„Ég hef bara aldrei verið betri sko,“ segir Almar Steinn Atlason, betur þekktur sem „Almar í kassanum“. Almar er að senda frá sér sína fyrstu skáldsögu og las hana upphátt í einni beit í anddyri Tjarnarbíós í vikunni í beinu streymi. Upplesturinn hófst klukkan 18 á mánudag og lauk um 22 klukkustundum síðar, síðdegis á þriðjudag.
Rödd Almars er silkimjúk þegar blaðamaður slær á þráðinn og greinilegt að raddböndin hafa tekið vel í gjörninginn. „Eins og að fá sér hálsbrjóstsykur og fara í raddþjálfun.“
Almar hefur lengi ætlað sér að gefa út bók en ekki þorað að láta verða af því fyrr en nú. „Ég var búinn að vera lengi að vinna þessa bók. Eina ástæðan fyrir því að ég hef aldrei tekið þátt í bókaútgáfu því ég hef borið of mikla virðingu fyrir henni, átt erfitt með að nálgast hana af því mér finnst bækur svo flottar, ég hef ekki getað snert þær. Svo var ég búinn að eyða miklum tíma og vinnu í þessa bók að mér fannst synd að vera búinn að eyða svona miklu í sögu og segja hana aldrei.“
„Þetta er ævintýri á örvandi. Blóð og garnir og vesen.“
Skáldsagan Mold er bara mold - Litla systir mín fjöldamorðinginn er í þremur bindum sem koma saman í kassa þar sem velt er upp spurningunni: Er hægt að gerast fjöldamorðingi fyrir misskilning? Hlutarnir þrír kallast Með Venus í skriðdreka, Þindarlaus frásögn af erfiðum degi manns í Efra-Breiðholti, og Frelsið er takmarkað. „Ég er rosa ánægður með hana. Þetta er ævintýri á örvandi. Blóð og garnir og vesen. Spennutryllir án þess endilega að vera spennandi. Svona einhver velferðar-starfsmanna-Borgartúns-turns-Íslendingasaga,“ segir Almar þegar hann er beðinn um að lýsa efni skáldsögunnar.
Við öllu búinn með þvaglegg og næringu í æð
Almar var vel undirbúinn og ráðfærði sig við hjúkrunarfræðing áður en hann hófst handa sem setti upp þvaglegg og næringu í æð. Almar þurfi því aðeins að standa upp til að tæma þvagpokann á meðan lestrinum stóð. „Ég hef alltaf haft gaman af því að segja sögur, ég gat ekki látið þessa liggja með öllu ósagða. Ég komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að það myndi taka svolítinn tíma að segja þessa sögu. Þegar fólk er að segja mér sögu þá missi ég þráðinn og fer að tala um eitthvað annað ef það ætlar að taka klósettpásu eða fá sér hádegismat í miðri sögu.“ Þannig komst Almar að því að þetta væri besta niðurstaðan: Að lesa bókina í einni beit.
„Ég þurfti að afsaka mig til að tæma úr þvagpokanum held ég tvisvar og einu sinni varð 2-3 mínútna dramatísk málhvíld á meðan ég hvíldi augun aðeins.“ Almar er ekki viss hvort hann hafi sofnað á einhverjum tímapunkti. „Hugsanirnar og bókin verða eitt á einhverjum tímapunkti og hvort maður haldi áfram meðvitundarlaus að lesa í leiðslu, mér finnst það ekki ósennilegt. Ég hafði í raun verið sofandi allan tímann?“ Almar fékk góðan frið við lesturinn en fólk var samt sem áður duglegt að kíkja við í anddyri Tjarnarbíós. „Það er ekkert leiðinlegra að lesa þó svo að einhver sé að blaðra eða vinna eða gera eitthvað. Leikhús er lifandi hús og Snæbjörn leikhússtjóri og góða fólkið sem þarna vinnur er frábært að halda lífi í þessu góða leikhúsi.“
Gjörningalist fyrir hálfvita sem kunna ekki að fara eftir reglum
Sem fyrr segir kemur bókin í kassa sem er kannski vel við hæfi þar sem flestir þekkja Almar sem „Almar í kassanum“ eftir að hann dvaldi nakinn í heila viku inni í glerkassa í Listaháskólanum. Þakklæti er honum eftir í huga þegar hann rifjar upp þennan níu ára gamla gjörning. Að vera ungur listamaður að stíga sín fyrstu skref inn í augu almennings og fá þjóðina sína með sér er ómetanlegt held ég.“
„Ég kynni mig nú yfirleitt sem hálfvita, það er heiðarlegast“
Hann hefur unnið áfram með gjörningalistina. „Ég hef alltaf haft gaman af bæði að fylgjast með og vesenast í gjörningalist. Það er sviðslist nema fyrir svona hálfvita eins og mig sem kunna ekki að fara eftir reglum.“ Almar kýs að kynna sem hálfvita í dag, þó gjörningalistamaður, málari og nú rithöfundur eigi einnig vel við hann. „Ég kynni mig nú yfirleitt sem hálfvita, það er heiðarlegast. Svo set ég bara á mig þann hatt sem passar hverju sinni. Ég hef aldrei hikað við að kalla mig neitt. Þegar ég raka mig á morgnana segist ég vera hárskerameistari og þegar ég fæ mér paratabs af því að ég er með hausverk þá er ég orðinn apótekari.“
En hvað tekur við nú þegar nærri sólarhings upplestur er frá?
„Ég þarf aðeins að hugsa það. Mér finnst ekkert ólíkleg að ég fari að leita mér að nýjum hatti. Ég hef lengi hugsað mér að verða skipskokkur, það hefur verið fantasía hjá mér, þannig ef einhverjum vanta svoleiðis þá er velkomið að hafa samband.“
Athugasemdir