Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hún sé tilbúin í það verkefni að verða næsti formaður flokksins. „Ég er tilbúin í það verkefni,“ sagði hún á leið sinni inn á ríkisstjórnarfund fyrir stundu. Það sé í höndum sjálfstæðismanna að velja sér forystu. Taka þurfi þó eitt skref í einu.
„Við erum á þessum fundi að afgreiða formsatriði sem skipta máli. Förum í gegnum það og svo höldum við áfram,“ sagði hún um fundinn. Hún hefur ekki áhyggjur af brotthvarfi eins samstarfsflokksins. Starfsstjórnin sé fullfæra um að halda utan um verkefnin fram að kosningum án aðildar ráðherra Vinstri grænna.
Fyrr í dag var tilkynnt að Þórdís Kolbrún sæktist eftir öðru sæti í Suðvesturkjördæmi, í stað þess að bjóða sig fram í Norðvesturkjördæmi – líkt og hún hefur gert frá árinu 2007. Þar segir Þórdís Kolbrún að hún sé tilbúin að leiða þegar Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og oddviti kjördæmisins, hættir.
„Ég trúi því að í Suðvesturkjördæmi, sem er langfjölmennasta kjördæmið, að þar geti ég gert gagn. Þetta eru sannarlega skilaboð um það líka. Nú erum við á þessum stað að afgreiða formsatriði og einhenda okkur svo í kosningabaráttu.“
Segir hegðun ráðherra VG ábyrgðarlausa
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, sagði á leið sinni inn á fundinn að nú væri uppi skrítin staða. Það væri með ólíkindum að flokkur skyldi hlaupa frá borði, og átti þar við ráðherra Vinstri grænna, sem hafa sagst ekki ætla að taka þátt í starfsstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar fram að kosningum.
„Þetta er nú ekki þannig að ráðherraembætti séu þannig að þegar einhverjum dettur í hug að hann vilji ekki vera á vettvangi af einhverjum ástæðum að hann geti bara yfirgefið ríkisstjórnina. Ef allir myndu gera þetta þá væri landið stjórnlaust. Þetta er með ólíkindum ábyrgðarlaust það sem við höfum séð og við þurfum auðvitað að taka á því,“ sagði Guðlaugur Þór.
Hann má svo hverfa úr ráðherraembætti núna ef hans aðstæður eða sannfæring krefst þess. Þrælahald er bannað á Íslandi með lögum.