sem ekki yrðu teknar neina afgerandi ákvarðanir nema hugsanlega virkjanamál. Yrði kallað stöðugleikastjórn, en stöðugleikinn fælist aðallega í ráðherrastólunum,“ skrifar Benedikt.
Þá gætu Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Flokkur fólksins myndað stjórn með 36 þingmönnum. Benedikt þykir þó líklegra að ef Sjálfstæðisflokkur og Samfylking næðu saman þá myndu þeir mynda stjórn með Viðreisn, frekar en Flokki fólksins.
Þá væri mögulegt að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur gætu myndað stjórn með Framsókn. Það væru samtals 34 þingmenn. „Líklegri kostur en Flokkur fólksins, en það yrði erfitt fyrir samfylkingu að fara í stjórn með þessum tveimur flokkum,“ skrifar Benedikt.
Sjálfstæðisflokkur og Flokkur fólksins
Síðustu tveir möguleikarnir væru annars vegar Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Flokkur fólksins og hins vegar Sjálfstæðisflokkur, Flokkur fólksins og Miðflokkur.
Benedikt segir að fyrra mynstrið muni sennilega koma mjög seint upp og það sé vandséð um hvað sú stjórn yrði mynduð. Seinni kosturinn sé möguleiki. „En með tvo kvika þingflokka og minnsta meirihluta [32]; þorir Sjálfstæðisflokkurinn að fara í slíkt ævintýri?“
Athugasemdir