Við erum komin með nóg af umbúðapólitík, segir hópur manna í jakkafötum sem æfir sig flesta morgna í að dýpka röddina – til þess að mark sé á þeim tekið. Þeir boða róttæka skynsemishyggju. Almenn skynsemi er ekkert svo algeng lengur segir einn þeirra, þessi með dýpstu röddina.
Endurómar frá Ameríku undir lok fyrsta áratug þessarar aldar, þegar ungur spjallþáttastjórnandi réði sig til starfa hjá Fox News og notaði vettvang sinn til þess að magna upp raddir þeirra í Teboðshreyfingunni. Sá sami hélt kröfugöngu í Washington heiðrinum til varnar. Kannski verður heiður næsta umbúðalausa prinsippið sem djúprödduðu mennirnir taka upp varnir fyrir. Þeir tala mikið um gildi, að nauðsynlegt sé að varðveita gildi samfélagsins.
Hafandi búið hér alla mína hunds- og kattartíð á ég reyndar erfitt með að skilja um hvaða samfélag þeir tala. Samfélag verður til þegar hópar mætast á jafningjagrundvelli og leggja sig fram við að skilja hvaðan hinn kemur, það verður ekki til með boðvaldi ríkis, kirkju eða annars konar valds.
Þeir skilja ekki orðið fjölmenning, segja það þversögn í sjálfu sér. Menning felur í sér eina hugmynd, eins og þeir skilja hana. Það er auðvitað vitlaust skilið. Menning er ekki monolithískur arkitektúr. Einföld í viðhaldi á meðan hún er fábrotin en verður flóknari eftir því sem hún dýpkar, og eftir því sem hún dýpkar með nýjum áhrifum og nýjum hugmyndum verður hún til fleiri hluta brúkleg.
„Um vandann má ræða og lausnir finna. Það vilja þeir ekki gera.
Þeir tala um útlendingavandann en leggja engar lausnir til, enda er ómögulegt að leysa vanda fyrr en þú horfist ærlega í augu við rót hans. Um vandann má ræða og lausnir finna. Það vilja þeir ekki gera. Þeir vilja ná utan um ónotatilfinningu, sem margt fólk upplifir, með stikkorði. Þeir vilja glæsilegar umbúðir. Klassískt prakkarastrik; fylla risastóran kassa af pappír og frauðplasti og pakka inn í fínasta gjafapappírinn. Í pakkanum er svo ekkert annað en pínulítill skopparabolti og barnið sem opnaði hann verður fyrir vonbrigðum og jólin ónýt.
Leyfum þessum djúprödduðu mönnum ekki að eyðileggja jólin. Leyfum þeim tóni ekki að enduróma frá Ameríku.
Athugasemdir