Ég man ekki hvað ég var gamall þegar ég þurfti í fyrsta skipti að fara á slysadeildina. Í minningunni var ég 6 ára. Þá hafði ég dottið á hausinn í tröppunum hjá Hannesi frænda mínum sem var skurðlæknir. Hann fór með mig á slysadeildina þar sem sárið var saumað. Það var gott að hafa Hannes frænda með því hann róaði mig niður og klappaði mér á kinn. Síðan liðu nokkur ár og næst þegar ég þurfti að leita á slysó var ég 9 ára. Þá hafði ég verið með vinunum að klifra á byggingapöllum og steig á ryðgaðan nagla. Síðan þá hef ég þurft að fara nokkrum sinnum á bráðamóttökuna – stundum með sjálfan mig, með börnin mín, konuna mína og hana mömmu.
Þegar þetta er skrifað hef ég verið um það bil 450 klukkustundir á vaktinni á bráðamóttökunni yfir rúmlega 3 mánaða tímabil. Ég hélt ég vissi talsvert um bráðamóttökuna – en ég var fljótur að átta mig á að ég vissi heldur lítið. Bráðamóttakan er í raun verksmiðja þar sem sjúklingar koma inn á færibandi, veikindi þeirra eru greind, þeir fá meðferð og eru síðan sendir burt – annaðhvort heim eða á aðrar deildir spítalans. Þetta er verksmiðja sem stoppar aldrei.
Það fyrsta sem ég skynjaði þegar ég fór að kynnast starfsfólkinu var starfsandinn. Ég held ég geti fullyrt að hvergi hef ég fundið fyrir eins góðum starfsanda og á bráðamóttökunni. Þar eru allir jafnir og engin stéttaskipting og samvinna milli allra starfsstétta skiptir öllu máli. Starfsfólkið er upp til hópa allt sómafólk með sterka þörf fyrir að hjálpa öðrum og finnur lausnir á öllum þeim vandamálum sem koma upp öllum stundum.
Þetta ferðalag mitt um ganga bráðamóttökunnar hefur verið ótrúlegt og um leið erfitt en mjög gefandi. Það hefur verið erfitt fyrir mig að verða vitni að endurlífgunum sem ganga ekki – þar sem sjúklingurinn deyr. Um það fjalla ég í þætti númer 2 af Á vettvangi. Það hefur verið mjög gefandi að sjá starfsfólkið gera allt til að bjarga lífi sjúklinga og upplifa ósvikna gleði allra þegar það tekst.
Starfsfólk bráðamóttökunnar er einstaklega lausnamiðað enda starfar það við aðstæður sem hafa verið að versna með hverju árinu. Það venst því að þurfa alltaf að teygja sig lengra – finna nýtt stæði fyrir sjúkling. Og það er einmitt þessi sjálfsbjargarviðleitni starfsfólksins sem keyrir starfið á deildinni áfram þrátt fyrir alltof mikið álag. En ég finn á öllum að það styttist í þá stund að það verður ekki hægt að teygja sig lengra.
Við sem samfélag eigum að gera allt til að bæta aðstæður svo þetta frábæra starfsfólk geti sinnt starfi sínu með sóma og gengið sátt út að lokinni erfiðri vakt. Starfsfólkið er deildin og án þess væri engin bráðamóttaka. Þetta vita stjórnmálamenn og sérstaklega þeir sem hafa verið við völd lengi. Það hefur komið starfsfólki bráðamóttökunnar á óvart hversu lítið hefur verið rætt um stöðuna á bráðamóttökunni í aðdraganda alþingiskosninga. Það er rúm vika til kosninga og því er enn tími til að spyrja.
Kominn er út fyrsti þátturinn af Á vettvangi á bráðamóttökunni og á næstu vikum munu fleiri þættir koma út. Þar munum við kynnnast starfsfólkinu og verkefnunum sem þangað streyma inn allan sólarhringinn – alla daga ársins. Við munum til dæmis fylgjast með þremur stórum atburðum sem komu upp á einni næturvakt sem gerðust allir í krónólógískri röð – á einum og hálfum klukkutíma.
Athugasemdir