Hann var áhugaverður fyrir ýmissa hluta sakir fundurinn sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi héldu til að kynna skýrslu um veiðigjald. Þarna voru saman komnir margir sem telja sig í hópi þeirra sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu, útgerðarmenn sem telja sig rangindum beitta fyrir það eitt að þurfa að greiða þjóðinni, eiganda fiskimiðanna, fyrir veiðirétt á fiskimiðunum.
Einnig var fjallað um þann ófrið sem útgerðarmenn telja að ríki um sjávarútveginn sem réttilega þurfi á friði að halda líkt og aðrar atvinnugreinar. Sá friður á aftur á móti allur að vera á kostnað almennings þar sem sjávarútvegurinn hefur aldrei komið með eitt einasta tilboð um hvað hann væri reiðubúinn að láta af hendi til þjóðarinnar, eiganda fiskimiðanna, svo friður ríkti um atvinnugreinina. Höfundar skýrslunnar hófu mál sitt á að lýsa yfir hlutleysi sínu og þar með efnistökum skýrslunnar en annað átti eftir að koma í ljós.
Veiðigjald - greiðsla fyrir aðföng
Skýrsluhöfundar virðast ekki átta sig á að fiskurinn sem útgerðir sækja á miðin er hráefni eða aðföng útgerða líkt og t.d. veiðarfæri og olía eða hveiti sem bakarameistari þarf að verða sér úti um og greiða fyrir til að baka brauð. Fyrir veiðarfæri og olíu verður útgerðin að greiða uppsett verð en af einhverjum ástæðum kjósa skýrsluhöfundar að kalla greiðsluna sem inna þarf af hendi fyrir réttinn til að veiða úr sameign þjóðarinnar „skatt“. Greiðsla fyrir slíkt veiðileyfi getur vart talist vera skattur frekar en t.d. greiðslan fyrir olíuna. Þetta er fyrsta gryfjan sem skýrsluhöfundar falla í, en Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi telja það sáluhjálparatriði að kalla þessa greiðslu skatt þar sem það þjónar betur áróðri samtakanna. Þessa orðanotkun gera skýrsluhöfundar að sinni.
Minna gjald í dag – meira gjald á morgun
Það eru augljós sannindi að fjármunir sem notaðir eru einu sinni verða ekki á sama tíma notaðir til annars. Þetta gildir um öll útgjöld hvort sem um er að ræða kaup á olíu eða veiðarfærum. Ef svo skyldi vilja til að einhver léti í örlæti sínu olíuna af hendi við útgerðir án þess að krefjast greiðslu þá gefur það auga leið að reksturinn verður ódýrari og hagnaður og skattgreiðslur (vonandi) meiri. Svo örlát eru olíufélögin ekki en þessa örlætis krefst útgerðin af þjóðinni. Skv. skýrslunni ætti þjóðin beinlínis að gleðjast yfir því að fá ekkert fyrir eign sína á fiskimiðunum því útgerðir geta þá í framtíðinni greitt hærri skatta!
Almenningur færði fórnirnar
Mönnum varð tíðrætt um þann viðsnúning sem orðið hefur í íslenskum sjávarútvegi frá þeim árum þegar hann var rekinn með tapi. Þó var ekki minnst á að sú hagkvæmni sem íslenskur sjávarútvegur býr við í dag er fyrst og fremst til kominn vegna þeirra fórna sem færðar voru þegar skipum fækkaði og atvinna í heilu byggðarlögunum lagðist af. Það voru ekki fórnir útgerðarmanna sem margir hverjir seldu sinn hlut fyrir háar fjárhæðir og hurfu á brott, heldur fórnir færðar af almenningi. Þessi fórn, auk núverandi málamyndagjalds sem innheimt er fyrir veiðiheimildir, á mestan þátt í betri afkomu í sjávarútvegi sem svo hefur aftur leitt til þess að sjávarútvegsfyrirtæki eru á góðri leið með að eignast stóran hluta íslensks athafnalífs auk fasteigna á höfuðborgarsvæðinu.
Meingallaðir útreikningar veiðigjalds
Í skýrslunni er farið yfir þær aðferðir sem notaðar eru til að reikna veiðigjaldið. Með réttu finna fræðimennirnir að þeim aðferðum sem nú er stuðst við enda er þar á nokkrum stöðum beitt huglægu mati og hlutföllum sem virðast ekki eiga sér neina sérstakar skýringar.
Engu er líkara en fræðimennirnir sem sömdu skýrsluna þekki ekki til algengrar og hagkvæmrar útdeilingar takmarkaðra gæða (t.d. fiskveiðiheimilda) með útboðum. Slík útboð er auðvelt að skipuleggja þannig að núverandi kvótahafar þurfa ekkert að óttast. Fyrir hönd fræðimannanna skulum við samt vona að það hafi frekar verið að þeir hafi ekki treyst sér til að setja fram skoðanir í andstöðu við skoðanir Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi heldur en að þeim sé ókunnugt um þær leiðir sem flestir fræðimenn á þeirra sviði mæla með þegar útdeila skal takmörkuðum gæðum á borð við veiðileyfi á Íslandsmiðum.
Umframhagnaður í sjávarútvegi
Hvort það er viljandi eða ekki þá er hvergi í skýrslunni talað um „auðlindarentu“ sem einnig má kalla umfram-arð útgerðanna sem eftir verður þegar greiddur hefur verið allur kostnaður og eðlileg ávöxtun fjármuna sem bundinn er í rekstrinum. Renta eða umfram-arður er eitt af þeim hugtökum sem Samtökum í sjávarútvegi hugnast ekki. Þessi umfram-arður hefur árlega verið talinn í milljörðum af kunnáttumönnum á sviði skattheimtu en skýrsluhöfundar leyfa sér að efast um að hægt sé að tala um umfram-arð af sjávarútvegi. Þetta gera þeir þrátt fyrir að sjávaútvegsfyrirtæki eigi beinlínis í erfiðleikum með að koma þessum umfram-arði fyrir og hafa því eignast stóran hlut í fyrirtækjum í alls óskyldum rekstri auk íbúðarhúsnæðis í Reykjavík.
Hámark pópúlismans
Hámark pópúlisma Samtaka í sjávarútvegi er að etja saman höfuðborgarsvæðinu og öðrum byggðum landsins. Þannig gera skýrsluhöfundar að sérstöku viðfangsefni að greina frá að 85% aflaverðmætis verði til utan höfuðborgarsvæðisins þangað sem meirihluta ríkisútgjalda sé síðan beint. Sem Reykvíkingur kannast ég ekki við að hafa fengið tillegg á mínum skattseðli fyrir það eitt að búa á höfuðborgarsvæðinu frekar en að nokkur einasti maður utan höfuborgarsvæðisins hafi séð sérstakt framlag sitt til Reykvíkinga á sínum skattseðli. Það er nefnilega ekki svo að landsvæði eða einstaklingar borgi veiðigjald, það gera fyrirtæki og þau geta verið hvar sem er.
Það að útgjöld ríkisins séu á höfuðborgarsvæðinu er einfaldlega vegna þess að landsmenn hafa komið sér saman um að hafa þjónustu á borð við hátæknisjúkrahús og sérskóla á einum stað og það liggur í hlutarins eðli að greitt sé fyrir þessa þjónustu þar sem hún fer fram.
Kjósi skýrsluhöfundar að taka þennan pópúlisma lengra þá væri nær að þeir skoðuðu aflaverðmæti sem verða til á Dalvík sem eru síðan notuð til að halda úti opinberri þjónustu á Akureyri. Út frá forsendum skýrslunnar þá kæmi ekki á óvart að þar hallaði verulega á Akureyri. Samanburður af þessu tagi ætti ekki að vera samboðinn vísindamönnum með þokkalega sjálfsvirðingu.
Tilgangur umræddrar skýrslu er væntanlega að sýna fram á að veiðigjöld greidd þjóðinni fyrir að fá að veiða úr fiskistofnunum (sem eru ótvírætt í hennar eigu) sé ekki góð hugmynd. Höfundarnir telja miklu frekar að þjóðin ætti helst ekki að krefjast neins fyrir veiðar úr sameign þjóðarinnar. Skýrslunni er sennilega ætlað að sveipa viðfangsefnið fræðilegu yfirbragði og hún kynnt sem endanleg sannindi um að veiðigjöld séu af hinu vonda.
Sé sú tilgáta rétt þá hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi keypt köttinn í sekknum.
Athugasemdir (3)