Um síðustu mánaðamót stefndi verkefnisstjórn rammaáætlunar að því að setja drög að tillögum að flokkun tíu vindorkukosta í samráðsgátt stjórnvalda „á næstu tveimur vikum“ líkt og það var orðað í svari við fyrirspurn Heimildarinnar. Það hefði þýtt að tillögurnar hefðu birst fyrir miðjan nóvembermánuð. Þegar Heimildin spurði á ný í síðustu viku hvenær von væri á birtingu tillagnanna fengust þau svör frá starfsmanni verkefnisstjórnarinnar að stefnt væri að því að setja kostina til samráðs „eftir helgi“, á mánudag eða þriðjudag. Þeir dagar eru nú liðnir og ekkert bólar á tillögunum. Ljóst er að málið er pólitískt eldfimt nú rétt fyrir kosningar. Um 40 vindorkukostir, flestir á vegum einkafyrirtækja í eigu erlendra aðila, eru á teikniborðinu um allt land og mjög skiptar skoðanir eru á hverjum og einum þeirra og hvort reisa eigi vindorkuver hér á landi yfir höfuð.
Hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar er að flokka framsetta virkjanakosti, eftir gaumgæfilega skoðun í nokkrum faghópum, í nýtingar-, bið- eða verndarflokk. Síðustu verkefnisstjórn tókst ekki að ljúka vinnu sinni en skilaði þó drögum að tillögu um flokkun og lagði meðal annars til að þrír vindorkukostir færu í nýtingarflokk og tveir í biðflokk. Einn þessara kosta, Búrfellslundur, var afgreiddur í nýtingarflokk með samþykkt Alþingis á þingsályktunartillögu þriðja áfanga áætlunarinnar snemmsumars 2022. Hinir fjórir fóru áfram til frekari meðferðar hjá verkefnisstjórn fimmta áfangans, þeirri sem nú er að störfum.
„Við erum enn að vinna að okkar tillögugerð,“ skrifar Jón Geir Pétursson, dósent við Háskóla Íslands og formaður verkefnisstjórnarinnar, í svari við fyrirspurn Heimildarinnar á miðvikudag um það hvenær tillagan verði birt. „Þeirri vinnu þarf að ljúka áður en við hefjum opið samráð um drög að tillögum.“
Spurður hvort ekki sé þá lengur í sjónmáli að tillögurnar verði birtar fyrir mánaðamót og þar með fyrir kosningar svarar Jón Geir: „Veit ekki nákvæmar tímasetningar. Þær verða settar í umsögn þegar þær eru tilbúnar.“ Verkefnisstjórnin taki sér þann tíma sem hún þurfi.
Í fundargerðum verkefnisstjórnarinnar, sem birtar eru opinberlega á vef rammaáætlunar, má sjá að í október hefur vinnan við tillögurnar verið komin vel á veg og þann 30. þess mánaðar fór stjórnin yfir „skýrslu verkefnisstjórnar með greiningum og drögum að tillögu að flokkun 10 vindorkuverkefna“, líkt og það var orðað í fundargerðinni.
„Við erum bara að vinna okkar vinnu eins vel og hægt er. Það er ekkert flóknara
„Við erum bara að vinna okkar vinnu eins vel og hægt er. Það er ekkert flóknara,“ svarar Jón Geir spurður hvort eitthvað hafi komið upp á sem hafi orðið til þess að áform um birtingu nú um miðjan mánuðinn hafi ekki gengið eftir. Spurður hvort komandi kosningar hefðu með einhverjum hætti haft áhrif á vinnu verkefnisstjórnarinnar varðandi vindorkutillögurnar og birtingu þeirra vísar hann í fyrri svör sín: „Okkar tillögur fara í samráð þegar þær eru tilbúnar.“
Hann bendir enn fremur á að ferlið sé þannig að fyrst fari drög að tillögu í tveggja til þriggja vikna samráð, þá í yfirferð og í kjölfarið hefjist svo annað 12 vikna samráð. Þannig hafi verkefnisstjórn 5. áfanga þegar unnið með tvo aðra „virkjanapakka“.
Athugasemdir (2)