Kappræður Heimildarinnar fara fram í Tjarnarbíói í Reykjavík þriðjudaginn 26. nóvember og hefjast klukkan 20. Fyrir svörum sitja leiðtogar flokka sem eru í framboði til Alþingis og mælast með 2,5 prósent fylgi eða meira í áðurnefndri kosningaspá Heimildarinnar og dr. Baldurs Héðinssonar. Spyrlar eru blaðamennirnir Aðalsteinn Kjartansson og Ragnhildur Þrastardóttir.
Líkt og í kappræðum Heimildarinnar fyrir forsetakosningarnar á liðnu sumri verða áhorfendur í salnum, en miðasala á kappræðurnar fer fram á miðasöluvefnum Tix.is. Bein útsending verður einnig frá kappræðunum á vef Heimildarinnar.
Miðasala fer fram hér: Kappræður Heimildarinnar.
Lýðræðishátíð í Tjarnarbíó
Áður en kappræðurnar fara fram slær Heimildin upp sannkallaðri lýðræðishátíð í fremri sal Tjarnarbíós, sem hefst kl. 18. Aðgangur að húsinu er ókeypis og allir velkomnir, en öll framboð sem mælast með yfir 2,5 prósenta fylgi í áðurnefndri kosningaspá hafa fengið boð um að setja upp bás þar sem þau geta verið með varning, kynningarefni og verið með fulltrúa á staðnum til að ræða við gesti.
Kosningaprófið aðgengilegt
Kosningapróf Heimildarinnar er nú orðið aðgengilegt. Tvær mismunandi útgáfur af prófinu eru í boði fyrir þessar alþingiskosningar.
Í fyrsta lagi er það léttútgáfa, með 30 spurningum, sem er í boði fyrir alla notendur miðilsins, en hins vegar er í boði áskriftarútgáfa af prófinu. Hún er lengri, með 70 spurningum og veitir svarendum ítarlegri niðurstöður en léttútgáfan.
Hægt er að nálgast prófið hér á vef Heimildarinnar og reyndar einnig í gegnum slóðina kosningaprof.is.
Kosningaprófið gefur fólki færi á að spegla sín eigin viðhorf til samfélagsmála við afstöðu einstaka frambjóðenda flokkanna.
Mögulega hjálpar prófið einhverjum óákveðnum kjósendum að gera upp hug sinn, en hægt er að glöggva sig á því hvernig frambjóðendur svara spurningum prófsins.
Öllum frambjóðendum í efstu fimm sætum framboðslista allra flokka í öllum kjördæmum hefur verið boðið að taka þátt í prófinu.
Á niðurstöðusíðu prófsins fá svarendur svo svör við því hvernig áherslur þeirra ríma við áherslur flokka og einstaka frambjóðenda í efstu sætunum í þeirra kjördæmi og um landið allt.
Hægt er að taka Kosningapróf Heimildarinnar fyrir alþingiskosningarnar 2024 með því að smella hér.
Síðustu formannaviðtölin birt
Kosningaprófið, kappræðurnar og lýðræðisveislan bætast við aðra þætti í kosningaumfjöllun Heimildarinnar. Í þessu tölublaði Heimildarinnar birtast seinustu formannaviðtölin sem blaðið birtir fyrir kosningar. Ákveðið var að bjóða öllum formönnum flokka sem mælst hafa með yfir 2,5 prósenta fylgi á landsvísu samkvæmt kosningaspá Heimildarinnar til viðtals í blöðum undanfarinna vikna. Sami rammi hefur verið um öll viðtölin og dregið var um dagsetningar birtinga.
Vert er að taka fram að formenn tveggja stjórnmálaflokka, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks, afþökkuðu boð Heimildarinnar um viðtal og um leið tækifæri til þess að skýra stefnu sína og áherslur fyrir lesendum blaðsins.
Í blaðinu hefur einnig verið fjallað um helstu áherslumálin í komandi kosningum undir liðnum: Um hvað er kosið? Þegar hefur verið fjallað um húsnæðismál, utanríkismál, heilbrigðismál og geðheilbrigðismál, sem og verðhækkanir á matarkörfunni. Í næsta blaði, sem kemur út daginn fyrir kosningarnar, 30. nóvember, verður greining á stefnumálum flokkanna.
Pressa og Pod blessi Ísland
Pressa, þjóðmálaþáttur Heimildarinnar, er í beinni útsendingu á föstudögum klukkan tólf á hádegi og er aðgengilegur áskrifendum á vefnum. Alþingismenn og frambjóðendur sitja fyrir svörum í Pressu fram að kosningum.
Hlaðvarpsþátturinn Pod blessi Ísland, þar sem blaðamenn Heimildarinnar fara yfir stöðuna í stjórnmálum í aðdraganda kosninga, er svo aðgengilegur á vef Heimildarinnar og öllum hlaðvarpsveitum.
Athugasemdir