Um daginn var ég á ráðstefnu um mansal í Hörpu. Erindin voru áhugaverð og góð mæting: starfsfólk stéttarfélaga, góðgerðarsamtaka, félagsþjónustu og aðrir sem vinna með viðkvæma hópa samfélagsins. Á einni málstofu ákvað ég að telja fólkið og niðurstaðan var sú að það voru sjötíu og tvær manneskjur í salnum, aðeins fimm voru karlmenn. Tveir þeirra tæknimenn á vegum Hörpu.
Síðustu tvö ár hef ég unnið hjá góðgerðarsamtökum og því lengur sem ég vinn á þeim vettvangi þeim mun meira tek ég eftir misræmi í því sem telst hefðbundin kynjahlutverk. Meirihluti starfsfólks á vinnustaðnum mínum eru konur. Meirihluti sjálfboðaliða eru konur. Á fundum með öðrum stofnunum er meirihlutinn konur.
„Er það að sýna umhyggju ekki nógu karlmannlegt?“
Aftur á móti sé ég nánast bara karlmenn í fréttum, sem dag eftir dag réttlæta ofbeldi sem breiðist út á jörðinni. Byssum er haldið að strákum og dúkkum er haldið að stelpum og það er eins og karlmenn hafi ekki vaxið upp úr því að leika með byssur og konur hafi ekki hætt að leika með dúkkurnar sínar. En hver ákvað að svona ætti þetta að vera? Er þetta eðli okkar eða eitthvað sem við bjuggum til og endurskoðuðum ekki þegar tímarnir breyttust? Og ef svo, við hver? Taka karlmenn minni þátt í félagslegum störfum og umönnun því það telst ekki þeirra hlutverk? Er það að sýna umhyggju ekki nógu karlmannlegt? Eru það samt ekki bara karlmenn sem telja svo vera?
Eftir ráðstefnuna fór ég heim hugsi og velti því fyrir mér hvernig heimurinn væri ef það væri viðurkennt fyrir karlmenn að vinna í umhyggjustörfum, og fyrir konur að stjórna löndum. Myndu jafnmargar sprengjur falla á óbreytta borgara, myndu eins mörg börn deyja? Kannski ef öll kyn tækju jafnmikinn þátt í baráttu fyrir jafnrétti gætum við komist aðeins lengra í átt að framtíðarsamfélagi þar sem öllum líður vel. En eins og er lítur út fyrir að eitt kyn ákveði flesta hluti, það kyn sem hefur enga ástæðu til að berjast fyrir jafnrétti því það er jafnara en önnur.
Athugasemdir (1)