Síaukinn áhugi stórfyrirtækja og stjórnvalda víða um heim á námurekstri á hafsbotni er tekinn að hafa veruleg áhrif á efnistöku við strendur. Algengt er að afla þannig sands og malar (sbr. malarnám í Faxaflóa). Sú ásókn eykst hratt, en einnig leit og vinnsla annarra jarðefna, aðallega málmsambanda, á djúpsævi. Kalkþörunganám á Vestfjörðum er annað innlent dæmi. Rannsóknir á áhrifum námuvinnslu á botndýr, fiska, svif, fugla og spendýr, hér heima og heiman, fara fram en ekki í nægu innra samhengi við umfangið, fjölþætt markmið fyrirtækja og óvissu um umhverfisáhrif á vistkerfi. Greint er frá dæmi í nýrri skýrslu Hafró (Fisksamfélög við Landeyjar – skýrsla vegna fyrirhugaðrar efnistöku af sjávarbotni. HV 2024-02). Niðurstaða hollenskar rannsóknar þar er sú að það taki ýmis botnvistkerfi 4-6 ár að komast í fyrra horf eftir efnistöku, væntanlega í lausum botnlögum. Stórfelld námuvinnsla í föstu botnbergi getur margfaldað þá áratölu.
„Botngrams er mannkyni ekki í hag, fari það úr böndum eins og horfur eru á“
Langvinnt rask af þessu tagi í lífríkinu er ekki tilraun heldur alvarleg auðlindanýting sem kann að vera ósjálfbær. Skilyrði á landi eru um margt gjörólík lífsskilyrðum í sjó. Vistkerfi hafanna, einkum villtra, ætra tegunda, eru fyrir löngu komin að þolmörkum enda geta fiskveiðar á heimsvísu ekki gefið meira af sér að óbreyttu. Námuvinnsla á hafsbotni á að vera undantekning frá reglu og stunduð í sem minnstum mæli. Hringrásarhagkerfi og minni og breytt neysla mannkyns eru verkefni framtíðar þegar kemur að hráefnisöflun. Botngrams er mannkyni ekki í hag, fari það úr böndum eins og horfur eru á, m.a. vegna þess að Kína stefnir nú þegar að því sama. Íslensk stjórnvöld eiga að mótmæla formlega námufyrirætlunum norskra aðila og norska ríkisins sem gætu raungerst á komandi árum.
Norsk stjórnvöld og fyrirtæki ganga fast fram að venju, og fyrirhyggjulítið, þegar auðlindir á sjávarbotni eru annars vegar sbr. gas- og olíuvinnslu Norðmanna. Nú hafa stjórnvöld þar tekið frá þrjú svæði við landið og Jan Mayen, samtals 281.000 ferkílómetra til að vinna verðmæt jarðefni. Áhrifin eru að mestu óþekkt en þegar hefur verið gefin út ávísun á leyfisumsóknir. Sama gildir um ný en hæpin olíuvinnslusvæði á norðurslóðum.
Annar meiður á offorsinu við náttúrunytjar er sk. fracking, þ.e. að vinna gas úr kolefnisríkum jarðlögum með háþrýstidælingu á stórum landsvæðum. Til dæmis eru tekin sífellt fleiri svæði í Bandaríkjunum undir framleiðsluna með tilheyrandi grunnvatnsmengun, metanlosun og raski. Kanada, Kína og Argentína eru meðal hörðustu ríkja í þessum geira en t.d. Frakkar banna fracking eins og Noregur (Equinor), heima fyrir. Í Danmörku hefur aðferðin verið í skoðun. Norðmenn undirbúa til dæmis bæði gasvinnslu í kolefnisríku bergi og hefðbundnar olíuboranir á frumbyggjasvæðum í Argentínu. Í Brasilíu (á Bacalhau – vinnslusvæðinu) munu tveir milljarðar olíutunna, sem þeir hyggjast vinna, losa um 800 milljón tonn (megatonn) kolefnisgass.
Fakling nefnist það þegar yfirfallsgasi er jafnóðum brennt á borstað. Árleg kolefnislosun er metin 350 Mtonn (heildarlosunfrá Ísland er 12 til 15 Mtonn). Brennslan er bönnuð á norsku heimasvæði en svo virðist ekki vera annars staðar á þeirra vegum. Þetta er nefnt hér til þess að ítreka að olíufélög heimsins eru mörg enn með úrelta umhverfisstefnu, eru enn að auka vinnslu jarðefnaeldsneytis - og hve tvöfeldni er algeng meðal þeirra.
Athugasemdir (1)