Bryndís Klara Birgisdóttir, er lést í kjölfar stunguárásar í miðborg Reykjavíkur á menningarnótt, verður jarðsungin í dag. Starfsfólk Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð hefur af því tilefni boðað til minningarstöðu fyrir framan anddyri miðstöðvarinnar í dag, föstudaginn 13. september, kl. 15.
Landsmenn eru hvattir til að kveikja á friðarkerti í dag til að minnast Bryndísar. Allar helstu matvöruverslanir landsins hafa hafið sölu á sérstöku friðarkerti og mun ágóði af sölu þess renna í Minningasjóð Bryndísar Klöru. Tilgangur sjóðsins er að styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna er í forgrunni.
„Starfsmenn Skógarhlíðar sem margir hverjir hafa reynslu af því að bregðast við ofbeldisverkum eins og því sem varð Bryndísi Klöru að bana vilja taka þátt í því að minnast hennar og styðja við markmið sjóðsins,“ segir í færslu á Facebook-síðu Neyðarlínunnar þar sem boðað er til minningarstöðunnar kl. 15 í dag. „Starfsmenn Neyðarlínu hvetja öll til að taka þátt, hvar sem þau kunna að vera stödd. Öll eru velkomin til að koma með eigið kerti og taka þátt í minningarstöðunni við Skógarhlíð. Hugur okkar er hjá öllum þeim sem þessi atburður hefur haft áhrif á.“
Bryndís Klara fæddist í Reykjavík 2. febrúar 2007. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 30. ágúst 2024.
Athugasemdir