Veggöng til Eyja hafa lengi verið til umræðu. Þau væru mikil búbót en dýr. Til eru þeir sem telja göngin fýsileg án þess að fyrir liggi fullnægjandi rannsóknir á ólíkum berglögum á mögulegum gangaleiðum. Samkvæmt áfangaskýrslu Hafró frá 1988 um jarðlög við Eyjar virðast þau erfið til jarðgangagerðar. Augljós þörf er á endurtekningu með meiri nákvæmni og nýrri tækni, að hluta til. Auk þess hefur áhættumat vegna náttúruvár ekki farið fram. Málið á vandaða umfjöllun skilið.
Ég hef lengi efast um jarðgangagerð inni í virku eldstöðvakerfi, m.a. í viðtölum á meðan ég var einn þingmanna Suðurkjördæmis. Hvað um það - nú á að hefja rannsóknir á ný og þá væntanlega til þess að skýra myndina og líkur á að göng geti heppnast. Þær verða að vera vandaðar. Ný skýrsla sem fjallar m.a. að rannsóknarkostnað gerir ráð fyrir 500-600 milljón króna vinnu í fjórum áföngum og er sá fyrsti (80 mkr.) í burðarlið.
„Svo eru þarna eflaust sprungur að finna eftir spennulosun tengdri kvikuhreyfingum í a.m.k. 20-25 þúsund ár.“
Meðal þess sem vitað er um, eða blasir við eða glíma verður við, er mikill bratti ganga við „niðurkeyrslu“ og „uppkeyrslu“. Efsti hluti berglagastaflans milli Eyja og lands er úr þykkum, setlögum (jökulseti og sjávarseti), bæði frá nútíma og síðasta jökulskeiði, sem göng geta trauðla legið um. Meginhluti ganga verður að liggja á verulegu dýpi, í gegnum fornan hraunlagastafla. Syðri hlutinn sleppur ekki við þykka móbergsmyndun (hörnuð gjóska, blanda hraunmola og gjósku, forn kvikuinnskot og etv. bólstrabergshraun) sem göng hafa ekki verið unnin í hér á landi. Svo eru þarna eflaust sprungur að finna eftir spennulosun tengdri kvikuhreyfingum í a.m.k. 20-25 þúsund ár. Ávallt mælast fáeinir skjálftar á ári að meðaltali í eldstöðvakerfinu. Áhættumat snýr svo m.a. að lekum jarðlögum, skjálftasprungum, frekari jarðhræringum og möguleikum á eldgosum.
Þetta og fleira þarf að kanna og meta sem best. Ná að ákvarða og meta jarðalagasnið í staflanum á breiðu svæði undan landi og við Heimaey. Nýta alla bestu tækni og þekkingu til þess að taka upplýsta ákvörðun um jarðgöng og aðrar lausnir, reynist þau ótæk.
Svonefnd flotgöng hafa komið fram í umræðu og nefnd erlend dæmi um þau. Þótt þau væru styttri en 15-18 km veggöng eru þau mun dýrari og líka áhættusamari vegna aðstæðna. Flotgöng henta miklu fremur í innfjörðum og innhöfum heldur en úti í N-Atlantshafinu sem hefur orð á sér fyrir að vera býsna ólmt. Ölduhæð, um 10-15 metrar og stundum enn meiri, er erfið fyrir flotgöng og víða lítið dýpi á landgrunninu við Eyjar bætir ekki úr skák. Tel þá lausn ekki koma til greina.
Athugasemdir