Nyrst í Árneshreppi raða sér þrjár eyðijarðir. Á einni þeirra er dvalið yfir sumartímann en á hinum tveimur halda fáir til, hvort sem er að sumri eða vetri, aðrir en sjófuglar, selir og melrakkar. Á jörðunum standa fjöll, mörg tíguleg líkt og önnur sem einkenna Strandir, og um þær renna ár og lækir. Ofan af hálendinu og niður í Norður-Íshafið.
Kyrrðin getur verið einstök á þessum slóðum, svo langt frá brambolti og stressi þéttbýlisins en þó verður að segjast að hún er aðeins á yfirborðinu. Því undir niðri kraumar ólga í mannfólkinu sem jörðunum tengist, sumt hvert tryggðarböndum í áratugi. Það hefur nú í fleiri ár deilt um það hvort að virkja eigi árnar og fjallavötnin bláu á heiðinni og síðustu misseri um hver eigi nú eiginlega landið sem árnar fara um. Tvívegis hefur meirihluti eigenda einnar jarðarinnar tapað landamerkjamáli fyrir dómstólum.
En nú fá þeir þriðja tækifærið til að sanna mál sitt fyrir lögum. Fyrir æðsta dómsvaldi landsins; Hæstarétti.
„Að virtum gögnum málsins verður talið að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi“
Vesturverk, sem er í eigu HS Orku, áformar að byggja Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Virkjað yrði rennsli þriggja áa þar sem þær steypast ofan af hálendinu en um eina þeirra, Eyvindafjarðará, er nú deilt. Ef hún tilheyrir Engjanesi og Ófeigsfirði yrði hægt að reisa virkjunina án frekari afskipta eigenda Drangavíkur. En ef áin og stöðuvatn efst á vatnasviði hennar tilheyrir Drangavík er næsta víst að áform Vesturverks verða sett í uppnám því vilji meirihluta eigenda Drangavíkur er sá „að óbyggðir Ófeigsfjarðarheiðar, vatnsföllin, fossarnir og strandlengjan fái að vera óröskuð um ókomna tíð og náttúran fái að þróast á eigin forsendum“.
Hvað þýða orðin?
Hópur eigenda Drangavíkur höfðaði mál gegn eigendum Ófeigsfjarðar og Engjaness árið 2020. Sagði landamerkin sem virkjunaraðili setti fram í sínum gögnum einfaldlega röng. Tveimur árum síðar komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að sýkna bæri eigendur jarðanna tveggja af kröfum Drangavíkurfólksins. Þá niðurstöðu staðfesti Landsréttur nú í sumar.
Sama fjölskyldan hefur átt jörðina Ófeigsfjörð í um tvær aldir. Forsvarsmenn Vesturverks, fyrirtækisins sem áformað hefur Hvalárvirkjun síðustu ár, keyptu hluta hennar fyrir nokkru. Engjanes er hins vegar í eigu ítalska barónsins Felix Von Longo-Liebenstein. Baróninn eignaðist jörðina árið 2006 en þangað hefur hann sjaldan komið og ekkert um langa hríð.
Deilurnar snúast um túlkun landamerkjabréfa jarðanna frá árinu 1890. Ekki er deilt um hvort skjöl þessi skuli leggja til grundvallar í málinu en ágreiningur er um hvernig túlka eigi það sem í þeim stendur, t.d. orðin „eptir hæstu fjallsbrún“ í landamerkjabréfi Engjaness. Landsréttur taldi þarna átt við vatnaskil. Og niðurstaðan því sú, líkt og í héraðsdómi, að árnar þrjár sem nýttar yrðu til að knýja túrbínur Hvalárvirkjunar tilheyrðu jörðunum Ófeigsfirði og Engjanesi.
Þetta gátu eigendur Drangavíkur með engu móti sætt sig við. Þótt kvarnast hafði úr þeim hópi eigenda jarðarinnar sem vildu höfða mál, þeir töldu ekki lengur 75 prósent alls hópsins heldur 61 prósent, voru árar ekki lagðar í bát heldur leitað til Hæstaréttar um leyfi til að áfrýja þangað dómi Landsréttar.
Drangavíkurhópurinn byggði beiðni sína m.a. á því að niðurstaða málsins hefði verulegt almennt gildi og var m.a. vísað til laga um meðferð einkamála í því sambandi. Hluti eigenda Drangavíkur hafi tekið afstöðu með eigendum Ófeigsfjarðar og Engjaness um landamörkin og hafi með yfirlýsingum sínum „varpað allri sönnunarbyrði í málinu“ á leyfisbeiðendur. Öll úrlausn málsins hafi því ráðist af rangri lagatúlkun. Þá byggir hópurinn ennfremur á því að með dóminum hafi verið viðurkennt að land Drangavíkur sé umtalsvert minna en þeir hugðu og málið varði því verulega hagsmuni þeirra. Að auki eigi niðurstaða réttarins um landamerki Engjaness sér enga stoð í orðalagi landamerkjabréfs jarðarinnar. Dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og sú niðurstaða Landsréttar að fella niður skyldu þriggja gagnaðila, fólks sem á í jörðinni Drangavík, til greiðslu málskostnaðar í héraði hafi verið andstæð lögum.
„Að virtum gögnum málsins verður talið að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi,“ segir í ákvörðun Hæstaréttar, meðal annars um sameign, samaðild og túlkun á grein laga um meðferð einkamála. „Þá kann niðurstaða Landsréttar um ákvörðun málskostnaðar að vera í ósamræmi við lög.“
Og niðurstaðan: „Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.“
Athugasemdir