Morguninn sem öllum varð ljóst að Donald Trump yrði aftur forseti Bandaríkjanna fannst mér almennt þungt hljóð í fólki, þó auðvitað væru einhverjir sem gátu varla setið á sér með hamingjuóskirnar, fannst mér flestir ýmist hryggir eða hvumsa yfir niðurstöðunum.
Hvernig gat það verið að kvenhatari sem hefur ítrekað verið sakaður um kynferðisbrot og nauðgun, hefur talað opinskátt um eigin kynþáttahatur og fordóma gegn minnihlutahópum, og hvatt til ofbeldis og óeirða þegar hann fékk ekki það sem hann vildi, hafi verið valinn hæfastur til að stjórna landinu? Aftur.
Ég fórnaði höndum. Óskiljanlegt. En fannst ég þó geta huggað mig við að hann hefði aldrei náð kjöri á Íslandi.
Það er eitthvað sem ég vil trúa, en þegar ég lít í kringum mig er ég ekki viss. Í framboði fyrir flokk sem spáð er frábæru gengi í komandi kosningum er hver einasti karl sem hafði hátt um spillingu og kvenfyrirlitningu sína á Klausturbar fyrir sex árum. Kannski sækjast þeir eftir að geta loksins „hjólað í einhverjar helvítis tíkur“ og útlendinga. Brýnasta ógnin við lýðveldið samkvæmt flokknum sem þeir fara fyrir eru nefnilega ekki „húrrandi klikkaðar kuntur“ heldur innflytjendur. Af orðræðunni að dæma eru ekki bara störfin, ríkiskassinn, og heimilisfriðurinn í hættu, heldur á líka að útrýma tungumálinu sjálfu, því guð forði okkur frá því að kenna útlendingum íslensku.
Íslensk tunga brennur sérstaklega á einum nýliða flokksins sem birti nýlega myndband af sér að kalla ólétta eiginkonu sína meri, en Miðflokksmenn hafa löngum reynt að nota fjölbreytt orð til að lýsa konum, þeir virðast helst sækja innblástur sinn úr dýraríkinu en einnig hafa líkamspartar eins og skrokkur og kunta verið vinsæl samheiti.
Ekki einskorðast kvenfyrirlitning þó við einn stjónmálaflokk frekar en fyrri daginn. Siðanefnd Alþingis hefði síst fundist ummæli meðlims Samfylkingarinnar í garð kvenna skárri en Klaustursmanna. En hann lýsti kvenskepnunni sem lævísri, miskunnarlausri og undirförulli tík sem svífst einskis til að fá sínu framgengt. Fáir bjuggust við þverpólitískri samstöðu um hlutgervingu kvenna milli Miðflokksins og Samfylkingarinnar, og ég vona að það verði ekki samfélagið sem við kjósum.
Ég vil heiðarlega geta fórnað höndum þegar ég heyri að aðrar þjóðir hafi kosið kvenhatara og rasista sem leiðtoga sína og vona sannarlega að Íslendingar séu betri en svo að leika það eftir þeim.
Athugasemdir