Mín tilfinning er að við sjáum í besta falli kannski eitt til tvö gos í viðbót og þá er þetta búið,“ spáir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur fyrir um framtíð eldvirkninnar í Sundhnúkagígaröðinni.
Hann telur að sú mikla virkni sem hefur verið í Sundhnúkagígaröðinni það sem af er ári muni ekki halda áfram mikið lengur og finnst það vera „á næstu grösum“ að umbrotin stöðvist.
Þetta rökstyður Þorvaldur með því að flæði kvikunnar upp úr dýpra geymsluhólfi og í það sem er grynnra, sem hefur valdið landrisinu í Svartsengi, virðist alltaf vera að minnka.
„Það er eins og það dragi smátt og smátt úr innflæðinu. Ef það heldur áfram þá endar með því að þú lokar fyrir þetta flæði úr dýpra hólfinu inn í það grynnra. Þá ertu búinn að loka fyrir aðfærsluna á kviku inn í þetta kerfi sem er að gjósa. Þá stöðvast þetta. Mín tilfinning er að við sjáum í besta falli kannski eitt til tvö gos í viðbót og þá er þetta búið.“
Gosið hefði ekki átt að koma á óvart
Eldgos hófst í Sundhnúkagígaröðinni á milli Sýlingafells og Stóra Skógfells klukkan 23:14 þann 20. nóvember. Þetta er sjöunda gosið sem verður á svæðinu á árinu og það tíunda síðan tímabil eldsumbrota hófst á Reykjanesskaga í mars 2021.
Þorvaldur segir eldgosið svipað og gosin sem urðu á undan því. Aflið í því sé þó heldur minna en í þeim fyrri. „Að öðru leyti er þetta ósköp svipað munstur og hegðun og við höfum verið að sjá.“
„Mér finnst flest teikn hafa verið að benda í þá áttina að gos væri í vændum
Daginn áður en það fór að gjósa tilkynnti Veðurstofan að gögn hennar bentu til þess að ólíklegt væri að eldgos brytist út á Reykjanesskaga í nóvembermánuði. Þorvaldur segir það rétt að skjálftavirknin hafi verið í daufara lagi og fyrirvarinn því stuttur ef aðeins er litið til jarðskjálfta. „En ef við horfum á landrisið, það hafði eiginlega stöðvast og jafnvel farið að síga. Við sjáum á gögnunum að þessi viðsnúningur hafi byrjað fyrir nokkuð mörgum dögum síðan,“ segir hann.
Þorvaldur segir að þetta hafi bent til þess að það væri líklegt að flæða færi úr kvikuhólfinu. „Þannig að kvikan hefur verið komin af stað fyrir nokkru. Það hefði ekki átt að koma okkur á óvart að það kæmi gos núna. Mér finnst flest teikn hafa verið að benda í þá áttina að gos væri í vændum.“
Virknin gæti færst annað
Sem fyrr segir heldur Þorvaldur að þessi mikla eldvirkni muni ekki halda áfram uppteknum hætti mikið lengur. Hann telur að ef til vill gæti gosið á svipuðum stað aftur í vetur og jafnvel í vor líka. „Ef þetta gengur svo lengi.“ Hann segir að upp úr því ættu teikn um að virknin þarna sé að klárast að fara að koma í ljós. „En það er nóg kvika í þessu dýpra geymsluhólfi þannig að ef þetta stoppar þarna þá tekur bara eitthvað annað við.“
Hann segir það þó óljóst hvenær það gæti gerst. „Það gæti færst í Eldvörpin, Krýsuvíkina eða jafnvel út á Reykjanesið. Það þarf ekki að gerast um leið og þetta hættir. Það geta liðið einhverjir mánuðir, ár eða áratugir þangað til við fáum næstu hrinu á Reykjanesskaganum.“
Þó sé betra en ella að vera undirbúinn undir næstu atburði, hvenær sem þeir koma.
Þorvaldur segir að þegar eldvirknin hættir í Sundhnúkagígaröðinni megi búast við hléi þar í dágóðan tíma. „Hvort pásan verður tugir ára eða hundruð ára – jafnvel bara í 800 ár – er erfitt að segja til um. Ef við horfum á fyrri gostímabil hafa sumar gosreinar tekið sig upp aftur seinna á gostímabilinu, en þá eru kannski liðin svona 100–200 ár á milli. Ég held að ef þessi umbrot stoppa á Sundhnúkareininni þá fáum við pásu í dágóðan tíma. Allavega það langan að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því í okkar líftíma.“
Athugasemdir