Með því að vernda 0,7 prósent af landsvæði jarðar yrði hægt að bjarga þriðjungi fágætustu dýrategunda veraldar. Að þessu hafa vísindamenn komist með því að kortleggja viðkvæmustu svæði heims. Við þá kortlagningu voru skilgreind 25 svæði sem þyrfti að vernda til að ná þessum markmiðum. Á þeim er að finna mikinn fjölbreytileika og fágætar tegundir dýra sem eru í mikilli hættu á útrýmingu.
Svæðin þekja samtals um 0,7 prósent af föstu landi jarðarinnar og dreifast yfir 33 lönd og fimm heimsálfur. Aðeins um 20 prósent af þessum einstöku vistkerfum njóta lagalegrar verndar í dag.
„Rannsókn okkar dregur fram þau svæði í heiminum sem eru í bráðri hættu,“ segir Sebastian Pipins, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sem starfar við Iperial College í London. „Einnig sýnir rannsóknin að með því að vernda aðeins brot af yfirborði lands á jörðinni er hægt að ná gríðarlegum árangri í náttúruvernd.“
Athugasemdir