Ég á nokkra vini í götunni en þau voru vinir mínir áður en ég flutti. Ég bý í huggulegri götu vestur í bæ, hér eru kjöraðstæður til þess að þekkja nágranna sína með nafni en ég geri það ekki. Og fæst þeirra þekkja mig með nafni. Hér búa mörg börn, ég þekki fæst þeirra. Ef barn dettur og meiðir sig í götunni eru minni líkur en meiri að ég viti hvaða foreldra eigi að kalla í til þess að kyssa á bágtið. Ég þekki ekki nágranna mína.
Gatan mín er eins og flestar götur í Reykjavík. Á kvöldin fyllist hún af bílum og á morgnana tæmist hún, sá er gangur lífsins.
Stundum nikkum við hvert til annars á morgnana. Oftast lokum við að okkur, ræsum bílinn og hlustum á fólkið í útvarpinu greina það hvernig samfélagið er að fara fjandans til.
„Ég trúi hvorki á guð né fótbolta, þau rými eru ekki fyrir mig“
Ég þekki ekki nágranna mína og ég veit ekki hvernig ég ætti að kynnast þeim. Sum kynnast nágrönnum sínum á íþróttaleikjum hjá hverfisliðinu, sumir kynnast þeim í trúarsöfnuðum. Ég trúi hvorki á guð né fótbolta, þau rými eru ekki fyrir mig. Þau eru ekki fyrir alla, þau eru í eðli sínu útilokandi.
Ég þekki ekki nágranna mína og ég veit að ég er ekki einn um það. Fjarlægðin á milli okkar er að aukast, við finnum það öll.
Monokúltúrinn er að mestu leyti dauður, við getum sjaldnast spurt hvert annað hvað okkur fannst um það sem var í sjónvarpinu í gær. Athygli okkar hefur tvístrast og samkenndin með, samfélagið með. Ég þekki ekki nágranna mína. Ég veit ekki hvað þau hugsa þegar þau heyra að samfélagið sé að fara til andskotans. Ég veit bara að ég spyr: Hvaða samfélag?
Athugasemdir (1)