Nú er liðið eitt ár síðan sjónir heimsins beindust enn á ný að ástandinu í Palestínu og Ísrael. Heilt ár frá því heimsbyggðin byrjaði að fylgjast með þjóðarmorði í beinni útsendingu. 365 dagar af hryllingi, þar sem hver og einn einasti færði okkur fréttir af myrtum börnum, mannvonsku og eyðileggingu.
Á þessu eina ári hefur ekki dregið úr ofbeldinu, þvert á móti hefur það stigmagnast og ekki aðeins virðir ríkisstjórn Ísraels óskir alþjóðasamfélagsins um vopnahlé að vettugi heldur færir hún út kvíarnar og varpar nú sprengjum á Palestínu, Líbanon, Sýrland og Jemen á sama tíma.
Á Íslandi höfum við horft upp á þetta gerast, horft og ekkert gert. Ríkisstjórnin hefur þrátt fyrir ríkan vilja þjóðarinnar varla lyft fingri til að fordæma grimmdarverk Ísraelshers allan þennan tíma. Lífið gengur sinn vanagang og ekkert breytist.
„Hatri fylgir allavega drifkraftur, eitthvert hreyfiafl, með afskiptaleysinu fylgir ekkert, nema kannski andvaralaust tómið“
Þetta tómlæti hefur verið afdrifaríkt því eins og flestir vita er andstæða kærleikans ekki hatur heldur afskiptaleysi. Hatri fylgir allavega drifkraftur, eitthvert hreyfiafl, með afskiptaleysinu fylgir ekkert, nema kannski andvaralaust tómið, þar sem sést ekki gára á vatni.
Það er ekki skrítið að við missum dampinn í slíku umhverfi, eiginlega ekki við öðru að búast en að við verðum því samdauna. Ég hef allavega gerst sek um slíkt. Suma morgna vakna ég sannfærð um að ekkert sem ég geri geti neinu breytt og leyfi vonleysinu að taka völdin.
Aðra daga nenni ég ekki að láta stjórnast af slíku hugleysi, því þó að aðgerðir einnar manneskju, eða afstaða einnar smáþjóðar, skipti kannski ekki sköpum ein og sér þá getur hún rúllað snjóboltanum af stað. Það gerist hins vegar ekki á meðan átta milljarðar manna vakna á hverjum morgni og segjast ekkert geta gert í stöðunni. Áður en þau sannfærast um slíkt gætu þau þó í það minnsta drullað sér til að mæta í samstöðugöngu.
Athugasemdir (1)