Síðastliðinn sunnudag hrósaði móðir syni sínum á Facebook fyrir atorkusemi og lýsti því yfir að hún væri stolt af honum. Slíkt heyrir sannarlega ekki til tíðinda; lofsöngur foreldra um afkvæmi sín er Facebook það sem kattavídeó eru YouTube. En að þessu sinni lét notandi sér ekki nægja að smella hjarta á færsluna eins og venjan er heldur ákvað hann að lækka í móðurinni rostann í athugasemdakerfinu.
Það sem móðirin þótti hafa til saka unnið var að sonur hennar er Snorri Másson, fjölmiðlamaður sem nú er í framboði fyrir Miðflokkinn.
„Ótrúlega forhertar afturhaldsskoðanir þessa unga manns, vá!“
Móðirin hafði þó ekki hampað syninum fyrir stjórnmálaskoðanir hans heldur nýja bók sem hann skrifaði um ævi íslensks frumkvöðuls.
Skoðanaskipti eru hornsteinn lýðræðisins. En hvenær hættum við að leggja mat á stund og stað? Hvar á sú mannvonska upptök sín sem veldur því að við hreytum fúkyrðum í móður því sonur hennar er skráður í stjórnmálaflokk sem við ætlum ekki að kjósa?
Umburðarleysi í garð skoðana annarra þykir í auknum mæli mannkostur. Stundum virðist sem við séum hætt að skiptast á skoðunum og farin að skipta okkur heldur í fylkingar. Fólk er ekki lengur ósammála heldur er það óvinir.
Listin að vera ósammála
Síðastliðið sumar tapaði breski Íhaldsflokkurinn þingkosningum eftir fjórtán ára valdatíð. „Ég hef gefið mig allan í starfið,“ sagði fráfarandi forsætisráðherra, Rishi Sunak, þegar hann kvaddi Downing-stræti. „En skilaboð ykkar eru skýr um að tími sé kominn til að skipta um ríkisstjórn í Bretlandi, og er mat ykkar það eina sem skiptir máli.“
Sama dag, í sama ræðupúlti, ávarpaði nýr forsætisráðherra, Keir Starmer, þjóð sína. „Ég vil þakka fráfarandi forsætisráðherra Rishi Sunak,“ sagði Starmer. „Enginn skyldi vanmeta það afrek hans að hafa verið fyrsti breski forsætisráðherrann af asískum uppruna og þá auknu fyrirhöfn sem sú staðreynd útheimti.“
Framgangur lýðræðisins veltur á friðsamlegum stjórnarskiptum. En það þarf fleira til að lýðræðið lifi af.
Sagt er að Guð hafi skapað manninn eftir sinni mynd. Í stað þess að lifa saman í sátt og samlyndi í öllum okkar fjölbreytileika virðast æ fleiri heldur vilja skapa náungann bókstaflega eftir sinni mynd. En við byggjum ekki samfélag á guðlegri óbilgirni. Það er í listinni að vera ósammála sem lýðræðið þrífst. Eftir hörð skoðanaskipti, eins og tíðkast í kosningabaráttu, þurfa andstæð öfl að geta tekist í hendur og lifað saman í veröldinni.
Ekki er þó þar með sagt að við þurfum að hætta að takast á.
Sá eini sem hringdi
Þingkona Samfylkingarinnar, Oddný Harðardóttir, var gestur Pallborðsins á Vísi nýverið. Þar sagði hún frá atburði sem hún kvaðst lengi hafa langað til að greina frá.
Oddný var formaður Samfylkingarinnar þegar flokkurinn beið afhroð í þingkosningum árið 2016. Höfðu Oddný og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tekist sérstaklega hart á í kosningabaráttunni.
„Ef við sáum tortryggni uppskerum við sundrungu“
„En það var einn maður sem hringdi í mig þegar allt var ljóst,“ sagði Oddný. „Hann talaði svo fallega við mig.“ Sá reyndist hafa verið Bjarni. „Hann talaði við mig sem formaður sem hafði reynt ýmislegt í sínum flokki,“ sagði Oddný og kvaðst alltaf hafa kunnað að meta það við hann. „Svo héldum við áfram að rífast daginn eftir.“
Í dag verður kosið til Alþingis. Ef við sáum tortryggni uppskerum við sundrungu. En ef við lærum listina að vera ósammála mun okkur reiða ágætlega af. Því jafnvel þótt okkur mislíki niðurstaðan fá rökræðurnar að halda áfram þangað til kosið verður aftur að fjórum árum liðnum.
Fólk er meira en stjórnmálaskoðanir þess. Gleðilegan kjördag.
Athugasemdir