„Takk fyrir boðið,“ sagði Volodomír Selenskí, forseti Úkraínu, við Bjarna Benediktsson forsætisráðherra í rigningu og köldum vindi á tröppum Þingvallabæjarins. Opinber heimsókn Úkraínuforseta hefst á Þingvöllum og stendur fram á morgun, þar sem hann mun meðal annars funda með Höllu Tómasdóttur, forseta, og öðrum forsætisráðherrum Norðurlandaþjóða.
Áður en hann gekk inn í Þingvallabæinn sagði Selenskí meðal annars að munurinn á Rússlandi og Úkraínu væru sá að Rússum væri alveg sama um mannfall á vígvellinum. Síðast í morgun hafi hann talað við hershöfðingja sinn í austurhluta landsins sem hafi upplýst hann að í gær hafi 800 rússneskir hermenn fallið í átökunum.
„Þeir hugsa ekki um þetta. En við þurfum að hugsa um fólkið og svo landið. En við stöndum eins sterk og við getum,“ sagði hann.
Selenskí þakkaði fyrir þann stuðning sem Íslendingar og aðrar þjóðir Norður-Evrópu hafa þegar veitt en kallaði eftir meiru. „Við þurfum raunverulegan stuðning,“ sagði hann.
Athugasemdir (1)