Umræða um afdrífarík mistök snýst eðlilega oftast um eitthvað sem gert var og endaði með ósköpum. Sem dæmi má nefna innrás Napóleóns í Rússland á sínum tíma, 1812. Fasistarnir sem stjórnuðu þriðja ríkinu lærðu ekki meira af þeim mistökum en svo að þeir endurtóku þau rúmri öld síðar, með enn hörmulegri afleiðingum.
Íslandssagan er blessunarlega alveg laus við slíkar sögur og landið hefur að mestu sloppið við styrjaldir. Við slepptum því líka að taka upp fasisma, með öllum þeim hörmungum sem honum fylgja, og kommúnisma, sem hefur reynst enn verri fyrir lífskjör og frelsi þegnanna.
Íslendingar hafa hins vegar auðvitað gert alls konar mistök sem þjóð og þurft að súpa seyðið af því. Minnisstætt er útrásarvíkingahagkerfið sem hrundi. Þótt það hafi verið dýr tilraun og sársaukafull um skeið þá virðast langtímaáhrifin hafa verið takmörkuð, jafnvel lítil sem engin. Margar smærri tilraunir sem fóru í skrúfuna mætti nefna.
Það sem ekki gerðist
Tilraun til iðnvæðingar, kennd við Innréttingarnar, um miðja átjándu öld gekk ekki upp. Það var vont, ekki vegna þess að tilraunin hafi verið dýr og uppskeran rýr, heldur vegna þess sem ekki gerðist, þ.e. Ísland náði ekki að iðnvæðast í sama takti og nágrannalöndin og lífskjör hér tóku ekki að batna að ráði fyrr en miklu síðar en í flestum þeirra landa.
Íslendingum mistókst líka margt annað á fjármálasviðinu en bara útrásin og hrunið. Við byggðum ekki upp hlutabréfamarkað fyrr en langt á eftir nágrannalöndunum og mörgum öldum síðar en Danir. Þá áttum við áratugum saman í stökustu vandræðum með að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli eftir að við slitum íslensku krónuna frá þeirri dönsku.
Þetta hefur haft áhrif á lífskjör landsmanna, á því leikur enginn vafi. Varla er þó hægt að flokka þetta sem verstu mistök Íslandssögunnar. Þráinn Eggertsson hagfræðingur hefur leitt góð rök að því að dýrkeyptustu mistökin hafi verið að byggja ekki upp sjávarútveg miklu fyrr en raunin var en reyna í þess stað að framfleyta okkur á landbúnaði, í hrjóstrugu landi sem hentar einstaklega illa fyrir landbúnað en er umkringt af gjöfulum fiskimiðum.[1] Þráinn bendir á ýmsar skýringar þessa, sérstaklega að ráðandi öfl í landinu hafi staðið vörð um landbúnaðinn og ekki viljað samkeppni frá sjávarútvegi um vinnuafl en að einnig hafi einangrunarhyggja dönsku nýlenduherrana og einokunarverslunin haldið aftur af uppbyggingu sjávarútvegs.
Þessi saga er ágætt dæmi um afdrifaríkt klúður sem varð vegna þess að eitthvað var ekki gert og ágæt rök hjá Þráni fyrir að þetta hafi verið verstu mistök Íslandssögunnar. Þegar nánar er að gáð má þó líklega finna önnur mistök af svipuðum toga sem voru enn verri og áttu án efa einhvern, jafnvel verulegan, þátt í mistökunum með sjávarútveginn.
Stigveldi mistakanna
Það er nefnilega hægt að færa góð rök fyrir því að enn verri mistök hafi falist í því að hefja ekki skógrækt löngu fyrr en raunin varð. Hún hófst ekki að neinu marki hérlendis fyrr en undir lok 19. aldar, þegar landið var búið að vera nánast skóglaust öldum saman, þótt það hafi verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru við landnám að sögn Ara fróða. Það voru víst einhverjar ýkjur hjá Ara en látum það liggja á milli hluta.
Fyrir vikið voru landsmenn alltaf í stökustu vandræðum með timbur, bæði til smíða og sem eldsneyti. Hægt var að nýta rekavið en hann var takmörkuð auðlind, annað timbur þurfti að flytja inn með miklum kostnaði.
Án timburs var augljóslega ekki hægt að smíða timburhús eða skip. Ekkert annað almennilegt innlent byggingarefni var í boði. Fyrir vikið bjuggu landsmenn í torfkofum og skipaflotinn var lítill og lélegur. Úr rekavið var varla hægt að smíða stærri fleytur en litla árabáta og þótt hægt væri að kaupa stærri skip frá útlöndum var það meiri háttar fjárfesting í fátæku landi.
Timburskorturinn þýddi líka að lítið var hægt að smíða af öðrum mannvirkjum. Sérstaklega var bagalegt að ekki var með góðu móti hægt að brúa ár. Það var ekki fyrr en eftir meira en þúsund ára búsetu í landinu sem stórfljótin Þjórsá og Ölfusá voru brúuð og jafnvel minni ár voru verulegir farartálmar. Samgöngur á sjó voru auðvitað líka erfiðar með rýran skipaflota og engin manngerð hafnarmannvirki að heita gæti.
Innviðir og trú
Þá sjaldan Íslendingar reistu stór mannvirki úr innfluttu timbri þá voru það fyrst og fremst kirkjur. Þær voru kannski ágætar til síns brúks en leystu augljóslega ekki vandann við fiskveiðar og brúarsmíði.
Íslendingar fyrri alda vissu vitaskuld alla tíð hvernig tré vaxa og hvaða not er hægt að hafa af þeim en það virðist ekki hafa hvarflað að þeim að nýta sér það. Þótt Ísland sé kalt land og hrjóstrugt geta hér vaxið stór og mikil tré, jafnvel risastórar eikur sem nágrannalöndin notuðu til að smíða sín stærstu skip. Það tekur bara mjög langan tíma og auðvitað gerist ekkert nema tré séu gróðursett eða hlúð að þeim örfáu trjám sem náttúran bauð upp á án atbeina manna.
Skógrækt hefði því krafist forsjálni og þolinmæði. Eikartré nýtist ekki til fulls til að smíða stórskip eða burðarvirki í stórri brú eða öðru mannvirki fyrr en eftir tvær aldir eða svo. Miklu yngri tré af lakari tegundum geta þó auðvitað komið að góðum notum líka.
„Það er gaman að velta því fyrir sér hvernig Íslandssagan hefði orðið með þó ekki væri nema nokkrum ferkílómetrum af hávöxnum skógi“
Þetta vissu Danir. Eftir að breskur floti hafði gersigrað Dani í orustu við Kaupmannahöfn 1807 réðust þeir í mikið átak til að koma upp eikarskógi, til að smíða stór herskip, vitandi að margar kynslóðir myndu þurfa að bíða eftir afrakstrinum. Tveimur öldum síðar var skógurinn fullsprottinn en þá var auðvitað löngu hætt að smíða herskip úr eik. Á Íslandi eru ekki til svo gömul eikartré en til eru um hálfrar aldar gömul tré. Eitt þeirra, líklega það hæsta, mældist 8,6 m á hæð árið 2020.[2] Á Íslandi eru mörg tré af öðrum og fljóttsprottnari tegundum mun hærri. Það fyrsta sem náði 20 m hæð að talið er var rússalerki í Atlavíkurlundi.[3] Árið 2022 taldist hæsta tré landsins 30,15 m hátt, sitkagreni við Kirkjubæjarklaustur, þá ríflega 70 ára gamalt. Það er vitaskuld hægt að smíða ýmislegt úr sitkagreni, lerki, ösp og fleiri fljóttsprottnum tegundum þótt þau jafnist ekki á við eik í styrk og endingu. Það þarf hins vegar óneitanlega þolinmæði til að bíða í hálfa öld eða lengur.
Brúarsmíði og torfkofar
Trjábolur sem er 20-30 m langur dugar ekki til að brúa stórfljót nema mörgum sé skeytt saman. Til samanburðar má nefna að lengsta haf núverandi Ölfusárbrúar er 84 m. Það hefði hugsanlega reynst forfeðrum okkar ofviða að brúa svo breitt bil, jafnvel þótt þeir hefðu haft aðgang að hávöxnum trjám. Að minnsta kosti hefði smíði slíks mannvirkis fyrr á öldum kallað á þjóðarátak en það hvarflaði ekki að neinum í skóglausu landi.
Það er gaman að velta því fyrir sér hvernig Íslandssagan hefði orðið með þó ekki væri nema nokkrum ferkílómetrum af hávöxnum skógi. Með eigin skipaflota hefði Gamli sáttmáli kannski aldrei orðið að veruleika. A.m.k. hefði ekki þurft að semja við erlendan konung um sex skipaferðir á ári. Kannski hefðum við veitt miklu meira af fiski, í stað þess að horfa hjálparvana á sjómenn frá öðrum Evrópulöndum moka honum upp öldum saman. Kannski hefði þá landið getað staðið undir miklu fleiri íbúum – og þeir væru fyrir vikið miklu fleiri núna. Kannski hefðum við þá brúað helstu ár landsins mörgum öldum fyrr en raunin varð. Kannski hefðu forfeður okkar komist miklu fyrr úr torfkofunum. Eins og góður maður sagði einu sinni – svo að eftir var tekið – maybe I should have. Kannski hefði skógur litlu breytt fyrir Íslendinga. Norðmenn áttu nóg af trjám en voru samt meðal fátækustu þjóða Vestur-Evrópu á 19. öld, þó aðeins betur settir en Íslendingar. Svo fundu þeir olíu og gas en við hófum okkar eigin iðnbyltingu.
Greinin birtist fyrst í Vísbendingu, vikurits um viðskipti og efnahagsmál. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.
Athugasemdir (5)