Ársverðbólga mælist nú 5,1 prósent og lækkar því um 0,3 prósentustig á milli mánaða. Verðbólga hefur ekki mælst lægri á Íslandi síðan í nóvember árið 2021.
Þetta er síðasta verðbólgumælingin sem Hagstofan birtir fyrir næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans, sem verður kynnt af peningastefnunefnd bankans 20. nóvember.
Minni hækkun fasteignaverðs er einn stærsti áhrifaþátturinn í þessari þróun. Matvara og ferðakostnaður hækkar hins vegar á milli mánaða; matur um 1 prósent og flugsamgöngur um 6,6 prósent.
Vísitölubreyting á milli mánaða nemur í heild 0,28 prósentum sem er nokkur viðsnúningur frá síðustu mælingu, þegar vísitalan lækkaði um 0,24 prósent. Það er þó nokkuð óvanaleg þróun, að vísitalan lækki á milli mánaða.
Verðbólgan sem talað er um og stendur nú í 5,1 prósenti er breyting á vísitölu neysluverðs á ársgrundvelli. Hér fyrir neðan má sjá töflu Hagstofunnar sem sýnir breytingu undirliða í verðbólgumælingunni og hvernig þeir hafa þróast á síðustu tólf mánuðum.
Athugasemdir