Ungt framsóknarfólk segir það „heigulshátt“ af forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni að slíta stjórnarsamstarfinu og leitast við að ganga til kosninga í nóvember.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla. Þar segir að ungu framsóknarfólki blöskri ákvörðun Bjarna. „Okkur þykir þetta heigulsháttur, þetta er gert með hagsmuni hans flokks í huga umfram hagsmuni þjóðarinnar.“
Það sé stór ákvörðun að gefa kost á sér að vera málsvari kjósenda á þingi og því fylgi ábyrgð. Hvað þá í ríkisstjórn. „Það er sorglegt að forsætisráðherra og samflokksfólks hans taki þeirri ábyrgð ekki alvarlegar en raun ber vitni.
Slit á ríkisstjórnarsamstarfi ætti að vera neyðarventill sem er notaður þegar aðstæður skapast þar sem ómögulegt er að halda áfram, ekki björgunarbátur til að hoppa í þegar skoðanakannanir eru flokkum óhagstæðar eða menn þurfa að miðla málum í ríkisstjórnarsamstarfi.“
Athugasemdir